Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Staðreyndir og staðtölur

Ég hef dvalið víða um heim og fylgst með pólítískum rökræðum hér og hvar á hnettinum. En ég þekki ekkert land þar sem eins mikið er vitnað í staðtölur eins og á Fróni. Álitsgjafar sjóða talnasúpur og bera á borð fyrir almenning. Súpurnar reynast alltof oft vera naglasúpur, skynseminni verður bumbult af.

Um staðtölunnar lúmska eðli

Hættum nú metafórísku tali og vindum okkur beint að kjarna málsins. Ég mun reyna að sýna fram á að æði margir áliítsgjafar geri ýmsir meginvillur í meðhöndlun á staðtölum: Margir hunsa óþægilega statistík, fara rangt með heimildir, geta ekki heimilda, og fremja rassvasavilluna. Rassvasavillan felst í því að halda að staðtölur um samfélagið geti verið hlutlægar með sama einfalda hætti og hægt er að finna meðaltal fjár sem menn hafa í rassvösum sínum. Ég er kannski með tíkall í vinstrirassvasa, tuttugu í þeim hægri og meðaltalið er auðreiknað, fimmtán krónur. En þetta eru sjálfsögð sannindi sem engu skipta. Staðtölur um samfélagið sem máli skipta í pólítískri umræðu eru þess eðlis að þær þarf að túlka. Tökum einfalt dæmi sem ættað er frá Paul Krugman. Hugsum okkur bar þar sem sitja tíu kónar og þjóra, meðaltekjur þeirra eru vel undir amerísku meðaltali. En allt í einu birtist Billy Gates og fær sér í glas.  Og sjá, meðaltekjur bargesta verða skyndilega  milljón skrilljónir. Hér segir einfalt meðaltal okkur ekkert, við verðum að reikna meðaltalið með öðrum hætti, t.d. með því að finna miðlínu (e. median). Það getur þýtt að tekjur þess einstaklings á barnum sem hefur sjöttu hæstu tekjurnar teljast meðaltekjur, hann er nákvæmlega í miðjunni. Fullt eins má skipta bargestum í flokka eftir tekjum og gera ráð fyrir að meðaltekjur þeirra sem eru miðflokknum séu meðaltekjur bargesta. Hið eina rétta svar er ekki mögulegt, hins vegar eru til reikningsmátar sem eru alveg út í hött. Athugið að meira að segja í þessu einfalda dæmi er ekki gefið hvernig reikna beri meðaltöl, nær má geta hvort auðveldar sé að finna hið eina sanna meðaltal þegar rætt er um tekju- og eignadreifingu í stórum samfélögum. Annar vandi statistíkurinnar varðar skilgreiningar á hugtökum og siðferðilegt gildismat. Til að skýra hvað við er átt hyggst ég segja frá kenningum þeirra Steven Levitts og Stephen Dubners sem þeir settu fram í bókinni Freakonomics. Samkvæmt opinberum staðtölum minnkaði tíðni morða vestanhafs all mikið frá sjöunda áratugnum fram á allra síðustu ár (tíðnin hefur aukist aðeins á síðustu 2-3 árum en bók þeirra félaga kom út 2005). Þeir segja að líklegasta skýringin sé lögleiðing fóstureyðinga. Fátækar, einstæðar mæður, sem einatt voru í neyslu og bjuggu í hættulegum hverfum, eyddu oftar fóstrum en aðrar konur. Meiri líkur séu á því að börn slíkra mæðra verði morðingar en börn annarra mæðra. Því hafi mögulegum morðingjum einfaldlega verið eytt í móðurkviði. En Levitt og Dubner viðurkenna að andstæðingar fóstureyðinga geti sagt að eiginlega hafi tíðni morða aukist á þessu tímabili því fóstureyðingar séu morð. Sen sagt, öll statistík um morð er skorðuð af skilgreiningum á hugtakinu um morð. Sé fóstureyðingar ekki talin morð þá hefur morðtíðnin minnkað, séu þær taldar morð þá hefur hún aukist. Siðferðilegt gildismat ræður því hvor skilgreiningin telst rétt. Sé slíkt gildismat öldungis huglægt þá er tómt mál að tala um réttar eða rangar skilgreiningar á hugtökum eins og "morð" og  út í hött að tala um réttar eða rangar staðtölur um morð (gnægtarhornið mikla, bók mín Kredda í kreppu geymir upplýsingar um dæmi Krugmans og kenningar Dubners og Levitt).

Kórvilla Þórðar Snæs

Þórður Snær Júlíusson er góður álitsgjafi og samfélagsrýnir, ég er oftar sammála honum en óssammála. En skýrum vill  skjöplast, Þórður Snær gerir sig sekan um grófan misskilning á hugtakinu um tekjur. Hann telur lítið að marka tölur sem sýna tiltölulega jafna dreifingu tekna á Íslandi og segir að tekjur séu fremur of jafnar en hitt. Menntun borgi sig vart fjárhagslega. En þessi og fleiri ummæli hans sýna að hann heldur í fúlustu alvöru að tekjur séu það sama og laun. Það er tóm vitleysa, ég tel ágóða af hlutabréfum og vexti af bankainnstæðum fram til tekjuskatts, um er að ræða tekjur, þótt ekki séu þær launtekjur. Til eru menn sem hafa allar sínar tekjur af vöxtum og hlutabréfaágóða. Eða hvers vegna tala menn um „launatekjur“? Væru laun og tekjur hið sama þá myndi orðið „launatekjur“ vera álíka vitlaust og „vatnvatn“. Dæmið sýnir að þrátt fyrir allt eru til sæmilega hlutlægar staðreyndir sem tengjast statistík. En þær eru sjálfsagt ekki blákaldar, fremur volgar, jafnvel hlandvolgar. Taka verður tillit til margra þátta þegar tekjudreifing er mæld. Spyrja verður hvort líta beri á brúttótekjur eða nettótekjur, þ.e. tekjur eftir skatt og mögulegri innkomu frá hinu opinbera. Og þá erum við komin  á svið túlkunar þar sem lítið rými er fyrir meintar blákaldar staðreyndir. Nefna má að einhverjar staðtölur sýna að tekjujöfnuður sé hvergi meiri eftir skatt en á Fróni.

Hægristórvillur

Þórði  Snæ væri nær að spyrja hve mikið sé að marka tölur um tekjudrefingu. Þær tölur eru  ekki heilagar fremur en aðrar staðtölur. Hugsanlega svíkja íslenskir ríkisbubbar meira undan skatti en stéttsystkini þeirra í nágrannalöndum með þeim afleiðingum að þeir telji lægri upphæðir fram til skatts en þeir ættu að gera. Sem kunnugt er voru  600 Íslendingar  í Panamaskjölunum, aðeins 200 Norðmenn. En nýlega staðhæfði norskur sérfræðingur í viðtali við Aftenposten að ríkasta prósentið í Noregi sviki allhressilega undan skatti. Hann áætlaði að þeir borguðu að jafnaði 30% minni skatt en þeir ættu að gera lögum samkvæmt. Spyrja má hvort íslenska 1% sé skárra. Alla vega er alls ekki útilokað að tekjudreifingin íslenska sé mun ójafnari en opinberar tölur sýna. Hægrimenn á borð við Heiðar Guðjónsson vitna grimmt í þessar tölur eins og heilagan sannleika. Heiðar og hans samherjar virðast ekki vita að ginistuðulinn er umdeildur. Sé hann meingallaður er ekki mikið að marka tölur um tekjudreifingu sem á honum byggja. Heiðar og félagar fremja rassvasavilluna, tala eins og hin eina sanna staðtala hljóti að vera til.   Heiðar þegir líka yfir þeirri staðreynd að nýlegar tölur um dreifingu auðs og eigna sýna að þeim sé misdreifðar á Íslandi en víðast á Vesturlöndum. Talið er að 10% þjóðarinnar eiga 70%-eignanna. Aðeins tvö Vesturlanda hafa ójafnari dreifringu samkvæmt þessari ransókn, Sviss og BNA. En þegar litið er á auð og eignir ríkasta prósentsins þá lendir Ísland „bara“ í 6-7 sæti, samkvæmt rannsókninni. Hvort á að leggja megináherslu á eigur auðugustu tíundarinnar eða prósentsins? Á kannski að nota þriðja viðmiðið?

Víkjum að öðru. Einhver Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, fer mikinn í Mogga og mærir efnahagsástandið á Fróni. Nú sé landið í fimmta sæti hvað varðar verga landsframleiðslu á mann. En forstjórinn athugar ekki að V.L.F. á mann er reiknuð á .am.k. tvo mismunandi vegu. Þeir útreikningar sem hann vitnar taka aðeins tillit til nafnvirðis, á ensku er talað um „nominal GDP“. Margir telja betra að taka framfærslukostnað með í reikningin, PPP. Samkvæmt þeim útreikningum er Ísland bara í 23 sæti.

Samtök atvinnulífsins halda því nú fram að íslenskar tekjur séu næst hæstar á Norðurlöndum. En samtökin nefna ekki tekjur á hverja vinnustund. Er ekki líklegt að Íslendingar þurfi að vinna meir fyrir tekjum sínum en aðrir Norðurlandabúar? Má ekki reikna frítíma sem efnahagsleg gæði?

Gunnars þáttur Smára

„Nú er hún Snorrabúð stekkur…“ Fréttatíminn farinn veg allra veralda, heimasíðan með. Hvað sem segja má um viðskilnað ritstjórans, Gunnars Smára Egilssonar, þá verður því vart neitað að hann tók framförum sem álitsgjafi í ritstjóratíð sinni. Enda veitti ekki af. Hann skrifaði pistlaröð um „vonda heilbrigðiskerfið“ og var sjálfsagt margt vel athugað í henni, ekki síst það sem hann segir um aðkomu einkaaðila. En hann hunsar staðtölur sem eiga að sýna að heilbrigðiskerfið íslenska sé með þeim bestu í heimi (ein rannsókn setur íslenska kerfið í áttunda sæti, önnur í annað  sæti, hin eina sanna staðtala er ekki til). Aftur á móti stóð hann sig vel þegar hann gagnrýndi þá sem héldu að tölur um gott heilbrigðisástand Íslandi sýndu að heilbrigðiskerfið væri í góðu lagi. Hann benti á að samkvæmt þessari rannsókn væru margir þættir sem hefðu áhrif á heilbrigði, þar á meðal mengun. Heilbrigðiskerfið sem slíkt er aðeins eitt margra þátta.

Lokaorð

Því miður eru íslenskir álitsgjafar gjarnir á að hunsa óþægilegar staðtölur, fara rangt með staðreyndir og fremja rassvasavilluna. Þeir skilja ekki að aðgát skal höfð í nærveru talna, forðast skal kjánalegt talnahjal.

Við þurfum heilsurækt, heilsurækt hinnar pólitísku umræðu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni