Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Skáldið frá Hamri

Friedrich Nietzche vildi stunda heimspeki með hamrinum, slá með honum á skurðgoðin, athuga hvort holur hljómur væri í þeim, mölva þau ef svo væri. Þannig skyldi endurmeta öll verðmæti.

Orti Þorsteinn frá Hamri með hamrinum? Sé svo þá notaði hann hamarinn með varfærni, mölvaði fátt, þótt vissrar vinstriróttækni gæti í fyrstu bókum hans. Alltént heyrðist honum holur hljómur vera í ýmsum skurðgoðum hins háværa og glysgjarna   nútíma. Honum voru íslenskar hefðir kærar, ef til var hann íhaldssamur hvað menningu varðar.

Hverjir búa í hamrinum aðrir en álfarnir? Um álfa skrifaði Þorsteinn meðal annars í sagnaþættinum af Hallgrími smala og húsfreyjunni á Bjargi. Huldufólkið kemur mjög við sögu í íslenskum þjóðsögum en í þær vitnaði Þorsteinn grimmt í ritverkum sínum. Himinbjargarsaga og skógardraumur er ævintýri í skáldsögubúning. Í þeirri bók  notar Þorsteinn hamarinn óspart á pólitísk skurðgoð. En játað skal að ég hef aldrei náð almennilegu sambandi við prósaverk Þorsteins, sum þeirra hef ég hreinlega ekki nennt að klára.

Um ljóðin gegnir öðru máli, til þeirra get ég leitað hvað eftir annað. Þau eru mörg hver ansi torræð en með heillandi hætti, sérhver ný lesning opnar nýjar dyr. Samt er ýmislegt auðskilið og auðmunað í ljóðum hans, vel orðað og meitlað: „Enginn er einn þó hann virðist stakur“ (úr ljóðinu Enginn er einn). Við erum öll öðrum háð og að ekki óverulegu leyti  afurð þess samfélags sem mótaði okkur til góðs eða ills.

Í ljóðinu Rúnarista segir:

„ Á brast orðahrið

Vér lifum og nögum ljóðkjúkuna“

Ljóðið Á þjóðveginum hefst með svofelldum hætti: „Að nýju ljósta mig nánd og fjarlægð sálar“. Sumpart er sálin það sem okkur er næst, við erum á vissan hátt hugsanir okkar og kenndir en um leið er fátt torskildara og fjarlægara en eigið geð.

Í kvæðinu Heimsundur virðist skáldið yrkja um hinn háværa nútíma samfélagsmiðlanna: „Allir á njósn hjá öllum, fjær eða nær!“ Ég bæti við: Sykurbergur ávallt á hleri!

Annars er efahyggja eitt helst stefið í kvæðum Þorsteins, það sést m.a. í kvæðinu Úti sem hefst á þessum orðum „Ég reyni að festa hendur á henni veröld“ og lýkur svo:

„Og hvor um sig spyr hinn:

Hvar er hún veröld?“

Náttúran er enn eitt stefið, hún birtist oft sem huggandi afl: „Og regnið grét mér gersemum sem entust mér lengur en ofurbirtan“ (úr ljóðinu Skýin lágu svo lágt). Sálarlíf skáldsins eða ljóðmælanda er líka mikilvægt stef, ljóðabókin Spjótlög á spegil virðist játningarbók. Hið snjalla heiti hennar gæti vísað til sjálfshaturs.

Greina má að minni hyggju þrjú skeið á ferli Þorsteins, frumskeið til 1970 þar sem gætir nokkurar róttækni og finna má sterka hneigð til að fara meðalveginn milli módernisma og hefðbundinna ljóða. Þá var hann oft nefndur í sömu andrá og Hannes Pétursson, ekki leiðum að líkjast! Á öðru skeiðinu frá 1970-1985 er skáldið leitandi, skrifar m.a. prósa með misjöfnum árangri. Á lokaskeiðinu 1985-2018 verða ljóðin klárlegar módernísk og æði torræð á köflum.

Hamarinn notaði Þorsteinn  til að smíða skáldastál, hárbeitt og skínandi bjart. Og fagurt.

PS Ljóðið Enginn er einn birtist í ljóðabókinni Fiðrið úr sæng daladrottningar sem út kom 1977, Rúnarista í Spjótalög á spegil  frá 1982, Á þjóðveginum í Jórvík frá 1967, Heimsundur í Skessukötlum frá 2013, Úti í Vatns götur og blóðs frá 1989, Skýin lágu svo lágt í Núna sem kom út árið 2016.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni