Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Sgt. Pepper fimmtug!

Sgt. Pepper fimmtug!

„It was FIFTY years ago today, Sgt. Pepper taught the band to play…“, Bítlarnir sungu reyndar „twenty years“ en ég tók mér bessaleyfi að breyta textanum þar eð platan verður fimmtug á fimmtudaginn. Tímamótaplatan Sgt. Pepper‘s Lonly Hearts Club Band. Fyrsta konseptplatan, plata sem myndar heild í kringum gefið stef, stefið hér er  hljómsveitin sem kennd er við Pepper liðþjálfa. Bítlarnir þykjast vera þessi hljómsveit og platan upptaka á hljónleikum þeirra.

Hippaplata?

Hún kom út ástarsumarið mikla þegar hipparnir voru í brennidepli, ungt fólk prófaði hass og L.S.D. Enda var mikið rætt um mögulega dóptilvísanir á plötunni, „Lucy in the Sky with Diamonds“ var lesið sem L.S.D. Annað lag, „A Day in the Life“ þótti líka hafa dóptilvísanir. Viðlagið hljómar svo: „I‘d love to turn you on“. Og Paul syngur að hann „…had a smoke, somebody spoke and I went into a dream“. Menn spurðu: Var að hann reykja hass og sofnaði út frá því? Hvað sem öllum dóppælingum líður þá hafði platan feykileg áhrif enda var hún ein fyrsta progrokkplatan (ég tel ekki með þá ömurlegu Beach Boys plötu „Pet Sounds“, ofmetnustu plötu rokksögunnar). Hún heldur enn sínum mikla ferskleika, ekki bara vegna tónlistarinnar heldur líka umslags og ímyndar Bítlanna.

Rokkheimar

Rokk lýtur öðrum lögmálum en sígild tónlist, rokktónlist er hluti af heild þar sem umslag, ímynd tónlistarmannanna og fleira leika mikið hlutverk. Hið litríka og frumlega umslag Sgt. Pepper‘s skiptir miklu, það breytti og styrkti ímynd Bítlanna og efldi áhrifin af tónlistinni. Í nýlegum fyrirlestri um Dylan og Cohen, sem ég hélt í Birmingham, kynnti ég hugtak mitt um rokkheiminn. Ég sagði að rokklag yrði ekki skilið nema í ljósi rokksins sem heildarheims og sérheims rokkaranna sem spila lagið. Lagið, textinn, umslagið, saga hljómsveitarinnar og ímynd hennar mynda mikinn túlkunarhring sem gerir skilning á laginu mögulegan. En án þess að hrífast spontant með öllum skrokknum af rokklagi geta menn vart talið það gott.

Ég sit nú og hlusta á margnefnda Bítlaplötu. Sérhver taug í líkama mínum sveiflast í takt við tónlistina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni