Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Trump fer  mikinn þessa dagana að vanda, úthúðar viðskiptaþjóðum Bandaríkjanna og setur stórtolla á innflutning frá þeim.

Þjóðir eru ekki fyrirtæki

Hann skilur ekki að þjóðir eru ekki fyrirtæki. Löngu fyrir forsetatíð hans skrifaði nóbelshagfræðingurinn Paul Krugman grein þar sem hann benti á að samkeppni þjóða er gagnólík samkeppni fyrirtækja. En viðskiptamenn haldi ranglega að þjóðir keppi um markaðshlutdeild með þeim hætti að vinni ein þeirra tapi hinar. En vinni Japan markaðshlutldeild sem Bandaríkin áður höfðu þýðir það ekki að Bandaríkjamenn sjálfkrafa tapi. Þeir geta nú keypt varning frá Japan sem er ódýrari en sá bandaríski var, þannig græði  bæði Bandaríkjamenn og Japanir. Viðskiptamennirnir athugi ekki muninn á einkafyrirtækjum og þjóðum, ef Pepsi vinnur markaðshlutdeild þá tapar Kók venjulega enda kaupa Pepsístarfsmenn ekki endilega kók í stórum stíl. En Bandaríkjamenn og Japanir kaupa vörur hvor af öðrum í miklum mæli. Og lönd fara ekki á hausinn vegna samkeppni þótt einkafyrirtæki geri það. Viðskiptamennirnir haldi líka að búi land við viðskiptahalla þá þýði það að landið sé að tapa efnahagslega. En þeir skilji ekki að slíkur halli getur þýtt að landið laði til sín fjármagn frá öðrum löndum og tapi því ekki á hallanum heldur græði ( bæta má við að Bandaríkin eru land sem laðar til sín erlent fjármagn og því engin furða þótt þau búi við viðskiptahalla). Trump hugsar augljóslega með sama hætti og þessir viðskiptamenn.

Viðskiptahalli og arðrán

Í ofan á lag segja staðreyndavaktir að hann ofmeti viðskiptahalla Bandaríkjanna, hann athugi ekki að þótt mikill halli sé á viðskiptum með hluti þá flytji Bandaríkin meira út af þjónustu en þeir flytji inn.  Hann mun hafa staðhæft á G7 fundinum að Bandaríkin hefðu enga tolla, gagnstætt hinum G7 ríkjunum. En samkvæmt upplýsingum Heimsbankans hafa Bandaríkin heldur hærri tolla á innfluttum varningi en Kanada og Japan en ögn lægri en ESB ríkin. Þróuð ríki hafi yfirleitt fremur lága tolla  að jafnaði en flest þeirra hafi tiltölulega háa tolla á vissum varningi, segir norski hagfræðingurinn Arne Melchior.  Til dæmis hafi Bandaríkin nokkuð háa tolla á vefnaðarvöru, sumum landbúnaðarvörum og trukkum. Melchior bæti því við að Bandaríkjamenn fái venjulega vilja sínum framgengt í alþjóðlegum viðskiptaviðræðum og því fáránlegt að telja að aðrar þjóðir níðist á þeim. Ástæðan fyrir viðskiptahalla Bandaríkjanna sé lítill sparnaður innanlands og mikill halli á fjárlögum.  Til þess að fjármagna þennan halla og sparnaðarleysuna  verða Bandaríkin að taka stór lán í öðrum löndum. Skattalækkanir Trumps og áform um  opinber stórútgjöld til hugðarefna sinna  munu  gera illt verra (skv Aftenposten 18/6 18). Enn ein ástæða hallans er sú að neytendur taka ódýrar og vandaðar vörur frá útlöndum fram yfir dýrari og síður vandaðri bandarískan varning.

Forsetinn  staðhæfir að Kínverjar vilji ekki kaupa bandaríska bíla en staðreyndavakt ein segir að þetta sé alrangt, þeir flytji inn meira af bandarískum bílum en Bandaríkin flytji inn af bifreiðum, framleiddum í Kína. Hvað um  staðhæfingar hans um svindl Kínverja, þeir steli hugmyndum frá Bandaríkjum og noti í framleiðslu? Það er sennilega eitthvað til í þessu, alla vega ef marka má staðreyndavakt Washington Post sem yfirleitt hrekur allt sem Trump segir. En eiga Kínverjar einkarétt á að nota varasamar aðferðir til að styrkja efnahagslíf sitt? Sumir segja að Bandaríkjamenn séu ekki hætishót betri. Í bók sinni Why do People Hate America? Segja þau Merryl Wyn Davies og Ziauddin Sardar að eftir að gullfóturinn hvarf hafi dollarinn orðið heimsmynt og Bandaríkin getað manípulerað heimshagkerfið sér í vil. Þeir fjármagni hagvöxt sinn með sparnaði annarra þjóða. Þess utan sé hnattvæðingin á þeirra forsendum: „The US interprets trade liberalisation to mean one way, open access for American mulitnationals and businesses“ (bls. 76). Ekki nóg með það, alls konar samningar á vegum W.T.O. tryggi bandarískum landbúnaði öfluga stöðu gagnvart landbúnaði þriðja heims ríkja með þeim afleiðingum að þau síðastnefndu tapi tveimur milljörðum dollara á dag. Nú eru Sardar og Davies ansi öfgakennd í andúð sinni á Bandaríkjunum. Þau skilja ekki að sennilega fjármagna Bandaríkjamenn hagvöxt sinn að miklu leyti með hugviti sínu, samanber firnasterka stöðu bandaríska hugbúnaðariðnaðarins. Þess utan þjónar meint landbúnaðarðrán sennilega bara hagsmunum bænda og stórfyrirtækja í landbúnaði, hvorki bandarísks almenning né auðkýfingum sem ekki fjárfesta í landbúnaði. Þessir aðilar tapa fremur en hitt á landbúnaðarstefnunni, þurfa að borga meira fyrir landbúnaðarvörur um leið og stórfyrirtæki í landbúnaði efla stöðu sína á kostnað annarra stórfyrirtækkja. En kannski er þetta rangt, það gæti verið sannleikskjarni í gagnrýni Davies og Sardars, kannski fjármagna Bandaríkin hagvöxt bæði með hugviti, ofurveldi dollarans og arðráni á þriðja heiminum. Er Trump nokkuð síður öfgakenndur í noju sinni gagnvart umheiminum en þau Davies og Sardar? Sannleikurinn er slyppifengt hnoss, samt gæti skunkur eins og Trump gæti rambað á hann einstaka sinnum og þau Davies og Sardar gætu slysast til að segja satt. Emmanuel Todd er öllu hógværari í gagnrýni sinni á Bandaríkin en þau. Hann segir í bók sinni Eftir daga heimsveldisins (fr. Après Empire) að Bandaríkin laði ekki til sín fjármagn bara vegna þess vegna áhættusækið og gróðavænlegt bandarískt hagkerfi er heldur vegna þess að ofurveldi Bandaríkjanna sé trygging fyrir því að innflutt fjármagn glatist ekki. Með því græði Bandaríkjamenn einhver ósköp með óefnahagslegum hætti. Sé svo er um að ræða rentu, fjármagn sem fæst án þess að menn leggi eitthvað á sig eða á móti.

Enn um Trump, Kínverja, viðskiptahalla o.fl.

Víkjum aftur að Trump og Kínverjum. Jafnvel þótt Kínverjar kunni að beita vafasömum aðferðum þá er ekki þar með sagt að innflutningur á ódýrum varningi frá Kína sé ekki flestum Bandaríkjamönnum í hag. Með því að borga minna fyrir vörur verður eftir meira fé til að fjárfesta með, t.d. í störfum handa þeim sem missa vinnuna vegna samkeppni frá Kína. Reyndar segir ekki ómerkari maður en Alan Greenspan að það sé alger vitleysa að aðrar þjóðir ræni Bandaríkjamenn. Trump hefur jú hvað eftir annað staðhæft að svo sé og notar sem sannindamerki viðskiptahalla Bandaríkjanna. En eins og áður hefur komið fram er það tóm tjara að viðskiptahalli hljóti að þýða að lönd sé arðrænd af öðrum löndum. Og ef Bandaríkjamenn væru svona arðrændir, af hverju hafa þeir ríku vestanhafs orðið svona ógnarríkir? Auður þeirra vex hrikamikið ár hvert á meðan bandarískur almenningur má snapa gams. En ef allir Bandaríkjamenn væru arðrændir af útlendingum þá myndi þessi mikla auðsöfnun tæpast hafa átt sér stað. Trump hefur staðhæft að mikill fjöldi meira eða minna ólöglegra innflytjenda valdi launalækkun og atvinnuleysi. Það er sennilega eitthvað til í því. En hann nefnir ekki það sem flestir hagfræðingar telja meginorsök þessarar vanþróunar, stóraukin sjálfvirkni í efnahagslífinu (þetta ferli kann að staðfesta kenningar Karls Marx sem taldi að aukin sjálfvirkni myndi ríða kapítalismanum á slig!). Í bókum á borð við The Conscience of a Liberal segir Paul Krugman  að stefna Repúblikana eigi mikinn þátt í þessari óheillaþróun, þeir hafi kerfisbundið ýtt undir rassgatið á auðkýfingum og stórfyrirtækjum en níðst á millistéttinni og fátæklingunum. Auðherrann Trump stundar sama ljóta leik.

En um eitt get ég verið sammála Trump: Hnattvæðingin er ekki eins heilög og sumir halda.

NATO

Enn eitt atriðið í arðránsvæli Trumps eru staðhæfingarnar um NATO. Bandaríkin fjármagni 80% af útgjöldum NATOs. Staðreyndavaktir hafa hrakið þessa vitleysu, Trump talar eins og öll útgjöld Bandaríkjanna til hermála séu útgjöld til NATO en stór hluti þeirra varði hernaðarumsvif Bandaríkjanna utan NATOríkjanna. Hann heldur því fram að NATO ríki sem noti minna en 2% af þjóðartekjum til hernaðarútgjalda skuldi Bandaríkjunum milljarða. En hann virðist ekki vita að þessi ríki hafa ekki tekið á sig neinar skuldbindingar um hernaðarútgjöld heldur voru NATO hvött til að auka hernaðarútgjöld sem þessu nemi (2% af þjóðartekjum). Hvatning er ekki skuldbindandi.

Hann skilur heldur ekki að það að veita ýmsum ríkjum hervernd þjónar hagsmunum Bandaríkjanna og er hluti af varnarkerfi þeirra. Ef fjandsamleg stórveldi næðu tangarhaldi á Evrópuríkjunum, Japan og Suður-Kóreu myndi það ógna öryggi Bandaríkjanna og stórskaða þau efnahagslega. Herstöðin á Miðnesheiði gat ekki varið Ísland en lék mikilvægt hlutverk í varnarstarfi Bandaríkjanna með því að fylgjast með sovéskum herþotum, herskipum og kafbátum. Bæta má við að róttækir gagnrýnendur Bandaríkjanna telja að herveldi þeirra sé  ekki landinu til varnar heldur liður í arðráni Kana  á þriðja heiminum.

Lokaorð

Af framansögðu  má sjá að staðhæfingar Trumps um að aðrar þjóðir arðræni Bandaríkin er tóm þvæla. Lýðskrumarar hafa löngum beitt þeirri aðferð að kenna öðrum þjóðum og trúflokkum um það sem miður fer í landi þeirra. Hvað sagði Hitler aftur um Gyðingana?

PS Eitthvað gekk brösuglega að koma nokkrum slóðum (urlum)  inn í færsluna. Grein Krugmans heitir "A Country is not a Company", Harvard Business Review 1996, auðfinnanleg á Netinu.

Hvað viðskiptahalla BNA varðar vitna ég í staðreyndavakt Associated Press, hvað hinar varðar í www.factcheck.org. Auðfinnanlegt á netinu.

Bók Todds las ég í þýskri þýðingu  Weltmacht USA. Ein Nachruf. Ensk þýðing nefnist After the Empire.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu