Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Opið bréf til Hannesar Hólmsteins

 

Sæll Hannes og takk  fyrir enn eina ritdeiluna! 

Í svari þínu hefurðu  leikinn með  því að gera mér upp skoðanir, segir mig vera andsnúinn kapítalisma. Það er ég alls ekki, kapítalisminn hefur bæði kosti og galla, sé rétt á málum haldið vega kostirnir meir en gallarnir.

En ég hef jafn litla  trú á draumórum um frjálsa markaðsskipan og á lýðræðislegum sósíalisma.

Frjáls markaður ekki mögulegur.

Í fyrsta lagi er vandséð hvernig hægt sé að raungera frjálsan markað. Flestir hagfræðingar viðurkenna að svo sé, t.d. segir Joseph Stiglitz að frjáls markaður hafi að forsendu að allir markaðsgerendur þekki alla mögulega kosti sem markaðurinn bjóði upp á, hafi fullkomna yfirsýn yfir hann. En slíkt sé ekki mögulegt í raunheimum, enginn er alvitur. 

Auk þess hafi frjáls markaður að forsendu að allir markaðsgerendur hafi  jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir kosti. En svo sé ekki í hinum napra veruleika handan líkananna velhönnuðu.

Þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (e. asymmetric), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar.

Það sé  munur á Jónu og séra Jóni í markaðsprestakalli, hinir ríku og voldugu hafi meiri aðgang að markaðsþekkingu og eigi betri færi en almúginn. Þess vegna geti frjáls markaður  ekki  verið til (Stiglitz 2002: 73-74, 254).

Í öðru lagi er engan veginn ljóst að gott sé   að reyna að raungera frjáls markaðshætti eins mikið og kostur er á. Þú hefur sjálfur viðurkennt að alfrelsi á miðunum muni leiða til þess að fiskimiðinn tæmist.

Auk þess kann ósamhverfni markaðsþekkingar að stuðla að stéttkúgun, hinir ríku hafi bestan aðgang að upplýsinga og geta í krafti þeirra kúgað lýðinn (þetta segir David Harvey 2005: 68).

Í ofan á lag geta sérstakar eiginleikar vöru skapað fákeppni eða einokun á vissum sviðum á vissum tímaskeiðum. Tökum forrit sem dæmi. Microsoft  er svo gott sem heimseinokunaraðili á forritunarmarkaðnum, sú einokun var ekki sköpuð af ríkisvaldinu. Það kostar firnaháar fjárhæðir að búa til nýja útgáfu af Windows en bókstaflega ekkert að afrita þær.

Norski fræðimaðurinn  Bent Sofus Tranøy segir að við þessar aðstæður er stórrekstur mjög hagkvæmur, kostnaðurinn dreifist á urmul afrita en um leið er mjög erfitt fyrir keppinautana að komast inn á markaðinn því ný forrit eru ógnardýr. Auk heldur er þessi einokun eða einsleitni sumpart hagkvæm fyrir neytandann því hann græðir á því að margir noti sömu forrit.

Eitt er fyrir sig að auðvelt er að taka á móti skjölum ef allir nota Word, annað er að auðveldara er að læra á forritunarkerfin ef velflestir nota sama kerfi, þá geta menn hjálpað hver öðrum.

Gallinn sé sá að Microsoft eigi alls kostar við neytandann, geti látið gömul forritunarkerfi eyðileggjast og þannig neytt neytandann til að taka í notkun nýtt kerfi annað hvert ár. Spurningin er hvort þekkingariðnaðurinn hafi innibyggða einokunarhneigð sem sýni sig í stöðu Microsoft (Tranøy 2006: 52-53).

Hafi Tranøy á réttu að standa má ætla að einokunarhneigð muni aukast á næstu árum því vægi þekkingariðnaðarins mun vafalaust aukast.

Mér sýnist Facebook vera orðið hálfgert einokunarfyrirtæki. Síður þess sjúga til sín veftímarit og heimasíður, það kostar fé að reka slíkt en menn geta stofnað tímarit og gert síður ókeypis á feisbók.

En hér ber að slá varnagla, þótt sérstakir eiginleikar forrita  kunni að leiða til einokunar þá má ekki gleyma því að tölvu- og netiðnaðurinn bandaríski var að miklu leyti sköpunarverk ríkisvaldsins.

Ég hef áður bent á að án ríkisfjármagnaðra grunnrannsókna hefði þessi iðnaður vart komist á koppinn. Á þetta leggur ítalsk-ameríski hagfræðingurinn Mariana Mazzucato mikla áherslu. Mikið af þeirri tækni, sem Kísildalur er frægur fyrir, hafi annað hvort verið sköpuð af ríkisstarfsmönnum eða verið dyggilega studd af þeim.

Til dæmis hafi Sergei Brin og félagar notið ríkisstyrks þegar þeir hönnuð sín frægu algrím. Í ofan á lag byggi veldi Kísildals ekki síst á hátækni-eftirspurn bandaríska ríkisins og þá aðallega hersins (Cameron án ártals).

Blandað hagkerfi blífur.  

Hagkerfi Kísildals er að mörgu leyti blandað hagkerfi og það svínvirkar. Rétt eins og háir verndartollar fyrir ungan iðnað en velflest, ef ekki öll,  iðnríki hafa iðnvæðst bak við tollmúra. Til dæmis voru bandarískir tollar hærri en víðast í Evrópu á frumbýlingsárum iðnaðarins vestanhafs (Stefán og Kolbeinn 2005: 33).

Suður-Kórea iðnvæddist hraðar en nokkuð annað land í sögunni, að sjálfsögðu bak við tollmúra. Nefna má að iðnvæðingin þar eystra  hófst með þeim hætti að ríkið þjóðnýtti bankana (Harvey 2005: 107).

Auk þess ráku Suður-Kóreumenn takmarkaðan áætlunarbúskap, gerðar voru fjögurra ára áætlanir og kóreskum fyrirtækjum gert að sameinast í risafyrirtæki á borð við Samsung.

Fyrir þessu stóð einræðisherrann Park Chung-Hee, hann hafði vit á að nota hina gífurlega miklu þróunaraðstoð Bandaríkjamanna á skynsamlegan máta. Hið sama gildir um Tævan, þar var líka rekinn „hófsamur“ áætlunarbúskapur og þróunaraðstoð notuð skynsamlega. Landið  er sagt hafa  fengið einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala í aðstoð frá BNA (Cullather (1996): 1-26).

Breska dagblaðið The Guardian segir að Suður-Kórea  hafi á árunum 1946 til 1978 þegið 60 milljarða bandaríkjadala frá Bandaríkjunum, ýmist í mynd beinnar aðstoðar eða lána. Á sama tíma hafi þróunaraðstoð BNA við Afríku numið 68 milljörðum dala. (The Guardian 28/11 2011).

En þú, Hannes,  hefur haldið því fram að slík aðstoð sé af hinu illa. Ekki nóg með það, þú hefur haldið því fram að Suður-Kórumenn hafi aldrei notið slíkrar aðstoðar. (Hannes (1997): 294).  Viltu ekki segja Tævönum og Suður-Kóreumönnum það?

Vinur þinn Hayek sagði að takmarkaður áætlunarbúskapur væri ekki mögulegur, annað hvort yrði hann altækur eða þá yrði að láta hann fokka. Viltu ekki segja þessum Austurasíuþjóðum þær?

Þær höfðu reyndar vit á að losa sig við áætlunarbúskapinn þegar hann hafði unnið sitt gagn, slíkur búskapur virðist eiga best við á iðnvæðingarskeiði. Eins og segir í Biblíunni „Öllu er afmörkuð stund“.

Hvað Oskar Lange varðar þá spyr ég „á ég að gæta bróður míns“? Ég hef takmarkaða trú á hugmyndinni um lýðræðislegan sósíalisma,  blandað hagkerfi er líklega illskásti kosturinn. Málið er að blanda rétt, það er erfið og áhættusöm vinna.

Samt má velta því fyrir sér hvort ástandið í sumum af kommúnistaríkjunum fyrrverandi hefði orðið nokkuð verr þótt leið Langes hefði verið farin eftir 1990. Vart hefði útkoman verið verri en sú sem sjá má í dag, hrikaleg spilling og valdníðsla.

Skattar, BNA, Norðurlönd.

Þú býsnast yfir skattaáþján og virðist telja skattalækkanir eins konar allsherjar kínalífselexír. En hvernig ætlaður að skýra þá staðreynd að stighækkandi skattar voru vestanhafs á mesta blómaskeiði bandaríska efnahagslífsins, fyrstu þrjátíu árin eftir stríðið?

Hagfræðingurinn Richard Bremner segir að efnahagsframfarir hafi verið minni á “velsældar”-markaðsvæðingar-tímabilinu 1995-2000 en á árunum 1948-1973. Framleiðniaukning hafi verið tuttugu prósent minni á fimm ára tímabilinu, þjóðarframleiðsla aukist um skitin 1.6% á ári. Meðaltal áranna 1889 til 1989 hafi verið 2.2%. Á árunum 1973 til 1995 hafi framleiðsla, framleiðni fjárfestinga og laun aukist 20% minna en á ríkisþátttökuskeiðinu 1948 til 1973. Auk þess hafi atvinnuleysi verið mun meira (Bremner 2003: 18).

Hann hefði getað bætt við að hagvöxtur á ári var 4% á ríkisþátttökuskeiðinu 1961-1973, bara 2.9% á frjálshyggjutímabilinu 1985 til 1998 (Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson 2005: 103). Frá 1950 til 1980 mun þjóðarframleiðslan á íbúa vestanhafs hafa aukist um 83%, frá 1980 til 2010 aðeins um 69%.

Sem sagt, efnahagsframfarir voru minni á skattalækkunarskeiðinu en á tímabili hinni stighækkandi skatta.

Þú átt í mestu vandræðum með að skýra efnahagslega velgengni Norðurlanda. Þrautaráð þitt er að segja að hún  sé allmikil þrátt fyrir jafnaðarstefnuna. Ástæðan sé dyggðir íbúanna, samheldni, sparsemi, og vinnusemi. En þér dettur ekki í hug að jafnaðarstefnan hafi stuðlað að þessum dyggðum, ekki síst samheldninni.

Ég hef bent á að olíusjóðurinn norski hafi orðið til vegna samheldni og spillingarleysis Norðmanna. Án hins tiltölulega mikla jöfnuðar í hinu norska samfélagi væri samheldnin löngu horfin, menn samsama sig ógjarnan fólki sem er í allt öðrum tekjuflokki en maður sjálfur. Eða heldur þú að dyggðir Norðurlandabúa hafi dottið af himnum ofan?

 Hið frjálshyggjusinnaða The Economist viðurkenndi árið 2006 að hagkerfi geti blómstrað án þess að stúta velferðarkerfinu (öðruvísi mér áður brá). Tímaritið benti  á að Svíþjóð blómstri þótt hlutur ríkisins í vergri þjóðarframleiðslu sé meiri en í löndum þar sem efnahagurinn sé í mun verri málum.

Sænska ríkið hirði 57% af vergri þjóðarframleiðslu, hið franska 53%, hið þýska 47% og hið spænska 37%. Samt blómstri Svíþjóð en hin þrjú ríkin séu á hausnum og það þótt Spánverjar vinni mikið, meira en Frakkar og Þjóðverjar og þarf ekki mikið til („Special Report: The Swedish Model“, The Economist 2006). 

Þú nefnir að lífskjör séu betri í einhverjum ríkjum/fylkjum Norður-Ameríku enn á Norðurlöndum. Þessi staðhæfing á sér líklega rætur í meintum rannsóknum á kjörum Norðurlandabúa og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku.

Hvernig reiknast afkomandi Norðurlandabúa í þessari rannsókn? Verður maður að 100% norrænn eða er nóg að vera 75% norrænna ættar? Eða 51%? Hvaða tryggingu hafa menn fyrir því að þeir sem fluttu vestur hafi ekki verið allt öðru vísi þenkjandi en þeir sem eftir urðu.

Ég á að við að hefðu þeir verið um kyrrt hefðu þeir kannski náð betri efnahagsárangri en aðrir landar þeirra. Því er vart mikið að marka þessa rannsókn. Þess utan hef ég margnefnt tölur um versnandi hag bandarísks almennings og mikla lífssæld í kratabælunum norrænu, ég nenni ekki að endurtaka þær hér (um það sjá t.d. Cawhill og Morton 2008).

Hvað frelsishugtakið varðar þá notar Fraserstofnunin atvinnufrelsishugtak frjálshyggjunnar en um það má deila. Sumir myndu kannski segja að hið meinta atvinnufrelsi væri ávísun á auð-helsi, því stæði þetta meinta frelsi ekki undir nafni (nánar um það síðar). Þess utan er ekki gefið að frelsi eigi að skilgreina sem fjarveru ytri þvingana eins og Fraserstofnunin gerir. Sumir telja að frelsi sé máttur til gjörða (sjá nánar Stefán Snævarr 2011: 161-189).

Nú segir þú að það að skylda menn til að borga í sjóði verkalýðsfélaga sé frelsiskerðing, ég efast ekki um að Fraserstofnunin telji slíkt skerðingu á atvinnufrelsi. En ég er ekki viss. Veiking verkalýðsfélaga í BNA hefur gert ómenntað starfsfólk nánast að þrælum (Ehrenreich 2001).

Að gera það að skyldu að ganga í verkalýðsfélag og borga í sjóði þess gæti aukið frelsi þessara nútíma þræla. Sérhver frelsisefling kostar einhverja frelsisskerðingu, einkaeignarréttur  er í megindráttum frelsiseflandi en ekki er hægt að eiga neitt nema að skerða frelsi annarra til að nýta eignina. Það er því eitthvað bogið við hugmynd frjálshyggjunnar um atvinnufrelsi.  

Þú kvartar líka yfir skyldu-iðgjaldi til RÚV en ég er ekki fjarri því að það sé réttlætanlegt. Bæði vegna þess að ég tel að einkavæðing RÚV myndi efla íslenskt auðvald, auðugur hrægammar myndu eignast RÚV fyrir slikk, þökk sé pólitískum tengslum. Nú þegar eru auðmenn alltof valdamiklir í fjölmiðlageiranum. Frelsisskerðing í mynd skyldu-iðgjalds kann að hindra meiri frelsisskerðingu í mynd fjölmiðlaauðvalds.

Auk þess tel ég að vel megi tala um „kollektíf“ réttindi, í Kreddunni gagnrýndi ég öfga-einstaklingshyggju og færði rök fyrir því að hugtökin um einstakling og samfélag væru samofin (Stefán 2011: 229-254).

Það þýðir að samfélagið er jafn raunverulegt eða óraunverulegt og einstaklingurinn. Að viðbættum fáeinum siðferðilegum forsendum má rökstyðja að samfélagið hafi réttindi sem ekki eru  bara summan af einstaklingsréttindum (ég held að hófsöm hóphyggja Norðmanna hafi gert olíusjóðinn mögulegan, í landi öfga-einstaklingshyggju hefði það aldrei gengið).

Burðarásin í íslenskri menningu er varðveisla og efling móðurmálsins, sé RÚV mikilvægt tæki til þess arna má réttlæta skylduiðgjöld til þess. En gegni RÚV þessu hlutverki ekki mega skylduiðgjöldin hverfa. Og séu einkaaðilar betri tæki til menningar- og málvarðstöðu skal ég styðja þá heildhugar.

Hvað um það, tekjur okkar og eigur eru ekki bara okkar sköpunarverk, vinna og hugkvæmni milljóna manna í nútíð og fortíð taka sinn þátt í sköpun þeirra. Tekjur og eigur eru því félagslegar að allnokkru marki og því (að viðbættum fáeinum siðferðiforsendum) engin goðgá að líta á þær sum part sem sameign.

Ríkið er eini aðilinn sem getur ráðstafað þessari sameign, sé það sæmilega siðmenntað má réttlæta (enn að viðbættum siðferðiforsendum) sköttun, t.d. til handa listamönnum.

Aulafyndni Menckens um lýðræði sem þjófnað er hvorki hláturs né svara verð. Pinochet hefði örugglega hlegið dátt.

Líkön fíknar, fíkn í líkön.

Þú andæfir því að hagfræði eigi við prófanleikavanda að stríða, hagfræðikenningar frjálshyggju séu prófaðar á hverjum degi í efnahagsvirkni manna. Kapítalisminn standist prófið, sósíalisminn falli á því.

En þetta eru ekki vísindalegar staðhæfingar, t.d. getur kapítalismi þýtt allt frá „markaðsfrjálsu kerfi“ til „blandaðs hagkerfis“. Í vísindalegum athugunum verða hugtökin að vera betur skilgreint.

Vandinn snýst um erfiðleika við að jarðtengja sértæk hagfræðilíkön. Einnig um  ofurtrú á slík líkön.

Jarðtengslavandinn og líkanatrúin    sýnir sig m.a. í kenningu nóbelshagfræðingsins  Gary Beckers um skynsamlega fíkn (e. addiction). Fíkillinn sé skynsamur með þeim hætti að hann reikni kosti og galla þess að ástunda fíkn sína og það til langs tíma. 

Hann vegi t.d. hættuna á alvarlegum fráhvarfseinkennum gegn nautninni af að dópa sig. Það geti borgað sig að gefa sig fíkninni á vald því hinn kosturinn sé enn verri.

Þetta gildi um allar fíknir, jafnt heróínfíkn sem alkoholisma og níkótínfíkn. Þessari kenningu er svo sniðinn glæstur stærðfræðibúningur (Becker og Murphy 1988: 675-700).

En er keisarinn kannski allsnakinn? Hagfræðingurinn Ole Røgeberg telur kenninguna fáránlega.

Í fyrsta lagi sé reynslugrunnurinn ekki sterkur, hann byggi aðallega á einangruðum sögum um  atferli hinna og þessara.

Í öðru lagi svífi stærðfræðilíkönin í lausu lofti og kenningarnar séu óhrekjanlegar.

Í þriðja  lagi tali Becker eins og langt leiddir fíklar reikni kosti og galla atferlis síns langt fram í tímnann, með mikilli nákvæmni.  Þessi mynd af veruleikanum sé í litlu samræmi við heilbrigða skynsemi og engan veginn frjó «idealisering» þar eð kenning sé vart prófanleg  (Røgeberg 2004: 263-285).

Eða finnst mönnum líklegt að alkinn sitji í Hliðskjálf líkastur Óðni (reykjandi hass) og hafi fullkomna yfirsýn yfir alla sína kosti í framtíðinni?

Ég vil bæta við að Becker og Murphy gefa sér án raka að viljinn sé frjáls og að allar fíknir séu sömu rótar. En fræðimenn, tengdir AA-samtökunum, telja sumar fíknir áskapaðar, aðrar áunnar (Millam og Ketcham 1986).

Aðrir fræðimenn  telja að fíknivandinn eigi sér rætur í alvarlegum áföllum  (Kristín Pálsdóttir 2020).

Becker og Murphy verða að sýna fram á að þeirra kenning hafi meira skýrigildi (e. explanatory power) en aðrar kenningar, þar á meðal þær tvær sem hér eru nefndar. En þeim datt ekki hug að gera það, líkanið var jú svo flott. Þeir voru haldnir líkanafíkn.

Þórólfur og hagfræðin.

Víkur nú sögunni að hagfræðingi sem ég hygg að þú þekkir, prófessor Þórólfi Matthíassyni. Hann hefur skrifað margt skynsamlegt um efnahagsmál, ég bý enn að fínni grein eftir hann um skattsvikasögu Íslands.

En skýrum vill skjöplast, fyrir nokkrum árum birti tímarit eitt furðuritsmíð eftir Þórólf „Til varnar hagfræði“ (Þórólfur 2011: 327-330) .

Hann ræðst þar á garðinn þar sem hann er allralægstur, á bloggara og álitsgjafa sem hann segir að gagnrýni hagfræði. Ekki nefnir hann í hverju gagnrýnin sé fólginn,  að láta það eiga sig er ómálefnalegt.   Í ofan á lag tekur hann mennina, ekki rökin, og ræðst gegn strámönnum.

Hann nefnir heldur ekki þá fræðimenn sem gagnrýnt hafa hagfræði, t.d. nóbelshagfræðinginn Paul Krugman, hagfræðinginn Marc Blaug, og vísindaheimspekingana Hans Albert, Alex Rosenberg og John  Dupré (Krugman 2009, Blaug 1998, Albert 1985, Rosenberg 1983, Dupré 1993).  

Hefði ekki verið stórmannlegra að svara gagnrýni þessara andans jöfra?

Þórólfur heldur  því blákalt fram að þeir Kenneth Arrow og Gérard Debreu hafi sett fram órækar sannanir fyrir því að al-„frjálst“ hagkerfi geti virkað (Þórólfur 2011: 328). 

En Þórólfur athugar ekki að þeir smíðuðu líkan af þessu (Arrow-Debreu líkanið) og líkön  hafa  ekki sanngildi en geta verið misfrjó og misnýtileg (um A-D líkanið, sjá International Encyclopedia of the Social Sciences 2008). Jafnvel þótt hægt væri að leiða prófanlegar kenningar af Arrow-Debreu líkaninu  er ólíklegt að þær séu órækar.

     Í einn stað bendir  flest til þess að raunhæfingar séu fallvaltar og geta því ekki verið órækar, nema hugsanlega sjálfssagt sannar raunhæfingar. Sönnunarbyrðin hvílir  á þeim sem heldur hinu gagnstæða fram.

      Í annan stað er erfitt að sjá hvernig hægt sé  að sanna eitt eða neitt um ástand sem hefur aldrei verið til og getur tæpast verið til (al-„frjálst“ hagkerfi).

     Í þriðja lagi segir Þórólfur (eins og flestir hagfræðingar) beinum orðum  að markaðurinn geti aldrei orðið alfrjáls.

Þetta þýðir að hann lendir í mótsögn við sjálfan. Hann  segir annars vegar að A-D líkanið sanni að alfrjáls markaður sé alla vega fræðílegur möguleiki, hins vegar að slíkur markaður geti aldrei komist á koppinn.

     Í fjórða lagi gildir eftirfarandi:   Í líkönum sínum vísa  eðlisfræðingar  einatt til fyrirbæra sem strangt tekið geta ekki verið til en frjótt getur verið að nota í líkönum, t.d. núningsvana fletir  (e. frictionless planes). En þeim dettur ekki hug að þeim hafi tekist að sanna að slíkir fletir geti verið til, það þótt líkönin hafi reynst firnafrjó.

Reyndar segir Þórólfur að Arrow hafi varið drjúgum tíma til að kanna hvað gerist ef einhverjar af forsendum líkansins breyttust. Sé svo er vart hægt að saka hann um líkanatrú, Þórólf ekki heldur því hann gagnrýnir þá frjálshyggju-hagfræðinga sem trúa í blindni á líkanið. Enda er Þórólfur ekki blindur á takmarkanir hagfræðinnar.

     Þórólfur segir það ekki beinum orðum en ætla má að hann líti svo á að Arrow-Debreu líkanið hafi reynst afarfrjótt. Milton Friedman taldi forspágildi kenningar aðalmálið, frjótt sé það líkan sem framleiðir kenningar hvers forspár rætast í ríkari mæli en forspár keppinauta  (Freidman 1979: 18-35).

  En margt bendir til að oft sé gjá  staðfest milli kenninga og reynslu í hagfræði, eins og sést af dæminu um Becker. Sömu gjá er að  finna  í öðrum félagsvísindum, víðari ef eitthvað er.

Alla vega gerir  Þórólfur enga tilraun til að sýna fram á að A-D líkanið hafi getið af sér prófanlegar og velstaðfestar kenningar. Hann  gefur rómantíska mynd af hagfræðinni þar sem hugumstórir hagspekingar safna reynslugögnum og smíða kenningar á grundvelli þeirra.

Ekki eitt orð um mögulega gjá, trúi hann ekki kenninguna um gjánna verður hann að sýna fram að hún sé röng.  

    Í ofan lag staðhæfir hann að kenningar hagfræðinnar séu hrekjanlegar og það án þess að svara staðhæfingum Marc Blaugs og fleiri um að svo sé ekki (Blaug 1998).

     Þórólfur  segir borubrattur að hefðu íslenskir hagfræðingar vitað hvað var að gerast í útrásarbönkunum þá hefðu þeir séð hrunið fyrir. En vesalingur minn spáði hruni í Silfri Egils árið 2006,  án hagfræðimenntunar og án vitneskju um ástand bankana. Hve miklar líkur ætli séu á því að leikmaður spái betur um gang himintungla en stjörnufræðingar?

     Ekki bætir úr skák þegar Þórólfur tekur að líkja hagfræði við læknisfræði. En læknar hafa ráðið niðurlögum allra handa sjúkdóma, hagfræðin hefur ekki enn læknað kreppur. Enda hafa læknar til umráða öflug fræðatæki á borð við erfðafræði og –tækni, ekkert slíkt hefur rekið á fjörur hagfræðinnar. Kannski hagfræðin sé skyldari skottulækningum.

En því verður ekki neitað að hagfræðin hefur ýmislegt til síns ágætis og er  allnokkuð skárri en önnur  félagvísindi enda samkeppnin ekki hörð.

Þeim annars snjalla hagfræðingi Þórólfi verður laglega á messunni, hann ruglar saman líkönum og kenningum, jafnvel líkönum og veruleika og gefur kolranga mynd af gagnrýnendum hagfræði.

Lokaorð

Jæja Hannes, ætli sé ekki mál að linni. Ég vil ljúka máli mínu á því að minna þig á að á vori komanda verður hálf öld liðin frá því háðum okkar fyrstu ritdeilu. Kannski við heyjum afmælisritdeilu!

Bestu kveðjur

Stefán

Heimildir:

Albert, Hans (1965): „Modelplatonismus. Der neoklassische Stil des ökonomischen Denkens in kritischer Beleuchtung“. Í E. Topitsch (ritstj.): Logik der Sozialwissenschaften. Berlín og Köln: Kiepenhauser und Witsch, bls. 406-434.

Becker, Gary og Murphy, Kevin M (1988): “A Theory of Rational Addiction”, Journal of Political Economy, 96 (4), bls. 675-700.

Blaug, Mark (1998): „Disturbing Currents in Modern Economics“. Challenge, maí/júní, http://www.btinternet.com/

Bremner, Richard (2003): “The Crisis in the U.S. Economy”, London Review of Books, vol. 25, nr. 3, 6. febrúar, bls. 18-21.

Cameron, Nick: The government agency that made Silicon Valley - UnHerd

Cawhill, Isabell  og Morton, John E.  (2008): Economic Mobility: Is the American Dream Alive and Well? http://www.economicmobility.org/ Sótt 10/9 2009.

Cullather, Nick (1996): „Fuel for the Good Dragon“: The United States and Industrial Policy in Taiwan, 1950-1965“, Diplomatic History, Volume 20, Issue 1, janúar, bls. 1-26.

Dupré, John (1993): „Could there be a Science of Economics?“. Midwest Studies in Philosophy 18, bls. 363-378.

Ehrenreich, Barbara (2001): Nickled and Dimed. On (not) getting by in America. New York: Metropolitian Books.

Friedman, Milton (1979): „The Methodology of Positive Economics“. Í M. Hollis og F. Hahn (ritstj.): Philosophy and Economic Theory. Oxford: Oxford University Press, bls. 18-35.

The Guardian: "South Korea: A Model of Development?"http://www.theguardian.com/global-development/poverty-matters/2011/nov/28/south-korea-development-model. Sótt 10/2 2016.

Hannes H. Gissurarson (1997): Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Reykjavík: AB.

Harvey, David  (2005): A Brief History of Neoliberalism. Oxford: Oxford University Press.

International Encyclopedia of the Social Sciences (2008): “The Arrow-Debreu Model”, https://www.encyclopedia.com/social-sciences/applied-and-social-sciences-magazines/arrow-debreu-model. Sótt 8/8 2019.

Kristín Pálsdóttir (2020): “Taugalíffræðiþráhyggjan”. Stundin 7 desember. https://stundin.is/blogg/kristin-i-palsdottir/taugaliffraedithrahyggjan/

Krugman, Paul  (2009):“How did economists get it so wrong?”, New York Times Magazine, 6 september. http://www.nytimes.com/2009/09/06/magazine/06Economic-t.html. Sótt 12/8 2010.

Millam, James R og Ketcham, Katherine (1986): Undir áhrifum. Goðsögnin og raunveruleikinn um alkohólisma (þýð. Örn Bjarnason, Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, og Þórarinn Tyrfingsson). Reykjavík: Ísafold.

Rosenberg, Alexander (1983): „If Economics Isn’t Science, What is it?“ Philosophical Forum14, bls. 296-314.

Røgeberg, Ole (2004): “Taking Absurd Theories Seriously: Economics and the Case of Rational Addiction Theories”. Philosophy of Science, 71, júlí, bls. 263-285.

“Special Report: The Swedish Model” The Economist, 7. september, 2006.

Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson (2005): Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið gegn henni. Reykjavík: Heimskringla.

Stiglitz,  Joseph (2002): Globalization and its Discontents. Harmondsworth: Penguin Books.

Tranøy, Bent Sofus (2006): Markedets makt over sinnene. Oslo: Aschehoug.

Þórólfur Matthíasson (2011): “Til varnar hagfræðinni”, Stjórnmál og stjórnsýsla, Vol, 7, No. 1., bls. 327-330,  http://www.irpa.is/article/view/1133  Sótt 8/8 2019.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni