Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Mónöður undir stýri

Þýski heimspekingurinn Gottfried Wilhelm Leibniz (1646-1716) var með fjölhæfari mönnum. Hann átti m.a. þátt í því að skapa örsmæðarreikning (calculus) sem margir lesenda kannast við. En margt í heimspeki hans orkar einkennilega á nútímafólk. Hann segir að grunneining tilverunnar séu „mónöður“ sem hafi bæði efnislega og huglæga eiginleika. Þannig megi finna huglæga eiginleika í örsmáum skömmtum í dauðu efni, rétt eins og vitibornir menn hafa efnislega eiginleika, auk þeirra huglægu. Mónöðurnar hafi hver sín sérstöku einkenni en séu algerlega einangraðar hver frá annarri, þær eru gluggalausar, sagði Leibniz. En Guð sér um að samhæfa gerðir þeirra, það gerir að verkum að þegar ég hugsa „nú vil ég standa á fætur“ þá sér Guð til þess að líkami minn hlýði. 

Akandi mónöður.

Víkur nú sögunni að bíla-ómenningu Íslendinga. Engu líkara er en að Íslendingar breytist í mónöður þegar þeir setjast undir stýri, þeir eru gluggalausir og sambandslausir við umheiminn. Gefa ekki stefnuljós og virðast ekki sjá gangandi vegfarendur, hvað þá aðra bílstjóra og bíla þeirra. Utan þess að þeir og bílar þeirra verða eitt, ein allsherjar mónaða. Og hver er afleiðingin af bílabrjálæði mónaðanna? Ótrúleg mengun, umferðaröngþveiti, og sennilega lakari lífskjör flestra. Endalaus seta í bílum hlýtur að skaða heilsu manna og heilsuleysi er þjóðinni dýrt. Auk þess hlýtur hrikamikill innflutningur á bílum og bensíni að kosta þjóðarbúið einhver ósköp. Þá kann einhver að spyrja hvort þessi mónöðu-einkabílamennska sé ekki vondri elítu að kenna, ömurlegu borgarskipulagi o.s.frv. Mitt svar er að þessi skýring sé aðeins að hluta rétt. Almenningssamgöngur í Reykjavík voru ekki sérlega góðar en þó þolandi þangað til lúxusskattar voru afnumdir af bílum fyrir um þrjátíu árum. Þá keyptu  allir, sem vettlingi gátu valdið,   sér bíl, helst tvo. Fyrir vikið  snarminnkaði fjöldi farþega í strætisvögnum með þeim afleiðingum að strætóferðum fækkaði. Afleiðingin varð sú að  menn urðu enn háðari einkabílnum. Athugið að Reykvíkingar voru ekki í því að krefjast betri almenningsamgangna, heldur veittu hinum strætófjandsamlega Sjálfstæðisflokki brautargengi í borgarstjórnarkosningu eftir kosningu (hvað fær flokkurinn annars mikið í kosningasjóði frá bílasölum og –innflytjendum?). Í mónöðunni íslensku kemur saman tvennt: Áhrifin frá hinum bílaglaða Kanaher og gömul Bjarts-í-sumarhúsum-einyrkja-hneigð (Bjartur var sjálf erki-mónaðan!).

Lokaorð

Allt um það: Ef mónöðurnar hættu að vera mónöður, gengju og hjóluðu meir, auk þess að nota almenningsfarartæki meir, væri margt betra á Fróni. Í ljósi þessa hlýt ég að  styðja  tilraunir Dags borgarstjóra til að draga úr einkabílamennskunni. Áfram Dagur, niður með mónöðurnar!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni