Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Macron, Jóhann frá Örk?

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Emmanuel Macron vann frægan sigur á hinni stórhættulegu Marine le Pen. Ungur maður sem er eindreginn Evrópusinni og alþjóðasinni. Spurt er: Er hann Jóhann frá Örk, maðurinn sem bjarga mun Frakklandi rétt eins og Jóhanna frá Örk gerði fyrir sex hundruð árum?

Vandi Frakka og Macron hinn ráðagóði

Landið er í vondum málum, atvinnuleysi allmikið, ekki síst hjá ungu fólki. Árið 1980 var verg landsframleiðsla Frakka 20% meiri á menn en hin breska, nú hafa Bretar farið fram úr þeim. Þeir eru meira að segja aðeins fremri Frökkum hvað mannþróun varðar samkvæmt „human development index“. Það á að vera mælikvarði á velferð sem ekki mælist vel í vergri landsframleiðslu á mann. Margt bendir til þess að vandi Frakka stafi m.a. af rangsnúinni velferð. Slík velferð er öllum skaðvænleg þegar til lengdar lætur, gagnstætt hinni mannúðlegu og skilvirku velferð Norðurlanda. Sagt er að atvinnuleysi franskra ungmenna stafi af því hve erfitt sé  að reka starfsfólk og ráða menn í vinnu. Atvinnurekendur þori einfaldlega ekki að ráða nýtt fólk, m.a. vegna þess að næstum ómögulegt er að reka það þótt það hegði sér eins og örgustu dónar. En Macron kann ráð við því, hann horfir til Norðurlanda. Danir eru frægir fyrir sitt „flexicurity“ kerfi. Auðvelt er að ráða menn og reka en ríkið sér vel um þá sem missa vinnuna og borgar endurmenntun fyrir þá. Þetta kerfi á sér fleiri aðdáendur, Bernie Sanders vildi koma því á vestan hafs. Það hefði reynst erfitt þar vestra en verið skárra en tollmúravitleysa Trumps.

Tæpast tækifærissinni

Macron segir í viðtali  að markaðsfrelsis-tilburðir í Frakklandi hafi leitt til afiðnvæðingar landsins. Því verði ríkið að styðja iðnaðinn. Ekki megi gleyma að ríkið hefur ávallt gegnt miklu hlutverki í Frakklandi, ríkið hafi skapað Frakkland, ekki öfugt, sagði Macron. Taka verði tillit til hefðar Frakka fyrir ríkisþátttöku í efnahagslífinu. Af þessu má sjá að Macron hefur ákveðna stefnu í mikilvægum málum og er ekki bara tækifærissinni. Það þótt hann lofi öllum öllu fögru eins og frambjóðendur einatt gera. Ekki virðist hann hafi farið úr ríkissjórn Hollandes  bara vegna eiginhagsmuna. Hann var algerlega á móti tillögu Hollandes um að svipta grunaða hryðjuverkamenn frönskum ríkisborgararétti væri þeir með slíkan rétt í öðru landi. Macron vék úr stjórninni vegna þess máls, þótt auðvitað kunni það að hafa verið átylla.

Mér sýnist fljótt á litið að stefna Macrons sé skynsamleg. Hún yrði Frökkum til hagsbóta ef hann getur framkvæmt hana. Mörg ljón eru á  veginum, hann verður fyrst að tryggja sér meirihluta á þingi. Svo er kljást við hina illvígu þjóðarsál Frakka sem helst vill engu breyta þegar á reynir. Sérhverri tilraun til umbóta er svarað í Frakklandi með endalausum mótmælaaðgerðum, ráðamenn gefast einatt upp. En það er engin furða þótt Frakkar treysti yfirvöldum illa, stjórnmálastéttin franska er gegnsýrð af spillingu eins og fram kom í máli Fillons. Það kann að standa til bóta, á þessari öld hafa ýmsir pólitíkusar verið dregnir fyrir lög og dóm, ákærðir fyrir spillingu, þ.á.m. forsetinn fyrrverandi Jacques Chirac (gætu Íslendingar lært af því?). Þá vaknar spurningin hvort Macron sé ekki bara enn einn elítuforsetinn sem hafi engan skilning á stöðu venjulegs fólks, þess næmari á eigin hag. Því er til að svara að menn verða ekki endilega góðir stjórnmálamenn þótt þeir séu af alþýðustigum. Sumir af verstu föntum sögunnar voru úr þjóðardjúpinu, t.d. Hiltler, Stalín og Idi Amin. Þess utan eru  dæmi um farsæla stjórnmálamenn sem fæddir voru með silfurskeið í munni, nægir að nefna Franklin Delano Roosevelt.

Lokaorð

Macron er reyndar ekki borinn til ríkidæmis en hefur unnið sig upp, þénað einhver ósköp  sem bankamaður. Vonandi er hann líka hressilega ólíkur öðrum frönskum pólitíkusum. Sé svo og hafi hann  hugrekki til að bera  gæti hann orðið Jóhann frá Örk Frakklands.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu