Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Lyfin og læknarnir

Enn vitna ég í gamlan dægurlagatexta:

„Á spítölum kvelur mig læknanna lið

með lamstri og sprautum svo ég þoli ekki við“.

Bandarískir læknar eru ekki alsaklausir af þeim dópdauðafaraldri sem nú gengur yfir Bandaríkin. Þeir ávísa alltof mikið af morfínlíkum verkjalyfjum (e. opoids) en 75% þeirra sem ánetjast heróní vestanhafs verða fyrst háðir slíkum lyfjum. Íslenskir læknar eru litlu skárri, þeir eru sagðir ávísa mun meir af lyfjum ýmiss konar en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum. Spurt er: Hvers vegna líkjast íslenskir læknar meir þeim amerísku en þeim norrænu hvað lyfjagjöf varðar? Gæti ástæðan verið ameríkanísering og henni tengd sannfæring um að bara það sem kostar peninga geti verið einhvers virði? Líkaminn er oft sinn eigin besti læknir, hann læknar sjálfan sig ókeypis. En græðgistrúarmaðurinn trúir því að heilsa sé gæði sem aðeins fáist fyrir fé. Því verði að dæla lyfjum í sjúklinginn enda kosta þau skildinginn. Hvað sem þessum vangaveltum líður þá segir norska útgáfan af Lemonde diplomatique (febrúar 18) að lyfjafyrirtækin amerísku beri mikla ábyrgð á dópfaraldrinum mikla. Þá sérstaklega Purdue Pharma sem selur verkja lyfið oxycontin en sagt er að það geti hæglega gert menn að dópistum. Norski prófessorinn Willy Pedersen segir að fyrirtækið hafi beitt allrahanda brögðum til að koma þessu lyfi á framfæri („Narkodealer med legelisens“ Morgenbladet 26/1 18). Því er engin furða þótt Óhio-ríki undirbúi málsókn á hendur fyrirtækinu. Spyrja má hvort lyfjafyrirtækin múti læknum til að ávísa lyfjum sínum. Alla vega verða heilbrigðisyfirvöld að fylgjast vökulum augum með þróuninni á Íslandi áður en landsmenn verða „opoiða“-farsóttinni að bráð.

En siðmenntuðu fólki ber að sporna við græðgistrúnni  og öllum hennar illu fylgikvillum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu