Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

KÆNSKA OG KÆNUGARÐUR. Pútín, Úkraína og Vestrið

Menn  bíða með öndina í hálsinum þess sem verða vill austur í Kreml og Kænugarði. Ráðast Rússarnir inn í Úkraínu? Eða er liðsafnaðurinn kænskubragð Pútíns?

Fyrrum KGB liði segir að Pútín hafi ekki innrás í hyggju,  markmið hans sé að leiða athygli Rússa frá innanlandsvandanum sem sé all mikill. Hann óttist ekkert meira en að missa völdin því þá missi hann allt.

Hann hafi séð hvað gerðist í Kasakstan þegar Nasarbaév lét völdin í hendur annars manns og varð fljótlega áhrifalaus. Það væri hrein þvæla að Pútín hugsi sem KGB maður, hann hafi verið svo lágt settur að hann hafi ekki kynnst hinum raunverulegu vinnubrögðum leyniþjónustunnar.

Hans pólitíska uppeldi hafi átt sér stað í Pétursborg á árunum upp úr 1990. Þá hafi glæpagengi vaðið uppi og Pútín hugsi sem gangster, ekki sem KGB liði. Hann skilji að innrás muni kosta Rússa einhver ósköp og jafnvel bitna á efnahag hans sjálfs.

Um þetta skal ekki dæmt. Hinu skal bætt við að hafi Pútín einhverjar hugsjónir þá er það helst rússnesk þjóðernisstefna. Fyrrum forsætisráðherra Finna, Alexander Stubb, segir að hann vilji endurreisa rússneska veldið eins og það var á nítjándu öld. Þá lutu Úkraínumenn og fleiri þjóðir keisaranum rússneska. 

Að hóta máti

 Víkjum að öðru. Hótun er oft áhrifameiri en framkvæmd hennar. Þegar hótun vofir yfir andstæðingnum í skák veit hann oft ekki nákvæmlega hvernig hann eigi að bregðast við og geri mistök. En sé hótunin framkvæmd er oftar ljósara hvernig bregðast eigi við.

Menn mega ekki gleyma því að Rússar og Úkraínumenn þekkja skáklistina vel og það kann að setja sitt mark á   stjórnmálahugsun þeirra. Hótun Rússa hefur augljós áhrif. 

Vestrið heilagt?

Ég efast ekki um að yfirgangssemi Pútíns sé meginorsök hættuástandsins í Evrópu austanverði. Hann virðist telja sig hafa rétt til að skipa málum í þeim heimshluta eftir eigin höfði.

En Vesturveldin hafa sýnt  Rússum hroka og jafnvel yfirgang  með þeim afleiðingum að Pútín og félagar hafa enga ástæðu til að gera sér of  dælt við þau.

Bandaríkjamenn studdu hinn misheppnaða Jeltsín með ráðum og dáð. Í stjórnartíð snarversnuðu kjör almennings á meðan óligarkar hirtu auðæfi landsis.

Í ofan á lag eru  áhöld  um hvort Jelstsín var raunverulegur sigurvegari kosninganna  1996. Der Spiegel segir að frambjóðandi kommúnista, Gennadí Sjúganov hafi unnið kosningarnar en svindl,  sem CIA hafi tekið þátt í, gert að verkum að Jelstín „vann“ (tek fram að ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það).

Samt létu Vesturveldin það undir höfðu leggjast að upplýsa vin sinn Jeltsín um að þau hyggðust gera sprengjuárás á Serbíu eftir að Milosevic hafði tekið að þjarma að Albönum í Kósóvó. Með því lítilækkuðu þau Rússana. 

Pútín og Nató

Margt bendir til þess að Pútín hafi reynt að gera hosur sínar grænar fyrir  Nató og ESB á sínum fyrstu valdaárum en hafi verið  tekið fálega. Kannski er það ein ástæða fyrir neikvæðri afstöðu hans til þessara samtaka.

En ég gef ekki mikið fyrir yfirlýsingar Pútíns um að Nató hafi svikið loforð um að hleypa ekki  Austur-Evrópuríkjum inn í bandalagið. Það að einhverjir vestrænir ráðamenn hafi komið með yfirlýsngar um það er ekki jafngildi loforðs.

Ekki eru til neinir samningar milli Nató/Vesturveldanna um þetta. Auk þess verða öll Natóríki að vera sammála um meginstefnu bandalagsins til þess að hún teljist gild.

Á móti kemur að árið 2008 samþykktu Nató-ríkin ályktun um að Úkraína og Georgía skyldu verða Natómeðlimir. Ekki er víst að mikil alvara hafi verið á bak við þá samþykkt, Aftenposten segir að Frakkar og Þjóðverjar hafi verið mjög tregir til samþykkis.

En þetta kann að vera ein  skýringin á því að Pútín þrýstir svo heiftarlega á Úkraínu og Vestrið. Kannski er ótti hans ekki að öllu leyti ástæðulaus.

Úkraína og Nató.

Samt  hefur hann engan rétt til að gefa Nató  og Úkraínumönnum fyrirskipanir. En það væri  öllum fyrir bestu að Úkraína fái ekki að ganga í Nató að svo stöddu.

Enda litlar líkur á því, ekki þarf nema eitt ríki til að neita nýjum löndum um inngöngu, Þjóðverjar eru algerlega á móti því að hleypa Úkraínu inn í Nató.

Hvað sem segja má um þann félagsskap þá er erfitt að sjá að hann ógni Rússum.

Lokaorð.

Kannski væri það kænskubragð að gefa Pútín loforð um að Úkraína sæki ekki um inngöngu í Nató næstu tuttugu árin.

Sé það rétt að hann hugsi aðallega um eigin hag þá má hann einu gilda hvort Úkraína gangi þá í Norður-Atlantshafs-bandalagið.

Þá verður hann annað hvort dauður eða elliær.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Varð að breyta, uppgötvaði samþykkt Nató 2008 sem gerir aðgerðir Pútíns ögn skiljanlegri.
    0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Breyti enn.
    0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Breytti smá.
    0
  • Sigurður Þórarinsson skrifaði
    ,,Siðuð" vesturveldi höfðu heldur engan rétt til þess að gefa Kúbu eða Varsjárbandalaginu fyrirskipanir í miðri ,,Cuban missil crisis" hér um árið... en gerðu það nú samt. Erfitt var líka að sjá þá hvernig sá félagsskapur ógnaði þeim ,,siðuðu." Nóg um það. Kv
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu