Þessi færsla er meira en ársgömul.

Innrásin í Írak og sú í Úkraínu

Það er ýmislegt sameiginlegt með þessum tveimur innrásum. Báðar voru réttlættar með fáránlegum lygum, sú í Írak með lyginni um að Saddam ætti gjöreyðingarvopn, sú í Úkraínu með þvættingnum  um nasista í Kænugarði.

Svo virðist sem innrásaraðilar trúi/hafi trúað eigin lygaþvælu.

Einnig voru báðar innrásirnar einkar illa skipulagðar. Sú í Írak kannski ekki hernaðarlega illa skipulögð, gagnstætt þeirri í Úkraínu.

En hernám Íraks var vægast sagt illa skipulagt. Bandaríkjastjórn  virtist lítið vita um landið, herinn þar var leystur upp með þeim afleiðingum að fjöldi manns varð atvinnulaus.

Hið sama var uppi á teningnum þegar hernámsstjórnin lét reka alla meðlimi Baathflokksins úr vinnu hjá hinu opinbera. Þessir atvinnulausu her- og skrifstofumenn voru eðlilega bitrir og fljótir að ganga til  liðs við  hryðjuverka- og uppreisnarmenn.

Til að bæta gráu ofan á svart fundu Kanar upp á þeim ósóma að koma á  15% flötum tekjuskatti í landi þar sem engir tekjuskattar þekktust, hvorki flatir né óflatir. Kanarnir virtust ekki hafa vitað það fremur en annað.

Óstjórn þeirra og vitleysisgangur  skópu jarðveg fyrir ISIS. Refsiaðgerðirnar á árunum fyrir innrásina gerðu illt verra, þær bitnuðu skelfilega á almenningi, ekki síst börnum.

Íraskur nemandi minn sagði mér að Saddam hefði verið slæmur en það sem kom á eftir hafi verið verra.

Kanarnir opnuðu öskju Pandóru og út úr henni flaug allra handa ófögnuður.

Rússarnir virðast líka hafa verið illa upplýstir um Úkraínu. Þeir virtust hafa haldið að þjóðin tæki á móti þeim opnum örmum, annað kom á daginn.

Þeir vanmátu líka úkraínska herinn all hressilega, Zelenskí forseta enn meir, þeir héldu að hann væri e.k. bangssímon.

Mistök, tilviljanir  og skortur á upplýsingum eru oft orsakavaldar  mikilla viðburða, það jafnvel fremur en samsærin sem sumir eru oftrúa á. Jafnvel enn meir en meint löggengi mannkynssögunnar.

Þeir sem stóðu fyrir innrásunum voru stjórnmálamenn sem fylltust ofdirfsku vegna þess að þeim hafði gengið allt í haginn á ferlinum.

Bush var gífurlega vinsæll eftir 11 september og Blair hafði unnið sigur eftir sigur. Pútín hafði komist upp með að gera Rússland að einræðisríki, vaða yfir Tséténu og Sýrland, hernema Krímskagann o.s.frv.

Grikkir hinir fornu töluðu um „hubris“, ofdirfsku og of mikið sjálfstraust, slíkt  yrði  mönnum að falli. Hér á norðurslóðum segjum við „dramb er falli næst“.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni