Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

HVÍ RÉÐI VESTRIÐ RESTINNI? Hvers vegna ríktu Evrópuríki yfir heiminum?

 

Á miðöldum var hin kaþólska Evrópa fátæk og vanmegnug. Engar alvöruborgir var að finna þar, einu stóru og ríku evrópsku borgirnar voru á hinum múslimska Spáni og í hinu kristna, orþodoxa Býsansríki (Konstantínópel).

Utan Evrópu gat að líta stórauðugar stórborgir á borð við Bagdad, Angor Vatt í Kambódíu, ýmsar borgir í Kína og Indlandi, og höfuðborg Asteka í Mexíkó.

En á fimmtándu, sextándu og sautjándu öld rísa Evrópubúar til dáða (og ódáða), á nítjándu öldinni höfðu þeir  náð  tangarhaldi á mestum hluta veraldar. Hvað olli þessu, hví réði vestrið restinni?

 Vopnakapphlaupskenningin

 Fræðimenn hafa löngum brotið heilann um þetta, nýlega kynntist ég afar athyglisverðri kenningu um málið.

Í búningi Philip Hoffmanns er kenningin svona: Stöðugar skærur voru milli margra ríkja í Evrópu, þær leiddu til vopnakapphlaups milli þeirra. Það varð þess valdandi að vopnabúnaður þeirra varð æ betri, mun betri en vopnabúnaður voldugri og ríkari samfélaga utan Evrópu. Þess vegna hafi þeir getað lagt þessi samfélög undir sig.

Þessu til sannindamerkis vil ég nefna að höfuðborg asteka var mun stærri og ríkari en spænskar borgir á sextándu öld en astekarnir voru á steinaldarstigi hvað vopnaburð varðaði. Þess vegna urðu þeir Spánverjum auðveld bráð.

Því var haldið fram af sagnfræðingum á borð við Peter Frankopan að meiri ófriður hafi verið í Evrópu en annars staðar, því hafi ríki utan Evrópu ekki þróað vopn í sama mæli.

En Hoffmann bendir á að þessi kenning standist ekki að öllu leyti. Miðaldastríð í Asíu voru margfalt blóðugri en evrópsk stríð, Mongólar drápu milljónir manns og rústuðu heilu samfélögin. Og ekki var Timur Lenk (1336-1405) síðri manndrápari en þeir (þessi dæmi eru frá mér kominn). Bæta má við að borgarastyrjaldir í Kína kostuðu tugir milljóna lífið.

Hoffmann segir að stríð utan Evrópu hafi artað sig með hætti sem ekki hvatti til vopnakapphlaups. Kínverjar hafi átt í stöðugum skærum við hirðingja en auðvelt var að berjast við þá með hefðbundnum hætti.

Frankopan segir að í Asíu hafi löng friðartímabil fylgt tímaskeiðum mikilla átaka. Það gildir alla vega um Kína, eftir borgarastyrjaldir tók ein keisaraætt völdin og friðaði landið. Friðarskeiðin voru löng, þeim lauk með valdamissi keisaraættarinnar og nýrri borgarastyrjöld.

Frankopan staðhæfir að svipað hafi gilt um önnur ríki Asíu, eftir mikil ófriðarskeið hafi ríkt fróðafriður um alllangt skeið. En í Evrópu hafi verið sístríð. 

Hoffmann notar kenninguna um skynsamlegt val til að ígrunda að það hafi borgað sig fyrir ráðamenn í Evrópu að standa í stöðugum stríðum. Meðal annars hafi þess vart verið dæmi að konungar misstu völdin vegna bágs gengis í styrjöldum. Gagnstætt því hafi konungar indverskra ríkja átt á hættu hallarbyltingu ef illa gekk að stríða. Því hafi þeir í ríkari mæli forðast styrjaldarekstur en kollegar þeirra í Evrópu.

Hér má staldra við og spyrja hvers vegna ekki varð vopnakapphlaup milli borgríkja indíána í Mið-Ameríku en þau virðast hafa átt í stöðugum skærum sín á milli. Vandinn er sá að við vitum ekki nógu mikið um sögu þeirra enda eyðilögðu Spánverjar mikilvægar heimildir um hana.

Fleiri atriði.  

Hvað sem því líður er ólíklegt að vopnakapphlaupið eitt skýri valdatöku vestursins. Einhver kann að spyrja hvort kapítalisminn sé ekki meginskýringin á því að ríki Vestur-Evrópu urðu svona voldug.

En spyrja má hvort hann hefði rutt sér til rúms án hins eflda vopnabúnaðar. Einnig hvort Indland og Kína hafi ekki verið komin jafnlangt eða skammt á kapítalismabraut þegar Evrópa fór að gera sig gildandi.

Ekki var kapítalisma fyrir að fara á Spáni og í Portúgal  landvinninganna en með því að leggja Vesturheim undir sig missti Silkileiðin í Asíu efnahagsmátt sinn.

Vestur-Evrópubúar gátu nú flutt asískt krydd og fleiri vörur beint, án milligöngu stórríkja múslima í Asíu. Þeim hrörnaði fyrir vikið en vesturevrópskt efnahagslíf efldist að sama skapi. Sú efling átti örugglega þátt í vexti kapítalismans evrópska.

En ekki er eins víst að hann hafi eflst vegna rányrkju Spánverja í Vesturheimi. Þeir rændu þar, rupluðu, og frömdu fjöldamorð, afraksturinnn var ógrynni gulls sem flutt var til Spánar. En afleiðingin varð offramboð á gulli sem leiddi til ríkisgjaldþrots Spánar.

Hvað um það,  skipakostur skipti líka  miklu. Karavellurnar vesturevrópsku voru mun betri skip en skip flestra annarra þjóða en þær eru sagðar að miklu leyti afurð vopnakapphlaupsins.

Hoffmann segir frá því hvernig hollenskar karavellur á sautjándu öldinni  með  öflugar fallbyssur hafi haft  yfirburði yfir flota forríkra fursta þar sem nú er Indónesía. 

Þó má ekki gleyma að Kínverjar byggðu risaskip, miklu stærri en karavellurnar, og sigldu með þeim um höfin undir stjórn Zheng He á fimmtándu öldinni öndverðri.

En af einhverjum ástæðum  lét keisarinn banna slíkar siglingar og lét eyðileggja risaskipin. Konungar og keisarar Evrópu höfðu ekki nándar nær eins mikil völd og sá kínverski, kannski varð mikil miðstýring Kínverjum fjötur um fót.

Hér ber að nefna „1500/1500“ kenninguna en samkvæmt henni voru um árið 1500 fimmtán hundruð ríki í Evrópu sem gert hafi álfuna síður miðstýrða en Asíu (það ástand í Evrópu  hlýtur að hafa eflt vopnakapphlaup, fjöldi aðila (1500 stykki) hefur keppst um bæta vopn sín).

Þar var auk Kína að finna hin miklu, múslimsku  byssupúður heimsveldi (e. gunpowder empires), Osmannaveldið tyrkeska, mógúlaríkið  á Indlandi og hið íranska Safavida-keisaradæmi.

Kannski voru þetta risar á leirfótum, kannski kom miðstýring í veg fyrir „uppbyggileg“ vopnakapphlaup.

Sjálfsagt hafa margt annað komið við sögu en vopnakapphlaupið, t.a.m. voru Evrópubúar ljónheppnir þegar Mongólaherinn sneri aftur árið 1241 eftir að hafa malað þýsk-pólskt riddaralið. Hernum hafði borist fregnir um lát stórkhansins (keisara Mongóla) og hélt aftur heim til að taka þátt í valdabaráttunni.

Kannski var hér á ferðinni svartur svanur, atburður sem mestar líkur voru á að myndi ekki gerast. Hefði stórkhaninn ekki verið svo vinsamlegur að hrökkva upp af  er ekki ósennilegt Mongólar hefðu lagt undir sig drjúgan hluta Evrópu og hún aldrei orðið ríkjandi á heimsvísu.

En tvennt kann að hafa dregið úr líkum á því: Hið mikla evrópska fjalllendi sem var erfitt yfirferðar og fátækt álfunnar. Það var einfaldlega ekki eftir miklu að slægjast þar miðað við Kína og lönd múslima.

Ef til vill var það engin tilviljun að Mongólar nenntu ekki að leggja Evrópu undir sig og svanurinn því  skjannahvítur.

Lokaorð.

Hvað sem því líður þá er vopnakapphlaupskenningin forvitnileg. Líklega átti vopnakapphlaupið einhvern þátt í að gera sum Evrópuríki voldug, svo voldug að þau ríktu yfir mestöllum heiminum um nokkurt skeið.

Heimildir:

Frankopan, Peter 2015: The Silk Road- A New History of the World. Bloomsbury Publishing.

Hoffmann, Philip T. 2015: Why did Europe Conquer the World? Princeton University Press.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu