Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Hagfræði, siðferði, hlutlægni og Ásgeir Jónsson

Stundin birti nýverið snaggaralega ádrepu eftir  Jóhann Pál Jóhannsson um  hagfræði og feril Ásgeirs Jónssonar.  Í ljós kemur að Ásgeir hefur tröllatrú á  hagfræði og meintum frjálsum markaði.    Hann talar eins og hagfræðingurinn sitji í Hliðskjálf og sjái í gegnum holt og hæðir, hafi  svör á reiðum höndum  við öllum samfélag-spurningum. Þannig töluðu marxistar (van)sællra minninga.  

Staðreyndir og boðorð

Í ofan á lag   segir Ásgeir  að hagfræðin boði eftirfarandi: „Þú átt að beita markaðslausnum“. En Ásgeir skilur ekki að ef hagfræði er vísindagrein þá fjallar hún einvörðungu um það sem er, hefur verið eða gæti orðið, ekki það sem á að vera (sem sagt,  um staðreyndir, ekki siðaboð).  Ýmis góð rök hníga að því að ekki sé hægt að sýna fram á hvað beri að gera í ljósi staðreynda einna. Sem sagt, frá tilteknum staðreyndum um hagkerfið   er ekki hægt að álykta neitt um hvernig rétt sé að hegða sér. Það er siðfræðilegt og pólitískt atriði að setja fram siðaboð og pólitísk boð (e. norm), ekki vísindalegt atriði og þar af leiðandi ekki í verkahring hagfræðinga. Menn geta t.d. samþykkt að markaðsfrelsi auki hagvöxt en talið aukin hagvöxt óæskilegan,  siðferðilega og pólitískt.   

Samt er boðskapur Seðlabankastjórans nýskipaða  ekki alveg eins vitlaus og ætla mætti því í fyrsta lagi má spyrja hvort öruggt sé að ekki sé hægt að draga ályktanir um það sem ætti að vera frá staðhæfingum um staðreyndir. Heimspekingurinn John Searle hefur leitt athyglisverð rök að því að frá staðhæfingum um vissar gerðir staðreynda megi draga boðandi ályktanir (Searle 1969: 175-198). Um sé að ræða stofnana-staðreyndir,  þ.e. staðreyndir sem skapaðar eru af reglum sem menn setja. Knattspyrna er þess lags fyrirbæri, án reglna hennar er þessi íþrótt ekki til. Og frá þeirri stofnana-staðreynd að tiltekinn varnarmaður tók boltann með höndunum innan eigin vítateigs má draga þá boðandi ályktun að dæma beri víti.

Nú er samfélagið og þar með hagkerfið að miklu leyti afurð reglna og því belgfullt af stofnana-staðreyndum. Kannski má draga  boðandi ályktanir um markaðsfrelsi frá einhverjum stofnanastaðreyndum um hagkerfið. En hvaða stofnana-staðreyndum? Sönnunarbyrðin er þeirra sem þetta  telja (ef einhverjir eru), þess utan er greining Searles vægast sagt umdeild. Svara verður gagnrýnendum hans ef barn á að verða í brók.

Hlutdrægni félagsvísinda

 Efast má um að  félagsvísindi,  þ.á.m. hagfræði, geti verið öldungis hlutlaus miðað við pólitískt gildismat og pólitísk boðorð.  Ýmislegt bendir til að svo sé ekki, að boðandi þáttur sé með nauðsyn í þessum fræðum. Sé svo getur hagfræðin ekki talist hlutlæg vísindagrein, andstætt því  sem Ásgeir virðist trúa. 

 Lítum á rök fyrir því að hagfræðin og önnur félagsvísindi  geti ekki verið hlutlaus miðað við pólitískt gildismat (ég rek hér aðallega rök mín í Kreddu í kreppu en bæti ögn við). Í fyrsta lagi hefur vísindaheimspekingurinn Mary Hesse lög að mæla er hún segir að rúm sé fyrir pólitíska og siðferðilega hugmyndafræði í öllum vísindagreinum þar eð vísindakenningar séu vansannaðar af staðreynd. Það sé  ávallt gap  milli kenninga og empirískra upplýsinga, það vilji   hugmyndafræðin oft fylla (Hesse 1982: 98-115).

Í öðru lagi segir finnski heimspekingurinn Georg Henrik von Wright réttilega að  samfélagið  sé  að ekki óverulegu leyti skapað úr gildishlöðnum hugtökum sem ekki verði skilin á öldungis óhlutdrægan máta.  Tökum sem dæmi hið gildishlaðna, fordæmandi hugtak „morð“,  en það sé einn hornsteinn allra samfélaga að manndráp af vissu tagi séu ekki liðin. Því er ekki til siðferðilega  hlutlaus aðferð við að beita hugtökum sem varða manndráp. Segi ég að hún hafi drepið hann í sjálfsvörn þá réttlæti ég gjörð hennar (t.d. von Wright 1979: 32-47).

Athugum fræðilegar rannsóknir sem varða  morð og fóstureyðingar.  Hagfræðingarnir Steven Levitt og Stephen Dubner veltu því fyrir sér hvers vegan tíðni morða vestanhafs hefur verið minni á síðustu 15-20 árum en á sjöunda áratugnum. Þeir töldu sig geta hrakið ýmsar vinsælar kenningar um málið og staðhæfðu að líklegast megi þykja að lögleiðing fóstureyðinga sé skýringin. Fátækar, einstæðar mæður, sem einatt voru dópistar eða drykkjumenn og  bjuggu í hættulegum hverfum, eyddu oftar fóstrum en aðrar konur. Meiri líkur eru á því að börn slíkra mæðra verði morðingjar en börn annarra mæðra. Því hafi mögulegum morðingjum einfaldlega verið eytt í móðurkviði. En Levitt og Dubner viðurkenna að andstæðingar fóstureyðinga geti sagt að eiginlega hafi tíðni morða aukist á þessu tímabili því fóstureyðingar séu morð (Levitt og Dubner 2005: 4-6 og 117-144).

Ég vil bæta eftirfarandi við: Fræðimaður sem er andsnúinn frjálsum fóstureyðingum,  og vill vera samkvæmur sjálfum sér, yrði að  leggja fram aðrar tölur þar sem fóstureyðingar reiknast sem morð. Svipað gildir um eitt af lykilhugtökum samfélagsins, ekki síst haggeira þess, hugtakið um vinnu. Að telja þjófnað eða heimilisstörf ekki vinnu, og ekki athafnir  hvers afurðir eru hluti af  þjóðarframleiðslu,  er að meta þessa starfsemi með vissum hætti. Mér vitanlega flokka hagfræðingar ekki þjófnað sem vinnu og eru tiltölulega nýlega teknir að meta heimilisstörf sem framlegðarþátt í hagkerfinu. Ástæðan er einfaldlega breytt gildismat vegna aukins kvenfrelsis.  Feminískir hagfræðingar gagnrýndu akademíska hagfræði fyrir að vanmeta gildi heimilisstarfa.

Í þriðja lagi bendir ýmislegt til þess að félagsvísindi séu samfélagslega gagnrýnin í eðli sínu. Norski heimspekingurinn Hans Skjervheim telur að svo sé. Ekkert mál er fyrir náttúruvísindamanninn að skoða viðfangið utan frá, vera áhorfandi. Hann getur ekki gert sjálfan sig að öreind eða gerli þótt hann rannsaki slík fyrirbæri. Öðru máli gegnir um félagsvísindamanninn. Það er erfitt fyrir  hann  að vera  hreinræktaður  áhorfandi að því samfélagi sem hann rannsakar. Til að verða slíkur áhorfandi þá verður hann að hlutgera þá menn sem hann rannsakar, t.d. líta á þá sem leiksoppa ytri aðstæðna, án viljafrelsis. En hann getur alla vega ekki hlutgert alla menn því þá hlutgervir hann sjálfan sig. En hlutur getur ekki íhugað kenninga og metið gildi reynslugagna, til þess þarf einhvers konar viljafrelsi.  Þar eð hann sjálfur íhugar og metur reynslugögn  getur hann sjálfur ekki eingöngu verið hlutur. En þá lendir hann í mótsögn við sjálfan sig: „Allir menn eru hlutir og ég er maður sem ekki er hlutur“. Úr því að hann sjálfur getur ekki einvörðungu verið hlutur má ætla að slíkt hið sama gildi um flest fólk. Alger hlutgerving er því ómöguleg og það þýðir að  erfitt er að útiloka þátttakandahlutverkið algerlega.

Satt að segja getur félagsvísindamaðurinn ekki komist hjá því að vera að nokkru leyti þátttakandi, raunverulegur eða virtúell þátttakandi. Hugsum okkur fræðimann sem rannsakar orsakir glæpa og  kemst að þeirri niðurstöðu að meginorsök þeirra sé að glæpamenn séu aldir upp í fátækt,  af einstæðum mæðrum. En glæpamennirnir hafa kannski sjálfir allt aðra skýringu. Ef fræðimaðurinn trúir sinni eigin skýringu þá verður honum að vera röklega kleift að verja skoðun sína í rökræðu við glæpamennina og sýna fram á að þeirra skýring sé ósönn, hans sönn. Þeir eiga möguleika á því svara honum og andæfa kennimgu hans. Þannig sé  félagsvísindamaðurinn virtúell þáttakandi í rökræðu við „viðfang sitt“.

Félagsvísindamaðurinn getur aldrei verið hreinræktaður áhorfandi að samfélags-leiknum, hann er ávallt mögulegur eða raunverulegur þátttakandi í krafti sinna fræða. Marxistar hafi ekki skilið þetta til fullnustu, þeir hafi í reynd trúað því að hægt væri að skoða menn sem leiksoppa samfélags og sögu, eins konar hluti . Bæta má við að frjálshyggjumenn hugsa flestir með svipuðum hætti,  þó ekki fylgjendur austurríska skólans. Einnig voru til marxískir skólar sem andæfðu hlutlægnishyggju, t.d. Frankfúrtarskólinn.

Skjervheim  segir að kenningar í félagsvísindum geti  ekki verið öldungis hlutlausar um pólitískt gildismat. Annað hvort réttlættu þær eða vanréttlættu þau viðhorf sem menn hafa til samfélagsins. Þær geta líka réttlætt það viðhorf að í lagi sé að vera skoðanalaus en eins og sjá má verður líka að réttlæta það viðhorf. Í tilviki glæpafræðingsins vanréttlætir hann skoðanir glæpamannanna á glæpum.  Samfélagið sé  sjálft að nokkru skapað úr þeim skoðunum sem menn hafa, t.d. skoðunum  á glæpum.

Tökum hreinpólitískt dæmi:  Staðhæfi hagfræðingur (t.d. Ásgeir)  að frjáls markaður sé besta leiðin til hagsældar þá réttlætir sú staðhæfing frjálshyggju og samfélög í hennar anda  en orkar sem gagnrýni á kratísk samfélög svo fremi slík samfélög hafi trú á hagsæld sem e.k. hugmyndafræði.

Félagsvísindi séu í eðli sínu gagnrýnin vísindi, annað hvort orka kenningar þeirra sem gagnrýni á samfélagið eða sem gagnrýni á þá sem gagnrýna samfélagið. Eða sem gagnrýni á þá sem halda að fræðimaðurinn geti ekki verið hlutlaus  (Skjervheim 1976: 51-72, 209-225).    Nefna má að kenningar Skjervheim höfðu mikil áhrif á Jürgen Habermas (Habermas 1981: 167-171).  

Hvað sem því líður bendir margt til þess gagnrýnið mati á viðfanginu sé hluti af starfi félagsvísindamannsins, annars er hætta á að hann réttlæti fyrirbæri án þess að ætla sér það, verði hlutdrægur vegna hlutleysistilburða sinna. En hið gagnrýna mat má ekki leiða til þess að hann kasti skynseminni  fyrir róða. Skjervheim og Habermas leggja ríka áherslu á að hið gagnrýna mat verði að vera vel ígrundað, einnig er það skynsemisatriði að félagsvísindi geri grein fyrir pólitísku gildismati sínu. Og von Wright telur ekki að gildismat sé öldungis huglægt, félagsvísindamaðurinn getur beitt gildishlöðnum hugtökum af yfirvegun og skynsemi.

Hafi þremenningarnir  (og Hesse) á réttu að standa þá hlýtur hlutlægni félagsvísinda að vera takmörk sett. Ég ræð af líkum að kenningar þeirra séu í megindráttum réttar, m.a. vegna síns mikla skýrigildis. Þær skýra hvers vegna félagsvísindin virðast eiga erfitt með að keppa við náttúruvísindin og hve pólitískt hlutdræg þau oft vilja vera. Það sést ekki síst í vinsældum frjálshyggju meðal hagfræðinga.  

Eins og áður segir virðist  Ásgeir  trúa því að  hagfræðin sé algerlega hlutlæg vísindi. Sú hugmynd að hagfræðin sé í eðli sínu hlutdræg, gagnrýnin vísindi sem beiti gildishlöðnum hugtökum, er andstæð kreddum Ásgeirs. 

 Mannréttindi og fjármagn.

Lítum á staðhæfingar Ásgeirs um að takmarkanir á fjármagns-„frelsi“ sé mannréttindabrot. Í fyrsta lagi er  engan veginn gefið að samasemmerki sé milli mannréttinda og þess sem frjálshyggjumenn kalla „frelsi“. Má ekki fullt eins segja að félagslegt öryggi sé mannréttndi? Ásgeir verður líka að gera grein fyrir því hvað hann eigi við með frelsi. Fylgir hann kenningunni um neikvætt frelsi, jákvætt frelsi, félagslegu ábyrgðarkenningunni eða kenningunni um frelsi sem forræðisleysu? Án svars við þessari spurningu er hjal Ásgeirs um mannréttindabrot inntakslaust. 

Í öðru lagi eru slíkar takmarkanir ekki síst takmarkanir á starfsemi fyrirtækja og fyrirtæki eru ekki menn og njóta því ekki mannréttinda.

Í þriðja  lagi getur fjármagn verið vopn sem skert getur frelsi manna. Ef rétt er að banna mönnum að taka eignir annarra ófrjálsri hendi má fullt eins banna þeim að nota fjármagn með frelsisskerðandi hætti.

Lokaorð.

Við höfum séð að hinn nýskipaði Seðlabankastjóri er vægast sagt yfirlýsingaglaður og á sér sín blæti, þ.e. hagfræði og markað. Hann skilur ekki  að tæpast er hægt að leiða boðsyrðingar frá yrðingum um staðreyndir. Hann heldur ranglega að hagfræði hljóti að vera öldungis hlutlæg fræðigrein sem veiti svör við öllum samfélags-spurningum. En flest bendir til að hún eins og önnur félagsvísindi sé bundin á klafa gildishlaðinna hugtaka og hafi gagnrýnið eðli sem setji hlutlægni hennar skorður.

Heimildir:

Habermas, Jürgen (1981): Theorie des kommunikativen Handelns. Band 1. Frankfurt a.M.: Suhrkamp.

Hesse, Mary (1982): “Science and Objectivity”, í Held, David og Thompson, John (ritstjórar):  Habermas. Critical Debates. London og Basingstoke: MacMillan Press, bls. 98-115.

Steven D. Levitt og Stephen J. Dubner (2005): Freakonomics. Harmondsworth: Penguin.

Searle, John (1969): Speech Acts. Cambridge: Cambridge UP.

Skjervheim, Hans  (1976): Deltakarar og tilskuarar og andre essays. Ósló: Aschehoug.

Stefán Snævarr (2011): Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni.Reykjavík: Heimskringla.

Von Wright, Georg Henrik (1979): „Humanism and the Humanities“. Annales Academicae Regiae Scientorum Uppsalienses 22, bls. 32-47.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni