Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Gegn tískugræðgi

 

Bandaríska skáldið Ezra Pound fordæmdi okur ákaft í kvæðabálki sínum Cantos: „…with usura hath no man a painted paradise on his church wall“ (Canto XLV). Okur á sér rætur í græðgi en græðgin veldur fleiru illu og birtist í ýmsum myndum. Ein þeirra er tískugræðgi alltof margra Íslendinga, tískugræðgi sem líklega kom með Kanahernum. Púkófælni, óttinn við að vera púkó, rekur marga þeirra áfram og veldur stöðugri vanlíðan, segja sannfróðir. Ekki bætir úr skák að það kostar morð fjár að fylgja tískunni, ekki síst bíla- og snjallsímatískunni. Best gæti ég trúað að margir hinna   púkófælnu taki lán, sem þeir geta vart endurgreitt, til að fullnægja tískugræðgi sinni (getur verið að til sé tískufíkn, engu skárri en áfengis- eða dópfíkn?). Fyrir vikið þurfa þeir að vinna enn meir en ella. Á meðan eru börn þeirra jafnvel vanrækt með þeim afleiðingum að þau eru vart læs og þjást af allra handa geðkvillum. Bíltískugræðgin hefur verið skaðvænleg á margvíslegan máta. Um 1990 bauð tískan að allir ættu að kaupa sér bíl og helst tvo. Það var talið lummó að ferðast fótgangandi og er svo enn. Afleiðingarnar voru  útlitshrun, Íslendingar urðu á fáeinum árum ein ljótasta þjóð Evrópu. Einnig eru líkur á að bíltískugræðgin muni valda heilsuhruni þegar fram í sækir.

Tískugræðgin á sér margar birtingarmyndir, ein þeirra er sú árátta sumra að afgreiða skoðanir andstæðinganna sem forneskjulegar eða gamaldags. Þessir menn hafa ekki fyrir því að rökstyðja að hið forneskjulega sé slæmt, það er gefið fyrirfram. Þannig skaðar tískugræðgin íslenska umræðu, gerir hana ómálefnalega. Til að gera illt verra þorðu margir ekki að gagnrýna útrásina af ótta við að vera taldir hallærislegir. Þannig átti tískugræðgin þátt í hruninu, hefðu fleiri þorað að gagnrýna útrásina má ætla að fólk hefði vaknað fyrr til vitundar um meinsemdir hennar og getað gert eitthvað í málunum.

Þessi græðgi ber ábyrgð á fleiru því sem miður fer, hún átti mikinn þátt í að eyðileggja skákgetu Íslendinga. Upp úr 1990 fékk skák púkóstimpilinn, tískuliðið í henni Ameríku var sko ekkert í því að tefla, öðru nær. Og fjöldi Íslendinga henti taflmönnunum en keypti í staðinn fótnuddstæki sem þá voru í tísku. Þau fóru fljótlega úr móð og beint á ruslahaugana. Nú virðast bókmenntir og móðurmál vort vera orðin púkó í augum hinna púkófælnu, enska og snjallsímar svakakúl. Spurt er: Á hinum tískugráðugu að líðast að eyðileggja eldfornt tungumál og bókmenningu? Það skal aldrei, aldrei, aldrei! Burt með græðgi, hverju nafni sem hún kunni að nefnast!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu