Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fiskeldi í Noregi

Mér skilst að norskt fiskeldisfyrirtæki hyggist hefja stórfellt fiskeldi í Eyjafirði. Í því sambandi ber Íslendingum að líta ögn á stöðu mála í norsku fiskeldi. Laxalús, ættuð frá eldisfiski, er sögð eyðileggja norsk rækjumið. Tvö norsk dagblöð, Morgenbladet og Dagbladet, hafa haldið því fram með réttu eða röngu að bullandi spilling sé í norska fiskeldinu. Embættismenn sitji beggja vegna borðsins, eigi hlutabréf í fiskeldisfyrirtækjum en eigi um leið að sinna fiskeldinu í krafti embættis síns. Vísindamenn sem rannsaki fiskeldisfisk séu beittir þrýstingi til að fá niðurstöður sem hæfi fiskeldisfyrirtækjunum. Enda eru rannsóknirnar að allmiklu leyti fjármagnaðar af fyrirtækjunum. Sjávarútvegsráðherrann, Per Sandberg, hefur verið gagnrýndur harðlega og sakaður um að ganga erinda fiskeldisauðmagnisns. Morgenbladet segir að fjöldi stórþingsmanna hafi fjárfest í fiskeldi um leið og þeir vinni að löggjöf um það. Nefnir blaðið hægrimanninn Ove Trellevik og bætir við að Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra í kratstjórninni sálugu, hafi stórgrætt á fiskeldi. Um miðjan desember birti blaðið úttekt á meintri rannsóknarskýrslu sem kallast 2050-skýrslan. Hún fjallar um þróun fiskeldis til 2050. Blaðið finnur henni allt til foráttu, hún sé allsherjar halelúja um fiskeldið. Ekki sé vikið einu orði að mögulegum neikvæðum áhrifum , t.d.  hugsanlegum vistskaða af völdum fiskeldis. Blaðið bendir á að einn stjórnarmaður þess vísindaapparats sem pantaði skýrsluna, Karl Andreas Almås, hafi síðar gegnt störfum á vegum fiskeldisfyrirtækja. Um þetta skal ekki dæmt, undirritaður er ekki alvitur og harla fáfróður um fiskeldi. Kannski fara norsku blöðin tvö með fleipur. Hvað sem því líður er eðlilegt að Íslendingar fylgist grannt með norsku umræðunni um þessi mál.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu