Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þegar verðið verður sverð

„Ég er ekki kominn til að boða yður frið heldur sverð“ sagði Jesús frá Nasaret. Annar frelsari, Hannes Gissurarson, vill boða verð, ekki sverð. Hann segir frjálshyggjuna friðarspeki, speki verðsins, ekki sverðsins. Vel mælt enda Hannes pennafær, hvað sem segja má um boðskap hans.

Þversögn markaðsfrelsis

Satt best að segja er þessi boðskapur ekki ýkja góður, Hannesi yfirsést að verð kunni að verða sverð. Hvernig má það vera? Til þess að svara spurningunni verðum við fara stutta krókaleið um kenningar Miltons Friedmans og mögulega veikleika þeirra. Friedman sagði réttilega að ef menn vilja ekki almennt hámarka nytjar sínar er vandséð að markaðurinn geti virkað sem skyldi. Ef ekki, þá senda markaðsgerendur röng skilaðboð um arðsemi hinna ýmsustu efnahagsstarfsemi. Arðsemi sé eini nothæfi mælikvarðinn á efnahagslegri skilvirkni. Það þýði að einungis ef menn reyna að hámarka arðsemi á gefnu sviði efnahagsvirkni er hægt að sannreyna hvað sé hámarksskilvirkni á þessu sviði. En að minni hyggju sá Friedman ekki að það sem gerir markaðinn mögulegan ógnar honum um leið: Upplýst eigingirni segir gerandanum að reyna að takmarka samkeppni eins mikið og hann geti, t.d. með því að beita ríkisvaldinu. Eða með því að vinna með öðrum fyrirtækjum, t.d. segir þýska vikuritið Der Spiegel að helstu bílaframleiðendur Þýskaland hafi gert með sér leynilegan samning um að takmarka samkeppni milli sín (Spiegel nr. 30, 2017). Lítum aftur á það sem segir um hámörkun nytja. Það getur ekki þýtt annað en að markaðagerendur verði flestir hverjir að vera eigingjarnir með upplýstum hætti. Markaðurinn myndi ekki virka væru þeir upp til hópa góðmenni sem ekkert aumt mættu sjá, dældu fé í góðgerðarstarfsemi og rækju ekki bágstadda starfsmenn. Því er frjálshyggjan eigingirnisspeki.

Verð verður sverð

En hvað varðar þetta verð og sverð? Ef hámörkun nytja er æðst allra markaðs-markmiða þá má ætla að stundum hámarki markaðsgerandi nytjar sínar með því að stuðla að styrjöld, tilgangurinn helgar meðalið á markaðnum frjálsa. Í lok nítjándu aldarinnar réri blaðakóngurinn William Hearst öllum árum að því að Bandaríkin færu í stríð við Spán út af Kúbu. Ástæðan? Hann taldi með réttu að slík styrjöld yki sölu blaða sinna og þar með gróða sinn. Ekki hafa hergagnaframleiðendur verið síður drjúgir við svipaða iðju, einfaldlega verða gróðafíknar. Þannig verður verðið sverð. Þó ber að slá varnagla, fjöldi öflugra fyrirtækja og fjárfesta hefur hag af friði, styrjöld getur valdið eyðileggingu sem bitnar á þessum aðilum. Auk þess dregur mjög úr almennri neyslu ef barist er í tilteknu landi. Sé þetta rétt er ekki gefið að hermangara fái vilja sínum framgengt, fyrirtæki sem hag hafa af frið geta vel verið  öflugri en hergagnafyrirtæki. Á árunum fyrir síðara heimsstríð var hergagnaiðanðurinn bandaríski mjög veikburða enda vildu Kanar helst ekki fara í stríð þá. En hvers vegna efldist hann þá svo mjög eftir stríð, svo mjög að til varð heriðnaðarveldi (e. Military industrial complex)? Ástæðurnar kunna að hafa verið margar, ótti við vald Sovétríkjanna, hagur hersins og hagur stóriðnaðarins. Nýmarxistar héldu því fram að aukin hervæðing iðnaðarins væri nauðsynlegt tæki til að koma í veg fyrir kreppur. Eftirspurn eftir hergögnum væri tiltölulega stöðug og forspáleg og átti því þátt í að draga úr markaðssveiflum. Væri niðursveifla í efnahagnum mætti leysa vandann með því að hervæðast enda komust Bandaríkin ekki upp úr kreppunni fyrr en þau tóku að efla hergagnaiðnaðinn allverulega á stríðsárunum. Það fylgir sögunni að nýmarxistar skýrðu velferðaríkið með líkum hætti. En marxískar hagfræðikenningar eiga við alvarlegan vanda að stríða, þann að kenningin um gildisaukann og þar með arðrán er illprófanlega, jafnvel óprófanleg (reyndar hafa verið tilraunir að endurnýja þá kenningu með fulltingi leikkenninga en ekki veit ég hve velheppnaðar þær eru). Ég vil líka  nefna eitt sem mælir gegn þeim, sú staðreynd að hinu mjög svo hervæddu Bandaríkjum hefur hnignað efnahagslega á meðan síður hervæddar þjóðir eins og Svisslendingar og Norðmenn  hafa auðgast mjög. Þó ber að nefna að hinir ofurríku vestra hafa aldrei verið ríkari enda leikurinn kannski til þess gerður. Sú staðreynd gæti bent til þess að sannleikskjarni sé í marxískri hagfræði.

Lokaorð

„Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ orti góðskáldið Steinn Steinarr. Frjálshyggjumenn og nýmarxista dreymdi stóra drauma en draumur er falli næstur. Lausnin er að hafna jafnt verði sem sverði, hafna hugmyndakerfum, gjalda varhug við stórsögum, eins og Ljótharður (Lyotard) hinn franski vill. Gjalda varhug við stórsögunum um verðið væna og byltingarsverðið máttuga. Vandi jafnt nýmarxisma sem frjálshyggju og annarra hugmyndakerfa er ekki síst  að þau eru víðfeðm, jafnvel altæk, kerfi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni