Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Bókasafnið-ný bók

Í nóvember mun forlagið Skrudda gefa út eftir mig heimspekilega tilraunaskáldssögu sem bera mun heitið Bókasafnið  og er hún myndskreytt af Þorgrími Kára Snævarr.

En eins og menn verða fljótlega áskynja þá er mörkunum að kalla megi bókina skáldssögu, hún inniheldur texta af margvíslegu tagi, þ.á.m. ljóð og smáritgerðir ýmsar, m.a. um heimspekileg efni. Bók þes Að svo miklu leyti sem hún er skáldssaga þá segir hún frá ungum plebba sem Þórarinn heitir og hefur aldrei hefur lesið bók, hatar móðurmál sitt, elskar ensku og tölvuleiki. Himnamóðirinn og Röddin veðja um hvort þeirri síðarnefndu takist að fá hann til að lesa bók, ef það tækist ekki mun Himnamóðir hirða sál hans eftir dauðann. Þórarinn er allt í einu hrifinn inn í heim Bókasafninsins. Þar eru bækur eftir Stefán Snævarr í hillum, bækur af aðskiljanlegasta tagi. Röddin ávarpar hann og segir að hann verði að lesa þessar bækur ef hann eigi að sleppa út úr Bókasafnsheiminum. Hann neyðist nú til að hefjast handa og eru bækurnar birtar í þeirri röð sem hann les þær. Á milli bóka er sagt frá viðbrögðum hans, og samræðum Himnamóður, Raddar, mín sjálfs, Textans og Stjúphundsins.

Undirbækur

Fyrsta bók er úrval ljóða minna, bæði birtra og óbirtra, og heitir Tveggja alda sýn. Úrval ljóða 1972-2016. Þórarinn fussar og sveiar enda illa við ljóð. Næsta bók er Samtöl við Stjúphund. Örsögur? Örleikrit? Handrit að teiknimyndasögu? Hér ræðir „ég“ (ég sjálfur?) um heima og geima við hund nokkurn og fylgja myndskreytingar í teiknisagnmyndastíl (reyndar er allt Bókasafnið myndskreytt). Þórarni finnst þetta skárra. Þá koma Örsögur og frásögur, plús minningargreinar, ljóð og leikrit (?), flestar tilraunakenndar. Bæði í henni og ljóðabókinni má finna persónulega og tilfinningalega tjáningu höfundar. Fjórða bók ber heitið Sagn(furðu)fræði. Í henni getur að líta sagnfræðilegt lexíkon hins skáldaða lands Rómúlíu auk þjóðsöngs landsins með nótum sem ég hefsamið. Einnig er spunnið skáldlega kringum sögu heimspekinnar og taflsins. Þórarni er ekki skemmt og fær raflost fyrir að sletta ensku og beygja vitlaust. Í næstu bók Trúarrit? Vantrúarrit? Bókin um vegleysuna? má finna bæði skáldsskap og heimspekilega samræðu um tilvist Guðs. Þórarinn tekur að trúa því að Röddin sé Guð, vistin í Bókasafninu refsidómur, hann verði að lesa og tigna Röddina ef hann eigi að sleppa. Lokabókin ber heitið Völundarbókin. Ritgerðir, örgreinar, orðskviður. Í henni má finna stuttar ritgerðir, einatt skáldlegar, um bókmenntir, dægurmenningu, heimspeki, stjórnmál o.fl. Meðal þeirra má nefna ritgerðina Björk, Rousseau rokksins. Þar ber ég Björk saman við franska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau.

 Í lokakaflanum, Völundar(goð)sögum, segir Röddin hróðug við Himnamóður að hún hafi unnið, Þórarinn sé tekinn að lesa af nautn. En allt í einu tekur heimur Bókasafnsins að hverfa.

Hvers lags bók?

Undirheiti bókarinnar Bókasafnið er „fjölbók? Allistaverk? Albók? Heimspekilegur skáldskapur, skáldleg heimspeki? Tilraunaskáldsaga!“ Fjölbók af því að hún samanstendur af mjög mismunandi bókum. Allistaverk af því að hún inniheldur myndir og laga-nótur, auk fagurbókmennta. Albók af því að hún fjallar um allt milli himins og jarðar. Skáldskapurinn í er oft heimspekilegur, heimspekin yfirleitt skáldlega. Hún er óneitanlega tilraunakennd.

Hún er rituð undir formerkjum þeirrar heimspekistefnu sem ég reyni að marka veikum mætti og kalla "póetískan pragmatisma". Stutta, poppaða kynningu á þeirri stefnu má finna í bókinni.

Í formála segir höfundur: „ Þyki mönnum skrudda þessi óreiðukennd þá mega þeir vita að það er með ráðum gert. Ég hef löngum kennt mig við óreiðu, kallað mig „Greifann af Kaos“. Hvað sem því líður þá kallast bækurnar á með ýmsum hætti, óreiðan er skipuleg þótt skipulagið sé óreiðukennt. Í bókinni er ákveðin framvinda, hún hefst á ljóðum og bókmenntatextum en verður hægt og sígandi heimspekilegri. Þróun frá „mýþos“ til „lógos“, skáldleikurinn verður smám saman spekileikur.“ Í handritinu er stöðugt verið að brjóta niður veggi milli textagerða, t.d. skáldskapar og fræðitexta, og milli veruleika og skáldskapar, t.d. birtist höfundu sjálfur undir fullu nafni í bókinni. Einnig er ógrynni textatengsla, t.d. minningargrein um aðalpersónu skáldsögunnar Roklands eftir Hallgrím Helgason.

Lokaorð

Vonandi vekur þessi kynning forvitni lesanda. Ég mun lesa upp úr henni í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8,  þann 10 nóvember og hugsanlega víðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni