Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Björn Bjarnason og Humpty Dumpty

Björn Bjarnason og Humpty Dumpty

Björn Bjarnason skrifaði  pistil nýlega um kreppu jafnaðarstefnunnar. Pistillinn er í  megindráttum málefnalegur  þar til undir lokin. Þar heldur Björn  því fram að Samfylkingunni sé haldið á floti með rógi og dylgjum um Sjálfsstæðisflokkinn, það sé réttnefnd pólitísk spilling.  En  Björn notar orðið spillingu í sérkennilegri merkingu.

Til að skilja að svo sé verðum við að hyggja að því  hvenær og hvar  er við hæfi að tala um spillingu.  Í fyrsta lagi er rétt að tala um spillingu þegar    einhverjum hefur  verið mútað til að segja eða gera eitthvað tiltekið. Í öðru lagi er rétt að tala um spillingu  öðlist einhver tiltekin gæði eingöngu vegna tengsla sinna við ákveðna aðila (frændhygli).

En Björn staðhæfir ekki  að Samfylkingarmönnum hafi verið mútað til þess að dylgja um  Sjálfsstæðisflokkinn né heldur að þessar meintu dylgjur hafi  orsakist af frændhygli.  Svo virðist sem Björn noti „spillingu“ í merkingunni „allt sem er af hinu illa“.

En flestir telja dylgjur og rógburð af hinu illa án þess að flokka slíkt athæfi sem spillingu. Jafnvel þótt einhverjum sé mútað til að stunda rógburð þá verður rógburðurinn sjálfur ekki spillingarathæfi. Sá sem það segði ruglar saman orsök og afleiðingu, orsökin er spillingaratferli, afleiðingin ekki, hversu siðferðilega fordæmanleg sem hún kunni að vera. Björn teygir merkingu orðsins spilling svo langt að það missir nánast merkingu sína.

Gárungar meðal málspekinga tala um „Humpty Dumpty kenninguna um merkingu“. Átt er við kenninguna um að mönnum sé í sjálfsvald sett hvað orð merkja. Ummæli Björns eru í anda  þessarar  kenningar, hann notar „spillingu“ í þeirri merkingu sem honum hæfir.

Kenningin  á sér rætur í í bók Lewis Carrolls Through the Looking Glass. Þar ræðir Humpty Dumpty  við Lísu þá sem fyrst fór til Undralands. Þar stendur:

When I use a word,‘ Humpty Dumpty said in rather a scornful tone, ‘ it means just what I choose it to mean-neither more or less‘.

Svo bætir hann því við að þetta snúist um það hver hafi völdin. Ræður valdhafinn merkingu orðanna?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu