Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að bera kennsl á ofbeldi

Stundum heyrum við sögur af fólki sem hefur búið við ofbeldi. Oft eru mörg ár eða áratugir liðnir frá því ofbeldið átti sér stað þegar þolandi hefur safnað kröftum til að segja sögu sína. Oft er það svo að við sem lesum eða heyrum söguna fussum og sveium yfir því sem viðgekkst “í þá daga” og sláum því gjarnan föstu að svona yrði nú ekki liðið í samfélaginu í dag. Það myndi nú aldeilis einhver grípa í taumana ef allir vissu að litlar stúlkur í Hafnarfirði væru keyrðar í leigubílum um miðjar nætur til að svala fýsnum barnaníðinga. Það yrði nú heldur betur hringt bæði í barnavernd og lögreglu ef barsmíðar á heimili heyrðust út á götu o.s.fv.

Í síðustu viku bárust fréttir af Ísmanninum, hinum 66 ára gamla Sigurði Pétri sem lagði upp í hættuferð ásamt barnungri sambýliskonu sinni, systur hennar og þriggja ára barni þeirra. Lenti fjölskyldan í miklum hrakningum og var föst í ísnum í heila viku. Stundin tekur viðtal við Sigurð og augljóst er af því að hann er ansi sjálfsmiðaður. „Ég nálgaðist ískantinn aftur og það var orðið mjög órólegt. Það var mikil ölduhæð í kantinum og íshaf allt í kringum mig. Ég sat bara fastur í ísnum og þetta voru mikil högg og læti,“ segir Sigurður m.a. í viðtalinu.

Margir hafa orðið til þess að benda á gríðarlegan aldursmun Sigurðar og sambýliskonu hans. Það er gott að fólk veltir þessum hlutum fyrir sér og talar um þá upphátt. En það er þó eitt atriði sem stakk mig mjög í allri umfjöllun og ég vil velta upp hér. Það er enginn sem gerir athugasemd við að maðurinn fari með fjölskylduna út á haf þar sem hún lendir í mikilli hættu og er föst í ísnum í heila viku en hringir ekki á aðstoð fyrr en allt er komið í óefni. Þetta er dæmi um heimilisofbeldi sem mikilvægt er að fjölmiðlar átti sig á áður en lagt er upp með að skrifa frásögn af hetjulegri frammistöðu mannsins.  

Í sambandi þeirra tveggja virðist vera mikið valdaójafnvægi sem annars vegar skýrist af gríðarlegum aldursmun og hins vegar af því sem fram hefur komið í umræðunni að Sigurður sé einhverskonar velgjörðarmaður stúlkunnar „þar sem hún myndi kanski [annars] fylgja systkynum sínum í snöruna,“ eins og sonur Sigurðar orðar það. Það er mikilvægt að við séum meðvituð um það sem gengur á í samfélaginu í kringum okkur svo við getum verið hvert öðru stuðningur. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað valdaójafnvægi innan náinna sambanda getur leitt af sér. Það minnsta sem við getum gert er að láta það vera að hetjugera ofbeldismenn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu