Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

5 milljarða ótti og valkostir

Óttinn er raunverulegur

Hryðjuverkaárásir á París við lok síðustu viku hafa vakið margskyns tilfinningar í brjóstum okkar allra. Ótti held ég að sé þar ríkjandi hjá okkur flestum. Það er mikilvægt að við horfumst í augu við óttann og skoðum hvað það er sem veldur honum. Er ógnin raunveruleg? Er hún nálæg? Eða fjarlæg?

Ég óttast að árásirnar verði til þess að fleiri efist um réttmæti þess að taka á móti flóttafólki. Ég óttast að umræðan um að við eigum að leggja áherslu á að hjálpa okkar fólki áður en við hjálpum öðrum fái byr undir báða vængi.

Við eigum auðvitað að leggja áherslu á að aðstoða fólk í nærumhverfinu okkar. En það útilokar alls ekki að við getum aðstoðað fólk sem er lengra í burtu. Við Íslendingar erum þriðja ríkasta landið af OECD ríkjunum. Við eigum nóg til að hjálpa hvert öðru og hjálpa flóttafólki. 

Fimmþúsund milljónir til eða frá

Það er semsagt engin ástæða til að tefla þessu tvennu upp á móti hvoru öðru. Nær væri að skoða atriði á borð við veiðigjöldin. Þau hefur núverandi ríkisstjórn lækkað um rétt rúmlega fimm milljarða. Á ári. Þetta eru peningarnir sem við eigum að vera að rökræða hvort hefði frekar átt að nýta til að aðstoða þá sem höllum fæti standa hér á landi. Til að byggja upp meira félagslegt húsnæði. Til að bæta heilbrigðisþjónustuna. Til að styðja við Aflið. Til að taka á móti flóttafólki. Til að styðja fólk í öðrum heimshlutum til betra lífs.

Það eru ótal möguleikar til að nota fimmþúsund milljónir. Einn möguleiki er að lækka veiðigjöldin. Það var það sem ríkisstjórnin valdi að gera. Það var engin þvingun, það var val. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu