Listflakkarinn

Við Stephen Dedalus

Við Stephen Dedalus

„Tungan sem við erum að tala er tunga hans áðuren hún er tunga mín. Orð einsog heimili, Kristur, öl, kennari hljómasvo allt öðruvísi af vörum hans en vörum mínum. Ég get ekki sagt eða skrifað þessi orð ánþess að finna til óróleika og öryggisleysis. Mál hans, sem er svo kunnuglegt og svo framandi mun ævinlega vera mér áunnin tunga. Ég hef hvorki búið til orð hennar né samþykkt þau.“

Svona lýsir skáldið James Joyce, tilfinningunni hjá skáld wannabe-inu Stephen Dephalus þegar hann á í rökræðum við deildarstjórann í skólanum sínum um fagurfræði. Það er óöryggi Írans þegar hann talar við Englendinn, en þeir eiga auðvitað í rökræðum á ensku, ekki írsku, þó þeir séu staddir á Írlandi og deildarstjórinn er sá aðflutti.

Auðvitað samþykkjum við í sjálfu sér ekki orð, það gera fræðimenn sem setja saman orðabækur, og samþykki þeirra er yfirleitt bara viðurkenning á orðnum hlut. Sjitt, nú er mér hugsað til að sjitt er samþykkt orð og að hópur íslenskufræðinga hafi þurft að kyngja þeirri staðreynd áður en þeir hleyptu því í orðabókina. Fokk, hvað ég væri til í að sitja fundinn þar sem fokk og fokkmerkið rötuðu inn.

En aftur að þessari angurværð sem skáldið finnur þegar það áttar sig á minnimáttarkennd sinni gagnvart deildarstjóranum í bókinni Æskumynd listamannsins. (A portrait of the artist as an young man, sem Sigurður A. Magnússon þýddi). Ég deili þessari angurværð með skáldinu, eins furðulega og það kann að hljóma.

Nú er ég skáld, sem ólíkt Stephen hef gefið út nokkrar bækur og alveg getið mér orðstír sem pistlahöfundur (hvort hann sé góður eða slæmur læt ég aðra um að dæma), en það sem er mikilvægara í þessu tilliti er að ég er fæddur og uppalinn í sjálfstæðri þjóð með sitt eigið tungumál. Írland Stephens er land sem er undirokað af Englendingum og hefur glatað sinni eigin tungu. Meðfram sjálfstæðisbaráttunni reyna margir ekki bara að endurheimta pólitísk völd heldur líka endurheimta tungumál (sem hefur tekist en einungis að takmörkuðu leyti). Í Æskumyndinni íhugar Stephen þetta vandamál, en sér ekki fyrir sér annað en að tala, hugsa og skrifa á ensku þegar öllu er á botninn hvolft tungumálið hans. Tungumál sem hann þó er óöruggur í, og meðvitaður um að tilheyri ekki honum, en engu að síður hans. Tungumálið sem tilheyrir honum er írskan, en hana talar hann ekki.

Æskumyndin er bildungsroman um uppvöxt Stephens, sem er í raun illa dulbúinn skáldævisöguleg útgáfa af James Joyce. Hún er ein besta skáldævisaga sem ég hef lesið, sér í lagi vegna þess hvernig hún lætur aðalsöguhetjuna smám saman finna sína eigin rödd. Þegar sagan hefst er Stephen smákrakki sem segir nærri ekki neitt en hlustar á allt í kringum sig, er stöðugt ávarpaður og mótaður af umhverfinu. Við miðbik bókarinnar er Stephen aðeins eldri og byrjaður að svara, rökræða, andmæla og efast um kaþólskuna, allt sem honum er kennt í skóla og þjóðernishyggjuna allt í kring. Undir lokin er Stephen kominn út í eintal, við fylgjumst með framvindunni ekki í gegnum samtöl við aðra heldur dagbókarfærslur. Í raun er bókin sjálfstæðisbarátta, jafnvel mætti lesa hana sem lofgjörð til einstaklingshyggju andspænis kollektívisma hvort sem hann felst í kaþólsku eða þjóðernishyggju.

Þegar ég las bókina í menntaskóla talaði hún virkilega til mín. Ég strögglaði meira með Ulysses, en hún er engu að síður ein af mínum uppáhaldsbókum einfaldlega af því að eftir þriggja mánaða þrjósku tókst mér að klára að lesa hana og ég er of stoltur til að sjá eftir því. Það mætti kalla þetta rökvilluna um sokkin kostnað, af því að ég hef eytt svona miklum tíma í bókina þá ætti ég að elska hana, alveg eins og stríð sem kostar ótrúlegar mannfórnir er alltaf réttlætanlegt. Yfirleitt er það þannig að því fleiri sem deyja því mikilvægara þykir stríðið. (Ég þurfti að leita uppi og spyrjast fyrir um hvernig ég ætti að þýða sunken cost fallacy, verð ég að játa).

Ég hef hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að líf mitt er of stutt fyrir vöku Finnegans.

Stephen Dedalus, söguhetjan í bæði Æskumyndinni og Ulysses er að reyna að öðlast sjálfsmynd á tíma þegar Írland er að berjast fyrir sjálfstæði. Líkt og á Íslandi spilar tungumálið þar stóra rullu, en ekki jafnmikla og trúin eða sagan. Í íslensku sjálfstæðisbaráttunni skiptir trúin litlu, einungis örfáum sérvitringum eins og Halldór Laxness datt í hug að endurvekja kaþólskuna sem Danir rændu af okkur, flestir voru sáttir við trú undirokaranna. En tungumál hreinsað af dönskum áhrifum var mikilvægt, og sagan, narratívið um kúgara og hina kúguðu er svo til hið sama fyrir Íslendinga og Íra. Danir fóru að vísar aldrei jafn illa með okkur og Bretar fóru með Íra, svo það sé sagt, en orðræðan var mikið til sú sama.

Stephen ræðir við félaga sína um endurvakningu írska tungumálsins, sú hugmynd nær ekki að heilla hann, frekar en höfundinn sem skrifar á ensku. Engu að síður upplifir Stephen sig sem útlending, sem eigi ekkert í tungumálinu sem hann talar. M.ö.o. á því tungumáli sem hann hefur alist upp í og lært að tjá sig á er hann ekki á heimavelli. Nokkrir Íslendingar á tímum sjálfstæðisbaráttunnar lentu eflaust í svipuðu dilemma, þau skáld sem enduðu á að skrifa á dönsku og ensku voru með nagandi samviskubit, þó ákvörðunin væri einkar skynsöm fyrir þau í efnahagslegum skilningi. (Og kannski líka intellektúal skilningi, í stærra tungumáli á maður í stærra samtali).

Ef samtalið í Æskumyndinni milli deildarstjórans og námsmannsins byggir á raunverulegum atburð þá er þetta mjög kaldhæðnislegt í ljósi þess að deildarstjórinn í skólanum sem Joyce fór í er löngu gleymdur en James Joyce er einn af merkari enskumælandi höfundum 20. aldarinnar. Tök hans á enskri tungu eru því ekki vandamálið, heldur hugmyndir hans um tungumálið. Hann hálfpartinn skammast sín fyrir að skrifa ekki á írsku.

Það var ekki beinlínis þörf á því að endurvekja íslenska tungu í sjálfstæðisbaráttunni. Vissulega eru til hugmyndir um gullaldaríslensku og málhreinsistefnan lifir jafnvel fínu lífi í dag. (Þó að mínu mati séu málvöndunarpostular fokking fábjánar sem geri tungumálinu meira ógagn heldur en gagn). Íslenska tungan leikur engu að síður lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttunni, og jafnvel enn þann dag í dag skiptir hún höfuðmáli í að skilgreina hvað telst og telst ekki Íslendingur.

Íslenskan ólíkt enskunni er einstaklega fábreytt tunga. Það er varla hægt að tala um mállýskur, örfáir hreimar og í stað þess að leika sér með frávik eru þau yfirleitt skilgreind sem sjúkdómar. Tökum sem dæmi þágufallssýkina blessuðu. Í grein sinni í Skírni 1979, vont mál og vond málfræði, færir Gísli Pálsson ágætis rök fyrir því að hún sé stéttbundin og fyrirlitning á henni ákveðin tegund af snobbi. Íronískt nokk er málhreinsistefnan sterkari á vinstri kantinum en þeim hægri, og eftir því lengra til vinstri sem viðkomandi er, því líklegra er að hann/hún sé íslenskufræðingur með megna fyrirlitningu á þeim sem ekki tala gott mál.

En auðvitað eru hægrimenn á Íslandi ekki með neina eiginlega menningarvitund og hafa fyrir löngu sagt sig úr allri menningarumræðu svo það þjónar litlum tilgangi að velta því fyrir sér.

Við Stephen Dedalus deilum þeirri upplifun að finnast móðurmál okkar framandi, en af ólíkum ástæðum. Málhreinsistefnan og hugmyndin um góða íslensku hefur grafið undan öryggi þeirra sem eiga þetta mál að móðurmáli. Við erum mörg sem einhvern veginn grunar að allt sem við segjum sé svo ensku skotið að það hljóti eiginlega að vera þýðing á einhverjum frasa sem við heyrðum upprunalega á ensku, frekar en eiginleg alíslensk hugsun. (Ef slíka hugsun er hægt að eiga).

Nú á þeirri stundu sem ég skrifa er nærri öll menningarneysla Íslendinga á ensku. Við erum fyrir löngu orðin ameríkanar, eða a.m.k. Bretar í einhverjum skilningi, hvort sem það kemur að húmor, pólitík eða jafnvel siðprýði. Hefðu Íslendingar árið 1980 botnað eitthvað í #FreeTheNipple? Þótti það ekki bara í góðu lagi? Hvað skýrir þá hugarfarsbreytingu annað en það að í raun fer öll menningarumræða á Íslandi fram á tungumáli sem mótað hefur verið af púritönum á 16. öld? Þegar ég skrifa menningarumræða er ég ekki að segja að við eigum í samtölum okkar á milli á ensku, heldur að þær umræður sem eiga sér stað og móta hugmyndir okkar fara fram á ensku. Það ætti að teljast óumdeilanleg fullyrðing.

Pólitíkin hefur auðvitað færst þangað líka. Þegar sjálfstæðismenn leita að innblæstri kíkja þeir á landsfund repúblikana, ekki kristilegra íhaldsmanna í Þýskalandi. Öll pólitísk hugmyndafræði utanríkisráðherra okkar er mótuð af skoðanapistlum í Dailymail. (Hlakka til að sjá hann skamma Breta fyrir hrunið eins og flokksbræður hans krefjast).

Þetta gildir líka um vinstrið og miðjuna. Youtube skiptir talsvert meira máli fyrir framtíð hugmyndafræði allra stjórnmálaafla á Íslandi heldur en Silfur Egils eða Vikulokin. (Og nei það er ekki vegna þess hversu margir fylgjast með Láru Hönnu, heldur vegna þess að kanadískir sálfræðiprófessorar, bandarískir málfræðingar og ýmsar minniháttar Youtubestjörnur eru þau sem raunverulega hvísla í eyru fólks, ekki íslenskir álitsgjafar).

Sem er bara gott og eðlilegt. Það er takmarkað hversu mikið 300 þúsund manna málsvæði hefur upp á að bjóða þegar kemur að umræðu.

Mín eigin menningarneysla hefur gert það að verkum að mér finnst íslenskan oft framandi. Eins og hún tilheyri ekki mér. Það er ekki endilega af því ég hafi svo mikið meiri tök á ensku, en eins og mjög margir jafnaldrar mínir stend ég mig oft að því að hugsa á ensku og eiga auðveldara með að muna hin ýmsu orð á ensku.

Þetta hef ég reynt að bæta upp fyrir með lestri á frönsku og stöku sinnum japönsku. Við skulum orða það þannig að framboðið hérlendis er ekki beinlínis thoughtprovoking.

En nú er ég reyndar farinn að stríða þér kæri lesandi. Er ég ekki að ýkja þetta pínulítið? Við skulum ekki breyta þessu í enn einn örvæntingarfulla blogg-pistilinn um dauða íslenskunnar.

Því jafnvel þótt íslenskan hafi verið mikilvæg í sjálfstæðisbaráttunni er hún ekki algjör forsenda þess að Ísland haldi áfram að vera samfélag. Hún er enn sem komið er verkfæri sem er gagnlegt og leikfang sem er skemmtilegt, og hættir sennilega seint að vera hið síðarnefnda.

En rétt eins og kaþólskan er ekki lengur forsenda þess að Írland sé sjálfstætt ríki (því trú þar eins og annars staðar í heiminum fer hratt þverrandi), þá er íslenska ekki forsenda þess að einangrað eyríki sé sjálfráða. Jón Sigurðsson setti fram þau rök að það sé betra að fólk fái að ráða nærumhverfi sínu því það hafi betri skilning á þörfum sínum heldur en fjarlægir embættismenn langt í burtu. Það er ennþá satt í dag og sennilega mun valddreifing bara aukast á 21. öldinni.

Ísland getur s.s. alveg verið ríki og Íslendingar þjóð hvernig sem tungumálið þróast (sem ég vona að lifi 21.öldina af samt). 

Hugmyndin um íslensku tunguna lifir sérlega góðu lífi auðvitað hjá þjóðernissinnunum og íhaldssamri stjórnsýslu. Þegar menntamálaráðherra leggur til að fjölmiðlar verði styrktir þá eru rök hennar fyrst og fremst sú að það sé mikilvægt fyrir tungumálið, ekki gagnrýna umræðu. Sem er skondið, því eflaust eru blöð eins og Grapevine og hugsanleg önnur blöð ætluð innflytjendum sem gætu komið út í framtíðinni mun líklegri til að stinga á kýli og innihalda óháða, gagnrýna umræðu.

En þurfum við ekki eins og Stephen Dedalus gerir í æskumyndinni (og þar með Joyce) að viðurkenna að við finnum fyrir ákveðnum framandleika og angurværð þegar við tjáum okkur á hinu ástkæra, ylhýra tungumáli? Ég get allavega játað það. Mér finnst ég sjaldan lesa eða heyra ný rök eða hugmyndir á þessu tungumáli. Það er tímanna tákn að nærri öll þjóðfélagsumræða sé kominn inn á vettvang sem rekinn er af bandarísku stórfyrirtæki, sem sogar ekki bara til sín auglýsingatekjur frá innlendum vettvöngum heldur, (og það er mikilvægara) mótar íslenska umræðumenningu til frambúðar.

Fyrir mér er tungan sem ég skrifa á oft á tíðum hatrammur andstæðingur frekar en vinur.  Ég hef hvorki búið til orð hennar né samþykkt þau. En óneitanlega eiga þau þátt í að búa mig til. Líkt og Stephen Dedalus er ég óöruggur með málið þegar ég rökræði eitthvað við eldri kynslóðina. Þetta mál tilheyrir svo sannarlega „hinni eldri kynslóð“, og hún mun sennilega taka eign sína með sér í gröfina, í fleiri en einum skilningi. Við munum halda áfram að nota tunguna, en hún verður aldrei okkar, við eigum ekki tilkall til annars en þágufallssjúkrar, enskuskotinnar, blaðabarna, feisbúkkvæddrar, afbrigðilegrar tungu sem einungis hálf hugsun verður hugsuð á.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Fendibelti fyrir fermingarpeningana
1

Fendibelti fyrir fermingarpeningana

·
Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor
2

Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor

·
Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði
3

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra
4

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·
Björn Ingi með há laun þrátt fyrir fjárhagsvanda
5

Björn Ingi með há laun þrátt fyrir fjárhagsvanda

·
Sá tekjuhæsti á Vestfjörðum með 1,2 milljarða
6

Sá tekjuhæsti á Vestfjörðum með 1,2 milljarða

·
Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum
7

Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum

·

Mest deilt

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði
1

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn
2

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn

·
Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum
3

Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra
4

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·
Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins
5

Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins

·
Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor
6

Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor

·

Mest deilt

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði
1

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn
2

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn

·
Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum
3

Vill að opinberir starfsmenn verði látnir kaupa hádegismat af einkaaðilum

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra
4

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·
Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins
5

Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins

·
Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor
6

Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor

·

Mest lesið í vikunni

Fendibelti fyrir fermingarpeningana
1

Fendibelti fyrir fermingarpeningana

·
Öryggið verður ekki metið til fjár
2

Öryggið verður ekki metið til fjár

·
Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor
3

Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor

·
Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði
4

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·
Segir Svein Andra blóðmjólka þrotabú
5

Segir Svein Andra blóðmjólka þrotabú

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra
6

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·

Mest lesið í vikunni

Fendibelti fyrir fermingarpeningana
1

Fendibelti fyrir fermingarpeningana

·
Öryggið verður ekki metið til fjár
2

Öryggið verður ekki metið til fjár

·
Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor
3

Seldu nær heila götu og fengu 2,2 milljarða hvor

·
Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði
4

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·
Segir Svein Andra blóðmjólka þrotabú
5

Segir Svein Andra blóðmjólka þrotabú

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra
6

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·

Nýtt á Stundinni

Seðlabankastjóri segir peningahagfræði svipaða guðfræði og mikilvægt að treysta bönkunum

Seðlabankastjóri segir peningahagfræði svipaða guðfræði og mikilvægt að treysta bönkunum

·
Nýr seðlabankastjóri mættur og gefur vísbendingar um næstu skref

Nýr seðlabankastjóri mættur og gefur vísbendingar um næstu skref

·
Björn Ingi óánægður með að fjallað sé um fjármál sín

Björn Ingi óánægður með að fjallað sé um fjármál sín

·
Kaupþingsmenn meðal þeirra tekjuhæstu á Seltjarnarnesi

Kaupþingsmenn meðal þeirra tekjuhæstu á Seltjarnarnesi

·
Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins

Vilja grænkerafæði í alla skóla í þágu loftslagsins

·
Illugi ekki með 14 milljónir á mánuði

Illugi ekki með 14 milljónir á mánuði

·
Sá tekjuhæsti á Vestfjörðum með 1,2 milljarða

Sá tekjuhæsti á Vestfjörðum með 1,2 milljarða

·
Nokkrir áratugir aftur í tímann

Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

Nokkrir áratugir aftur í tímann

·
Fleiri hælisleitendur frá Venesúela

Fleiri hælisleitendur frá Venesúela

·
Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja græddu hundruð milljóna í fyrra

·
Björn Ingi með há laun þrátt fyrir fjárhagsvanda

Björn Ingi með há laun þrátt fyrir fjárhagsvanda

·
Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

Davíð Oddsson með 5,3 milljónir á mánuði

·