Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Veislan ósýnilega

 

Íslendingar með meira en eina milljón í mánaðarlegar tekjur telja Ísland vera á réttri leið. Íslendingar með minna en eina milljón í mánaðarlegur tekjur telja Ísland hins vegar vera á rangri braut. Það sýnir ný skoðanakönnun MMR, sem vekur ágætis spurning: Hvor hópurinn er geðveikur og undir hughrifum? Meirihluti Íslendinga er í fyrrnefnda hópinum, eins og dræmur stuðningur við núverandi ríkisstjórn sýnir en það er ekki þar með sagt að það sé ekki veisla. Hún er bara ósýnileg fyrir flestum. (Eða, þú veist, falin með aflandsfélögum).

Það er samt eitthvað magnað við að einungis 1% Íslendinga sé verulega ánægt með ríkisstjórnarsáttmálann. The one percent, kynni einhver að segja. (Æ, þú veist einhver popúlisti). Meirihluti Íslendinga telur Ísland á rangri braut.

Margt í veröldinni er afstætt, en við ættum þó að geta verið sammála um að börn eigi ekki að sofna svöng, ungt fólk eigi að geta fundið sér húsnæði og að háskólar og sjúkrahús mygli ekki. Hvernig við sjáum þennan raunveruleika, hvort við sjáum mygluna og finnum fyrir henni, eða förum bara á klíník Ásdísar Höllu, virðist skerast einhvers staðar upp úr þessari milljón mánaðarlega. Á einhverjum tekjupunkti virðist fólki hætta að finnast svöng börn skipta höfuðmáli og fer að pirra sig á því að eitthvað fólk á kommentakerfum sé með derring og leiðindi. Þannig getur skýrsla hjálparsamtaka um að börn sofni svöng annað hvort vakið samúð þína eða fengið þig til að hafa áhyggjur af hvernig það hefur áhrif á húsnæðisverðið í hverfinu þínu. Einn borgarfulltrúi sem vakti athygli fyrir skörunglega baráttu sína gegn minnihlutahóp hafði mestar áhyggjur af því síðarnefnda, en það er kannski skiljanlegt. Fjárhagsstaðan getur varla verið svo góð hjá manneskju sem átti tvö aflandsfélög en hafði ekkert hagræði af þeim.

Eitt af því sem er til marks um hve vitlaust er gefið í íslensku samfélagi er skattkerfið. Við látum fyrirtæki borga minna og almenning borga meira en í öðrum löndum, meðal annars með því að velta meiru yfir í virðisaukaskattskerfið. Með því hækkum við verðið á vörunum út í búð, og leyfum stjórnum fyrirtækja að greiða sér meiri arð. Á Bretlandi hins vegar eru áherslurnar örlítið aðrar. Þar er barnamatur, barnaföt, bækur og lyf skattfrjáls, og heilbrigðiskerfið samt ókeypis. Það hljómar undarlega, en meikar sens þegar maður áttar sig á því að meira að segja Margrét Thatcher var minna kaldlynd heldur en Bjarni Ben.

Virðisaukaskatturinn er einmitt gott dæmi um kolranga áherslu. Með því að hækka skatt á matvæli gerum við fátækara fólki erfiðara að kaupa góðan og hollan mat handa sér og börnum sínum. Þeim munar um krónurnar, en það er auðvitað ekki skrítið að maður skynji það ekki handan við milljónina. Með því að hækka skatta á bækur gerum við bækur dýrari og drögum úr lestri. (Á Norðurlöndunum eru bækur án virðisaukaskatts líkt og í Bretlandi, og þó er bókamarkaðurinn þar mun stærri en hérlendis).

Svo er líka siðferðislega vafasamt að hækka neysluskatt meðan við höfum verðtryggð lán. (Smá útskýring handa fólki með yfir milljón mánaðarlega: Verðtryggð lán eru lán sem fólk tekur tilneytt þegar það hefur um fátt annað að ræða, en höfuðstóllinn á þeim hækkar þegar verð út í búð hækkar. T.d. um daginn þegar Alþingi hækkaði tóbaks og áfengisgjöld aftur þá hafði það áhrif á ekki bara sígaretturnar í sjoppunni, heldur höfuðstól verðtryggðra lána).

Það væri ekki vitlaust að gera barnamat, bækur og lyf laus við virðisaukaskattinn. Það myndi bæta líf fólks verulega, án mikils kostnaðar fyrir samfélagið. En einhver staðar verða peningarnir samt að koma frá. Hvaðan?

Einhver kynni að segja að vega og bílastæðagjöld séu málið. (Þ.e.a.s. einhverjir í hinum stórfenglega Viðreisnarflokki). Gallinn er sá að þau gjöld leggjast of jafnt á fólk óháð því hvort það keyri á Skoda eða Range Rover. Er hægt að kalla það sanngjarnt að rukka fjölskyldufólk sem flutti úr borginni af því það fann ekki húsnæði en þarf samt að keyra langa leið á hverjum degi í vinnuna í Reykjavík, það sama og fólkið á leið úr borginni í laxveiði? (Laxveiðin er merkilegt nokk undanþegin virðisaukaskatti, 0%).

Ég er auðvitað bara dæmigerður meðlimur Me Me Me kynslóðarinnar og finnst að forstjóri Iceland Air ætti að greiða þetta. Hvað með sérstakan skatt á forstjóra sem segja heimskulega hluti í fjölmiðlum? Eða sérstakt gjald sem ráðherrar þyrftu að greiða í hvert sinn sem þeir eru staðnir að ósannindum? Það væri nú ekki vitlaus viðbót við upplýsinga og sannleiksskyldu frumvarp Pírata.*

Auðvitað er ósanngjarnt að velta skattbyrðinni yfir á forstjórana í jeppunum. En á móti geta þeir huggað sig við að barnabörnin þeirra borði meira og lesi meira. Það er eflaust einhver huggun.

E.S.
Tekjur Me Me Me kynslóðarinnar hafa dregist verulega saman, en tekjur forstjórakynslóðarinnar á sama tíma hækkað. Á meðan hefur leiga og húsnæðisverð haldið áfram að hækka.

 

 

 

 

 

 

*Kæru Píratar, þið eruð flest nýkomin á þing og báruð enga ábyrgð á því þegar kjararáð hækkaði laun þingmanna á kosningadegi um 300 þúsund mánaðarlega. Það setti alla þingmenn öðru megin við milljónina en flesta landsmenn og breytti veruleika ykkar. Það er erfitt að kjósa gegn hagsmunum sínum (þótt stór hluti landsmanna virðist gera það oft á tíðum), en ég vil biðja ykkur þó að leggja fram frumvarp til að leiðrétta laun þingmanna þannig að þau séu í takt við restina af samfélaginu.

Að því sögðu þá voru aðrar tillögur góðar. Að kjararáð starfi fyrir opnum tjöldum, að meðlimir þess séu ráðnir út frá faglegum forsendum er grundvallaratriði og það verður Bjartri Framtíð og Viðreisn til ævarandi skammar að hafa kosið gegn því. Flott hjá Jón Þór að leggja fram kæru á hendur kjararáði.

Frumvarpið getið þið lagt fyrir, samhliða eða eftir vantraust-tillögu. Yfirlýsing þingflokks um spillingu og blekkingar forsætisráðherra var mjög góð og skýr líka, það vantar bara herslumuninn.

Kveðja, leiðinlegi varaþingmaðurinn

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu