Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Upplýsingar vilja vera frjálsar

Upplýsingar vilja vera frjálsar

 

Upplýsingar vilja vera frjálsar. Þær eru forsenda þess að við getum bætt líf okkar og betrumbætt heiminn. Þess vegna verða upplýsingar ætíð að vera aðgengilegar.

Hvergi á þetta betur við en í heimi tækniþróunar, enda hafa hakkarar ætíð talað fyrir frelsinu til að deila, svo hægt sé að skapa skilvirkari, öruggari og fallegri kerfi. En þetta á ekki bara við í netheimum heldur alls staðar. Fátt er siðferðislega vafasamara en að leyna upplýsingum fyrir almenningi. Þannig takmarkast ekki aðeins möguleikar annarra til að bæta lífsgæði sín heldur staðnar allt samfélagið.

Eitt það fyrsta sem Donald Trump gerði í forsetaembættinu var að banna vísindamönnum og ríkisstofnunum að miðla upplýsingum. Hvorki Nasa né bandarískir þjóðgarðar höfðu leyfi til að tjá sig um gróðurhúsaáhrifin eða miðla öðrum upplýsingum sem varða almannahag. Ég þarf eflaust ekki að eyða mörgum orðum í að sannfæra ykkur um hversu rangt það er, enda augljóst að vísindaleg þekking, sér í lagi sú (en ekki einungis sú) sem aflað hefur verið með almannafé á erindi við okkur öll. Ekki síst þegar slík þekking varar við hættu í náinni framtíð. Ofhitnun jarðar kemur okkur við, alveg eins og blý í vatnsleiðslum eða þegar alþjóðleg fyrirtæki græða milljónir með aðgerðum sem valda okkur skaða. (Eins og t.d. með mengandi efnum sem valda krabbameini).

Upplýsingar eiga erindi við okkur öll.

Við þekkjum þetta því miður alltof vel á Íslandi. Á sama tíma og Trump lokaði á aðgengi almennings að vísindarannsóknum og allri faglegri gagnrýni á störf sinnar ríkisstjórnar komst upp um svipað misferli á Íslandi. Bjarni Benediktsson þáverandi fjármálaráðherra var staðinn að lygi. Hann hafði falið innihald tveggja skýrslna. Eina sem varðaði hvernig viðskiptamenn eins og hann höfðu skert lífsgæði almennings, og aðra sem varðaði hvernig stjórnmálamenn eins og hann höfðu skert lífsgæði almennings.

Fleiri dæmi eru á Íslandi um að ómögulegir pólitíkusar standi í vegi upplýsinga. Eftirlitsstofnanir bregðast í því að segja frá að einhver sé að græða, og að það sem hann græði á valdi okkur skaða.

Nýlegasta dæmið er United Silicon og vanmáttur umhverfisstofnunar gagnvart fyrirtæki sem ekki virðist vilja fara að lögum. Dæmin eru þó ótal mörg, því á síðustu árum hafa komið upp alls kyns neytendamál, kjötlausar kjötbökur, iðnaðarsalt í mat og aðrir feluleikir með losun eiturefna. Það eru grundvallar borgararéttindi að vita hvað maður borði, alveg eins og að geta treyst því að loftið sem maður andi sé ekki eitrað.

Þegar talað er um að eftirlitsstofnanir bregðist skyldum sínum er þó ekki alltaf réttlætanlegt að kenna starfsfólkinu um. Alveg eins og vísindamenn við NASA bera ekki ábyrgð á upplýsingabanni sínu. Stríð Bandaríkjaforseta við veruleikann er ekki um svo margt ólíkt stríði íslenskra stjórnmálamanna við neytendur. Ráðherrar hafa oft staðið í vegi fyrir aðgerðum. Það hafa svo verið hugrakkir starfsmenn sem leka upplýsingum til fjölmiðla þvert á vilja yfirmanna.

Þannig vitum við t.d. að brúnegg sem seld voru sem vistvæn, voru allt annað en einmitt það. Sigurður Ingi ber pólitíska ábyrgð á því að ekkert var gert. (Meira en bara pólitíska, skýrslurnar lágu á borði hans og hann leyfði ekki birtingu þeirra).

 

Fátt fer meira í taugarnar á ráðamönnum en upplýstur almenningur. Það eru gömul sannindi og ný.

Í grískum goðsögum er t.d. ein helsta hetjan Prómeþeifur sem kennir mannkyninu siðmenningu og bjargar því undan tortímingu. Hann kennir því að leika á guðina sjálfa með því að fórna til þeirra ólystugum matarbitum og halda mest nærandi hlutanum eftir handa sér sjálfu. Því eldri sem goðsögur eru, því eilífari virðist kjarni þeirra vera.

Prómeþeifur endar á því að reita Seif, konung guðanna til reiði. Með því að stela eldinum frá Ólympus og færa mannkyninu gerir hann því kleift að vaxa og dafna. Ætíð sjálfstæðara og minna óttaslegið gagnvart guðunum. En refsing Seifs er líka grimmileg.

Prómeþeifur endar hlekkjaður við klettavegg og ernir (eða kannski bláir fálkar) kroppa í lifur hans. Þar dvelur hann um aldur og ævi og nærir ránfuglinn. (Eða þar til Herakles kemur og leysir hann úr hlekkjunum).

 

Hverjar eru birtingarmyndir Prómeþeifs í nútímanum? Mér detta í hug nokkrar hetjur. Chelsea Manning er ein þeirra, sem ef Seifur leyfir verður frjáls eftir nokkra mánuði. Hún hefur þolað niðurlægingu og pyntingar, og lifði af tvær sjálfsmorðstilraunir. Annað augljóst dæmi er Edward Snowden, sem og Aaron Swartz. Aaron er hetja sem ekki hefur verið mjög áberandi í umræðunni á Íslandi en hann átti þátt í að þróa RSS, Reddit og CC (creative commons). Hann var aktívisti sem vissi að sífellt fleiri veggir væru að rísa sem hindruðu flæði upplýsinga og heftu sköpun.

 

Já, veggir rísa ekki aðeins á landamærum Ísraels og Palestínu, eða Mexíkó og Bandaríkjanna. Ósýnilegir veggir sem takmarka aðgengi fólks að upplýsingum og hefta frelsi okkar til að nýta þær til að skapa nytsamlega og fallega hluti, hafa risið og rísa um allt. Þvert á hagsmuni almennings.

Aaron braust inn á gagnabanka MIT (Massachussetts institute of Technology) og hafði í hyggju að opna aðgang almennings að honum. Ólíkt Manning ætlaði hann ekki að opinbera stríðsglæpi, heldur hleypa þekkingunni út þar sem hún á heima, svo hver sem er fengi að lesa og deila akademískum skrifum. (Sumum þeirra frá sextándu öld og þrátt fyrir það alveg jafn lokuð og óaðgengileg og þær allra nýjustu).

 

Ólíkt Chelsea Manning lifði hann ekki af meðferð réttarríkisins. Sjálfsmorðstilraunin tókst þegar refsing fram úr öllu hófi blasti við, en þar misstum við öll margt grunar mig.

Kjarninn í hinni gömlu goðsögu um Prómeþeif stendur þó enn, enda er hann einn af títönunum og hefur eilíft líf. Grikkir til forna vildu nefnilega meina að ástæða þess að Prómeþeifur væri hlekkjaður hafi ekki aðeins verið sú að Seifur vildi grimmilega hefnd. Í þríleik gríska harmleikjaskáldsins Æskýlosar um Prómeþeif kemur nefnilega fram að títaninn gæti lekið jafnvel enn hættulegri upplýsingum. Hann veit hvernig hægt er að koma Seifi frá völdum, leyndarmál sem móðir hans Þemis hvíslaði að honum og hafði sennilega fengið að heyra frá móður sinni, sjálfri Gaiu, móður jörð.

 

Nú er Bjarni Benediktsson enginn Seifur. Hann er í besta falli misheppnaður kaupsýslumaður sem kostað hefur íslenskt samfélag 86 milljarða í afskriftir og skuldar okkur því öllum töluvert meira en bara afsökunarbeiðni á ítrekuðum lygum.

Líkt og Donald Trump hefur hann staðið í vegi fyrir því að upplýsingar sem varða almannaheill rati til almennings. Hann vill ekki að þú vitir að leiðréttingin kostaði kröfuhafa bankanna ekkert, en dró úr lífsgæðum ungs fólks. Hann vill ekki að þú vitir að aflandsfélögin sem hann og aðrir óheiðarlegir kaupsýslumenn nýta sér til að fela upplýsingar fyrir almenning, eru ástæða þess að heilbrigðisþjónustan er ekki gjaldfrjáls, að vegakerfið er í molum, menntakerfið laskað og húsnæðisverð alltof hátt, og að honum sé skítsama.

Þess vegna er Bjarna í nöp við nýtt frumvarp Pírata um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Í siðuðum þjóðfélögum er tekið á spillingu. Fyrir nokkrum dögum sagði dómsmálaráðherra Hollands t.d. af sér fyrir að leyna upplýsingum. (Fyrir fimmtán árum síðan!)

Upplýsingar þessar vörðuðu þó ekki almannaheill eins og skýrslurnar sem Bjarni faldi. Það var bara prinsippið um að maður leyni ekki almenning því sem hann á að vita.

Aflandseyjabraskið hefur áhrif á okkur öll. Lífsgæði okkar eru lakari vegna manna á borð við Bjarna. Heilsufar verra, menntunarstig lægra, fleiri holur á vegunum af því sumir vilja kaupa íbúðir í Dubai án þess að aðrir viti. Veislan er flott upp á Ólympus og þeir sem kvarta undan því að þurfa að fórna goðunum of miklu eru bara geðbiluð. Öll vandamál eru aðeins hughrif.

Aðgengi almennings að upplýsingum er grundvöllur þess að lýðræði virki. Þeir sem standa gegn því eru andstæðingar, ekki bara upplýsingar, heldur lýðræðis og almennings. Rökin fyrir því að lýsa yfir vantrausti á Bjarna eru nokkuð sterk og ég mæli með því að Píratar og aðrir stjórnarandstöðuflokkar geri það næsta mál á dagskrá. Alveg eins og ég myndi mæla með slíku vantrausti á alla aðra pólitíkusa sem gera sig seka um að halda upplýsingum frá okkur hinum.

Donald Trump er víða.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu