Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trump vann ekki, lýðræðið tapaði

Í annað sinn á þessari öld vinna Demókratar meirihluta atkvæða en tapa kosningum. Enda kerfi hannað af 18. aldar landeigendum til að minnka vægi borga. En það tengist líka alveg kyni. Hillary með pung hefði unnið og nei, þetta er ekki myndlíking. Hún tapaði líka af því fólk var reitt og þreytt á pólitík. Og líka af því Demókrötum skortir pung (myndlíking).

Demókratar voru ekki nógu popúlískir og ekki að gera nógu mikið út á þá skiljanlegu reiði og gremju sem bandarískir kjósendur upplifa. Misskipting hefur aukist þar og á heimsvísu. Það meikar ekki sens að hjón verði forsetar, ekki frekar en feðgar eða bræður. Michael Moore hefur alveg rétt fyrir sér með múrsteininn sem fólk vildi kasta inn um glugga stjórnmálaelítunnar. Allir þessir álitsgjafar sem eftir-á-skýra um forréttindafólkið, lögfræði-stjórnmálafræði elítuna sem allir eru þreyttir á og lítil tengsl gömlu sósíaldemókratísku flokkana við rætur sínar í verkalýðshreyfingu, já þeir hafa alveg rétt fyrir sér. Við vitum að það er ekki pláss fyrir reiða vörubílsstjóra í Samfylkingunni eða VG, og við flissum þegar þeir leika í ópródúseraðri auglýsingu fyrir Dögun, af því allir vita að maður á að greiða auglýsingastofum stórfé fyrir að sviðsetja barna-afmæli ef maður vill láta taka sig alvarlega í pólitík.

En, sjitt, ef þessi steinn endar á því að tæta í sundur samkomulagið sem Íran og Bandaríkin hafa gert um kjarnorkuleysi. Þá er það frekar sturlað múrsteinskast. Því það er ekki djók ef Íranar byrja aftur að vinna að kjarnorkuvæðingu af því Bandaríkin standa ekki við sinn enda sáttmálans, og Trump bregst við með því að varpa sprengjum á landið. Nógu slæmt er Írak og Sýrland.

Fyrir utan að nú verða milljónir Bandaríkjamanna án sjúkratrygginga. Fyrir utan hreinsanir innan embættiskerfisins, íhaldsamari og kristilegri hæstarétt, og allt hitt kjaftæðið.

Eina sem ég ætlaði að nefna var hvað þetta er fáránlegt kosningakerfi í Bandaríkjunum. Enn einu sinni hefur bandarískt dreifbýli kosið yfir okkur hin (heiminn) vitlausari og verri forseta. Fyrst kaus meirihluti Bandaríkjamanna Al Gore, hálf milljón fleiri atkvæði, og hann vann meira að segja Flórída ef það hefði verið talið almennilega. En nei ... við fengum í staðinn kjána sem talaði um að hann ætlaði sér að draga úr íhlutun BNA á alþjóðavísu (en endaði á því að ráðast inn í Írak).

Nú kaus meirihluta Bandaríkjamanna, 60 milljónir og hundrað þúsund manns Hillary, og 59 milljónir og 800 þúsund Trump. Af því atkvæði skipta meira máli í Kentucky heldur en Kalíforníu, í kerfi sem hannað var af stétt ríkra landeigenda við lok 18. aldar. Sem hönnuðu það sérstaklega til að tryggja að plebbarnir í borgunum ættu ekki að fá að ráða hver yrði forseti. Alveg eins og framsóknarmenn hönnuðu íslenska kosningakerfið til þess að framsóknaratkvæði hefðu meira að segja.

Það munaði 10 þúsund atkvæðum í Michigan. Fjögur og hálf milljón greidd atkvæði og bara 10 þúsund sem munar á milli, þar hefðu 16 kjörmenn farið af Trump. Ef einungis 30 þúsund fleiri hefðu kosið Hillary í Wisconsin þá væri Trump með 10 færri kjörmenn. Ef 60 þúsund fleiri í Pennsylvaníu hefðu kosið Hillary væri hún verðandi forseti og Trump bara djók. Spáið í því ... í þessum kosningum kusu rúmlega 120 milljón manns og það munar ekki meiru en svo að þetta rúmast algjörlega innan Íslands tölfræðilega. Já, Hillary með pung hefði unnið, því að minnsta kosti 60 þúsund íbúar Pennsylvaníu eru karlrembur. Að minnsta kosti. (Að því sögðu má vel vera að hún hefði fengið 60 þúsund fleiri atkvæði ef hún hefði sleppt einni Goldman-Sachs ræðu og ekki notað sömu skattaskjóls addressu og Trump í Delaware, en pungur hefði líka dugað).

Allavega. Ef ég væri Bandaríkjamaður, pung-eða punglaus, væri ég núna að berjast fyrir stjórnarskrárbreytingum. Eitt atkvæði á að vera eitt atkvæði. Ef Al Gore hefði orðið forseti hefði kannski aldrei verið innrás í Írak og ... hver veit hvað það er sem við segjum eftir fjögur ár.

Því ekki vanmeta Trump. Þau sem segja okkur að þetta einræðisherra-wannabe nái ekki að umturna neinu, er sama fólkið og sagði okkur að hann yrði aldrei kosinn. Bush náði að leyfa pyntingar, stofna fangelsi utan dóms og laga, og setja upp gagnabanka sem skrásetur nærri alla netumferð í heiminum þannig að bandarísk leyniþjónusta geti njósnað um okkur öll. Völd Bandaríkjaforseta hafa verið að aukast ískyggilega mikið síðan Roosevelt tók við völdum, Obama gat tekið bandaríska ríkisborgara af lífi án dóms og laga bara af því þeir voru staddir í Jemen. Nóbels-friðarverðlaunahafinn bombaði ótal byggðir og myrti ótal sakleysingja bara af því einhver í nágrenninu var með rangan gemsa á sér. Og þau sem hafa komið upp um mannréttindabrot og fjöldamorð eru annað hvort á flótta eða föst í einangrunarvist eftir pyntingar og sjálfsmorðstilraunir.

Sjáum hvað þessi pabbastrákur nær að gera. Trump er kannski djók, en þetta er ekkert grín.

E.S.
Íslenska kosningakerfið er líka djók og hefur fært okkur glataðar ríkisstjórnir í gegnum tíðina þrátt fyrir að meirihluti Íslendinga hafi kosið annað.

E.E.S.

Já, ég veit að það var engin þörf á enn einni greiningunni. En þetta er samt tremendously góð greining.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni