Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Trompað lýðskrum Sjálfstæðisflokksins

Trompað lýðskrum Sjálfstæðisflokksins

Völd eru ávanabindandi, rannsóknir benda jafnvel til að þau hafa svipuð áhrif á heilann og fíkniefni. Þegar maður hefur haft völd lengi sýnir reynslan að fólk verður einungis kræfara og óforskammaðra í viðleitni sinni til að halda þeim. Einn afmarkaður hópur fólks í íslensku samfélagi er einmitt kominn á þennan stað og löng valdaseta hans hefur mögulega haft einhver áhrif á taugaboðin í heilanum og hvernig hann upplifir tilhugsunina um að missa völdin. Tilhugsunin er eflaust kvíðavaldandi.

Hvað gera menn í svona stöðu? Hvað gera menn í örvæntingu?

Þeir lofa. Oft lofa þeir bara einhverju alveg óháð því hver stefnan hefur verið hingað til.

Þetta ætti nú að hljóma vel í eyrum kjósenda sem eru að íhuga vinstrið þessa stundina. Og ég er reyndar ekki ósammála því að við þurfum að snúa okkur að uppbyggingu, það nægir að nefna Landspítalann og Listaháskólann, svo ekki sé nefnd samgönguáætlun til að komast upp í margra milljarða upphæðir.

Í þessu samhengi langar mig að nefna hvaða fjárhæðir var um deilt þegar fimm flokkar voru að reyna að mynda ríkisstjórn fyrir jól á síðasta ári. Allir voru sammála um einhverja aukningu en tölurnar voru á milli 10-30 milljarða sem komu upp. Þær hugmyndir sem VG hafði voru ekkert endilega óskynsamlegri heldur en þær fjárhæðir sem Viðreisn var til í að eyða, þær voru fjármagnaðar með skattahækkunum, enda um ábyrgan flokk að ræða sem leggur ekki fram ófjármagnaðar hugmyndir. Hvað olli því svo að slitnaði upp úr má svo velta fyrir sér, kannski getur Viðreisn ekki unnið með öðrum en Sjálfstæðisflokkinum og formannsembætti þar í raun bara ígildi varaformanns-embættis í móðurflokknum? Hin kenningin er sú að VG hafi ekki getað hugsað sér umbætur á kvótakerfinu. En það er liðin tíð, pælum frekar í hvað við getum gert í framtíðinni.

Varðandi þetta 100 milljarða loforði, hefur Sjálfstæðisflokkurinn metið hver áhrif yrðu á þenslu hagkerfisins eða verðbólgu? Ætlar hann að nefna hvaða innviðauppbyggingu er um að ræða? Eða er þessu bara slengt fram sem loforði í örvæntingu?

Síðan 2003 hefur stefna sjálfstæðismanna verið niðurskurður í heilbrigðismálum, með aukinni einkavæðingu og meiri kostnaði fyrir sjúklinga. Heilbrigðisráðherrar þeirra hafa talað um að auka kostnaðarmeðvitund líkt og fólk væri komið með krabbamein að gamni sínu. Það hefur verið sparað í tækja- og lyfjakaupum, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið lofað að setja heilbrigðismál í forgang.

Það er líka ekki hægt að vinna kosningar á Íslandi nema menn lofi að snúa þessari stefnu við, enda lofar sjálfstæðisflokkurinn þessu ítrekað. Núna er hann kominn á stjá, með slagorð breska verkamannaflokksins (For the many-Fyrir okkur öll) og lofar gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Flestir flokkar lofa þessu í einhverri mynd þó sumir tali reyndar um þetta sem langtímamarkmið, kannski af því þeir vilja ekki ljúga því að stórar kerfisbreytingar gerist á einu ári.

Nú vitum við að ekkert af þessum loforðum eru í fjárlögum næsta árs. Fyrst að það er ekki í spilunum í fjárlögum ársins 2018, ætlar Sjálfstæðisflokkurinn þá að setja 100 milljarða í innviðauppbyggingu á næsta ári samhliða því að hann gerir heilbrigðisþjónustu á Íslandi 100% ókeypis. Verður það fyrir eða eftir að við tökum upp námsstyrkjakerfi eins og í Danmörku?

Það er reyndar frábært að sjá stefnu Pírata tekna upp. Við höfum lengi talað fyrir að taka upp námsstyrki, fyrst viljum við þó byrja á því að greiða út námslán í byrjun annar til að spara pening fyrir nemendur sem annars myndu þurfa að fjármagna nám sitt með yfirdrætti eða bankaláni.

En nú er ég farinn að hafa smá áhyggjur, er ekki svolítið mikil innspýting í fjárlögum ársins 2019? (Af því það er ekki vottur af þessari stefnu í fjárlögum 2018). Verður námsstyrkjakerfið sett í gang samhliða því að heilbrigðisþjónustan verður gerð gjaldfrjáls, eða ætlum við fyrst að kýla á 100 milljarða innviða-uppbyggingu. Höfum í huga að afgangur fjárlaga er upp á 40 milljarði og væntanlega munum við ætla okkur að greiða afborganir af skuldum áfram? Ef við gerum ráð fyrir að þessir 40 milljarðir fari í innviðina þá hlýtur stefnan að vera 60 milljarða skattahækkanir. Eða hvað?

Nú er ég eiginlega alveg hættur að trúa þessu. Hvort munum við lækka skatta fyrir eða eftir að við tökum upp námsstyrkjakerfið, gerum heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa og setjum 100 milljarði í innviðauppbyggingu?

Djöfulsins snillingar samt. Það er náttúrulega mikil alvara að baki öllum þessum loforðum, annars hefði Sjálfstæðisflokkurinn aldrei raðað þessum myndum hlið við hlið inn á síðu sinni.

Að vísu ef maður er nógu lúmskur þá getur maður borgað Facebook fyrir að sýna sumum eina auglýsingu og öðrum ekki. Til dæmis væri hægt með örlitlu fjármagni að sýna nemendum við Háskóla Íslands auglýsingu sem gengur út á að taka námsstyrkjakerfi í þeirra fréttaveitu, og síðan gæti maður laumað skattalækkunar-auglýsingunni í fréttaveitu miðaldra viðskipta- og lögfræðinga. Þ.e.a.s. ef maður myndi leggjast svo lágt í örvæntingu sinni.

Á næstu dögum munum við sjálfsagt fá nákvæma útlistun frá sjálfstæðisflokkinum um hvernig fjárlögin árið 2019 munu uppfylla öll þessi loforð. Hver veit, kannski á Mexíkó eftir að borga fyrir þetta allt?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni