Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Tístað til lögreglunnar ( 1.hluti ?)

Tístað til lögreglunnar ( 1.hluti ?)

„Oftar en ekki fá mál hjá lögreglu farsælan endir þótt tvísýnt kunni að hafa verið um slíkt í upphafi,“hófst færsla hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu núna um daginn. Söguefnið var hrakfarir eldri konu sem týndi bíl og barni þegar hún gekk út vitlausu megin í verslunarmiðstöð og hringdi í lögregluna.

„Leitin stóð hins vegar stutt yfir því eftir rúmar 10 mínútur, eða svo, var búið að leysa málið. Það var konan sjálf sem fann bæði bíllinn og barnið og það á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar eftir allt saman. Bíllinn hafði ekki verið færður úr stað allan tímann, en eftir á skýringin á öllu saman lá í því að konan fór út úr verslunarmiðstöðinni á öðrum stað en hún kom inn. Þeim megin fann hún ekki bíllinn sinn og barnabarnið og því fór af stað sú atburðarás sem áður er lýst.“

Það væri gott ef öll mál lögreglunnar leystust með jafn farsælum hætti. Í Stundinni, DV og fleiri blöðum hefur undanfarið verið fjallað um mál lögreglumanns, sem er fyrrum formaður félags lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu, en hann var ákærður af þremur konum um kynferðisafbrot. Nýverið var hann á leið í útkall til eins þolandans, en móðir hennar tjáði sig um það í viðtali hjá Mannlíf:

„Það sem mér hefur þótt ólíðandi er að við höfum verið sett í þá stöðu að ef við þyrftum á aðstoð lögreglu að halda þá gætum við átt von á að maðurinn sem við kærðum fyrir að brjóta kynferðislega á dóttur minni kæmi á vettvang. Núna hefur sú martröð ræst. Ég spurði fyrir rælni hvað sá maður héti og þá kom í ljós að þetta var umræddur maður. Ég sagði að þessi maður væri alls ekki velkominn í mín hús og útskýrði ástæðuna fyrir lögreglunni. Eftir skraf og ráðagerðir var hann sendur heim og kallað eftir rannsóknarlögreglumanni úr Reykjavík, sem reyndist okkur afar vel. En eftir situr að hinn mætti á svæðið.“

Þetta varð kveikjan að umræðu inn á twitter. Lögreglan má eiga það að hún er dugleg að svara á samskiptamiðlum og getur jafnvel verið nokkuð skemmtileg þegar hún segir frá skondnum atvikum úr einstaka málum. Umræðan hófst með þeim hætti að ég rifjaði upp druslugönguna í fyrra þar sem #HöfumHátt var í hámæli. Á þeim tíma tístaði ég spurningu til Bjarna Ben án þess að gruna að hann tengdist málinu óbeint í gegnum föður sinn. Atburðarásin það sumar var hreint og beint ótrúleg, og leiddi til falls ríkisstjórnar, sem að vísu er ekki gríðarlegur söknuður í. En hér eru færslurnar.

Ég átti í sjálfu sér ekki von á því að lögreglan myndi svara og ég vil hrósa henni fyrir það, en svörunum finnst mér ábótavant.

Það er ágæt regla sem er nokkuð lauslega fylgd að lögregla ræði ekki málefni einstaklinga. Gamansama sagan um gömlu konuna sem villist og hringir á lögregluna til að biðja um aðstoð er vissulega ekki jafn alvarlegt mál og ákæra þriggja kvenna á fyrrum formann félags lögreglumanna, en á maður að trúa því að lögreglan hafi aldrei leitt hugann að því hvernig ætti að bregðast við ef maður innan þeirra raða er kærður fyrir alvarleg brot? Það er almenn skynsemi og góð stjórnsýsla að hafa verkferla sem passa upp á að embættismenn komi ekki að málum sem tengjast skyldmennum eða aðilum tengdum þeim. Svo er líka gott að rekja ekki tiltekin mál á opnum vef, óháð alvarleika þeirra.

Vonandi svarar lögreglan mér á endanum aftur. Ég hef skilning á því að svör hafi ekki borist á sunnudegi, en fyrst að samtalið er hafið væri ágætt ef því lyki með viðunandi svörum um hvernig verkferla lögreglan notast við í svona málum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni