Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Svarti galdur lifir enn

Íslensk galdratrú er mjög skemmtileg og hefur verið innblástur í alls kyns verk, líka á 21. öldinni. M.a. í skáldsögunum Hrímland og Víghólum (sem ég hef áður ritað dóm um).

Skiljanlega vekur hún líka áhuga ferðamanna. Á landnámssetrinu í Borgarnesi hefur verið sýnd sýningin „Black Magic“ leikin af Geir Konráð Theodórssyni við ágætar undirtektir, en nú hefur hann snarað verkinu yfir á íslensku og flytur sögu gráskinnu á söguloftinu. Ég veit ekki hvað er líkt og ólíkt með Svarta Galdri og Black Magic, en veit að Svarti Galdur er lengra verk og heppnast prýðilega.

Í stuttu máli sagt rekur Geir sögu Gráskinnu, galdrahandritsins sem Sæmundur Fróði rænir frá kölska og veldur síðan miklum vandræðum í gegnum Íslandssöguna. Þarna koma kunnuglegar persónur við, Galdraloftur, Gottskálk grimmi og Eiríkur hellismaður. Geir tengir allar sögupersónur vel saman þannig að úr verður heilsteypt frásögn flutt af einum sögumanni. Verkið er einleikur og fjölskyldusýning í tveimur merkingum, en  honum leikstýrt er af föður sínum Theodór og Eiríkur Þór bróðir Geirs annast uppsetninguna einnig. Sýningin hentar vel börnum sem hafa gaman af því að hræða sig í hófi og fullorðnum líka.

Helstu vankantar sýningarinnar felast í einhæfum flutningi. Sögumaðurinn mætti temja sér meiri blæbrigði þegar hann skiptir milli persóna, t.d. er ekki mikill munur á útlögum og kölska í hans útgáfu. Hann mætti líka dvelja lengur við sum augnablik, eins og þegar hann nýtir sér áhorfendur og innkomur. Ég fór að velta fyrir mér ýmsu varðandi leikstjórn, t.d. hvort búningurinn væri nauðsynlegur og hvort það mætti nýta hann betur. Það skýtur svolítið skökku við að segja frá því hvernig hann, leikarinn, „Geir“ upplifði sögurnar fyrst þegar hann heyrði þær frá ömmu sinni og svo vera klæddur eins og landnámsmaður.

Ég hef ekki stórar áhyggjur af þessum atriðum samt. Í íslenskum flutningi mun frásögnin slípast til, nú þegar er verkið vel þess virði að keyra úr Reykjavík til að líta á. Geir Konráð er líflegur sögumaður og á hrós skilið fyrir góða uppbyggingu í handritinu. Manni líður eins og maður sé á baðstofugólfi að hlýða á og sér söguna vel fyrir sér. Sagnfræðin er á köflum ekki alveg nákvæm, en kannski ansi nálægt því hvernig almenningur skilur hana. Sturlungaöldin er flókinn tími og skiljanlega einfaldaður, en smáatriði eins og nunnur eftir siðaskipti fóru eilítið í taugarnar á mér. Það er hægt að laga.

Vonandi heldur Geir áfram á sömu braut. Ekki væri vitlaust að gera fleiri sögusýningar upp úr þjóðsagna-arfinum fyrir Íslendinga, bæði fyrir börn og fullorðna. Feðgarnir eiga hrós skilið fyrir spennandi sýningu og frásagnargleði, sem óhætt er að mæla með fyrir fólk á öllum aldri.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu