Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú kjósir

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú kjósir

Þórólfur heitir maður Halldórsson. Sýslumaður.

Ferill hans er um margt athyglisverður. Hann sat í kjördæmisráði fyrir sjálfstæðisflokkinn á norðvesturlandi meðan hann gegndi embætti sýslumanns á Patreksfirði. Þá var hann kærður fyrir það að keyra um bæjinn með kjörkassa og safna í þau atkvæðum sjálfstæðismanna. Framkvæmd kosninga á Íslandi er um margt sérstök, en þetta var svona í sérstakara lagi. Illa innsiglaðir kassar sem brotna, og sem ekki eru tilhlýðilega merktir, eru ekki óalgengir, en að sýslumenn keyri um með kassa og safni atkvæðum frá samflokksmönnum sínum er sem betur fer ekki jafn algengt.

Enda var hann Þórólfur kærður.

Og stuttu síðar skipaði þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason hann sýslumann í Keflavík.

Og nokkru síðar skipaði annar dómsmálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Þórólf sýslumann á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið er að vísu full stórt fyrir einn sýslumann til að keyra um með kjörkassa, en sýslumenn geta beitt sér með öðru móti.

Þeir geta samþykkt lögbann á fjölmiðla. Síðan sem ég blogga á er í eigu þessa fjölmiðils, sem ekki getur birt gögn vegna lögbanns sem sýslumaðurinn setti á blaðið stuttu fyrir síðustu kosningar. Þá var nýbúið að myrða blaðakonuna Daphne Caruana Galizia með bílsprengju á Möltu, sennilega af því hún var að rannsaka valdamikla ætt á eyjunni sinni, Mizzi-ættina sem kom víða við í Panamaskjölunum og var með höfuð ættarinnar í forsætisráðherrastólnum.

Á Íslandi þarf ekki bílsprengjur. Sýslumenn sem búið er að skipa fyrir löngu setja bara lögbönn.

Og Þórólfur kemur ennþá að gagni fyrir flokkinn.

Hann kom í veg fyrir að Reykvíkingar geti kosið utankjörfundar í ráðhúsi Reykjavíkur. Hann ákvað það bara sísona.

Svona eins og honum væri treystandi til þess.

Hver trúir því að ákvörðun sýslumanns um að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari einvörðungu fram í Smáralind byggist á ást hans á lýðræðinu?

Hann er að vinna fyrir flokk sem hringir í fólk til að segja því að það megi ekki kjósa. Hann er að vinna fyrir flokk sem leggst gegn því að ungu fólki verði send áminningarskilaboð um að kosningar nálgist.

Hann er ekki að vinna fyrir okkur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni