Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Rauðan serk skal ég sníða þér

Jólabókaflóðið er hafið og í ár virðist smásagan ætla að koma óvenju sterk inn. Steinar Bragi er með stórt smásagnasafn „Allt fer“og Friðgeir Einarsson leiklistamaður er með frumraun sína „Takk fyrir að láta mig vita,“ sem hefur fengið lofsamlega dóma.

Ég er spenntur fyrir ýmsu, það eru alltaf góðar fréttir þegar Guðrún Eva og Andri Snær eru að gefa út bækur, en það vakti líka með mér gleði að sjá Einar Kára með framhald á Stormi. Bjargræði Hermanns Stefánssonar byggð á ævi Látrabjörgu þykir mér líka nokkuð lofandi, en hef ekkert af þessu lesið.

Furðusagan kemur sterk inn í flokki barna og unglingabóka eins og síðustu ár. Ragnheiður Eyjólfsdóttir sem vann íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Skuggasögu er með framhald á því, og sömuleiðis Hildur Knútsdóttir með framhald á Vetrarfríi, Vetrarhörkur.

Fyrsta bókin af nýútgefnum íslenskum furðusögum sem ég las í ár voru Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen. Sú bók er fyrsta bókin sem hann skrifar eftir að klára þríleikinn „sögu eftirlifenda.“ Líkt og fyrsta bókin í þeim þríleik mætti kalla Víghóla „urban fantasy“ sem er snúið að þýða á íslensku. (Borgaraleg furðusaga hljómar eins og fantasíubók þar sem álfar og tröll tala fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustu, en ekki furðusögu sem á sér stað í nútímalegu borgarlandslagi.) Í raun mætti þó segja að Víghólar séu glæpasaga með furðu-ívafi sem aukist eftir því sem líður á bókina.

Sögusvið Víghóla er Ísland, það er ekki sérlega frábrugðið því Íslandi sem við eigum að venjast og gegnumgangandi í bókinni eru ýmisleg hversdagsleg, félagsleg vandamál áberandi: forræðisdeilur, fátækt og kvíði.

Sagan segir nefnilega frá miðlinum Bergrúnu og dóttur hennar Brá, en samband þeirra er erfitt og ekki hjálpar til að Bergrún er frekar kærulaus og upptekin af hinu dulræna þrátt fyrir að græða ekki nóg af því til að lifa vel. Brá hins vegar er tvítug, þjáist af kvíða og er að flosna upp úr menntaskóla.

Inn í þetta félagsraunsæi blandast svo æsispennandi saga þar sem álfar, tröll og fleiri hulduverur koma inn í. Þegar Bergrún er fengin til að kanna mál fyrir vegagerðina sem í fyrstu virðist varða skemmdarverk á vinnuvélum vegna rasks á helgi huldubyggðar, blandast hún inn í morðmál sem virðist teygja anga sína aftur til seinni heimsstyrjaldar.

Persónur eru vel skrifaðar og sagan heldur dampi allan tímann. Það er mikil spenna og plottið þétt, eitthvað sem ætti jafnvel að höfða til þeirra sem lesa spennusögur og sjaldan fantasíur. Á köflum fannst mér bókin fara of geyst og sumar persónur skorta vantrú, það getur verið býsna erfitt fyrir nútímamanneskjur að samþykkja gagnrýnislaust að ýmsar furðuverur séu á kreiki. En komist maður yfir þann hjalla er um býsna skemmtilega og vel skrifaða bók að ræða, söguþráð með nokkrum áhugaverðum kollsteypum og óvæntri þróun. Emil nýtir sér vel þjóðsagna-arf Íslendinga og tengingin við hernámið í seinni heimsstyrjöld er vel nýtt.

Önnur furðusaga sem mig langar að mæla með er Skögla eftir Þorgrím Kára Snævarr. (Best að taka vel fram að ég las hana yfir á frumstigi).

Sú bók er áhugaverð frumraun, sem gerist í hinum níu heimum íslenskrar goðafræði (en þótt æsirnir og jötnarnir séu til staðar eru aðalsöguhetjurnar dvergurinn Nýráður og ættleid, mennsk stúlka hans Skögla). Bókin er fyndin og hugmyndarík, nettur Terry Pratchett fílingur í henni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni