Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Örninn, fálkinn og sólhvörfin

Það er ekki mikið í jólabókaflóðinu sem beinlínis kallar á sérstaka furðusagnarýni, en ég hef þó rekist á tvær bækur sem verðskulda meðmæli og sérstaka umfjöllun sem fulltrúar furðusagna þessi jól.

Sólhvörf
Framhaldið af Víghólum sem ég rýndi í fyrra er komið út. Víghólar var fjórða skáldsaga Emils Hjörvar Petersen sem hafði áður gefið út ljóðabækur og þríleikinn um framhald Ragnaraka. Bæði saga eftirlifenda og Víghólar eru að mörgu leyti brautryðjendaverk, urban fantasy, þar sem fantasíu element blandast inn í nútímalegt umhverfi hefur ekki verið mikið skrifað á íslensku, þó svo að sjálfsögðu sé slatti af alls kyns töfraraunsæi. Víghólar var skemmtileg blanda af félagslegu raunsæi, reyfara og epískri fantasíu þar sem álfar, galdramenn og ýmis konar þjóðsagnaverur komust fyrir. 

Sterkasta hlið Emils sem höfundar er sögu-uppbyggingin, Víghólar sýndu að hann hefur góð tök á reyfaraforminu en Sólhvörf er meira spennusaga heldur en eiginlegur reyfari. Sem slík er hún mjög vel heppnuð og grípandi, þó svo að í fyrstu hafði ég vonast eftir meiri ráðgátu. Líkt og í Víghólum segir frá miðlinum Bergrúnu og dóttur hennar Brá sem eru að aðstoða lögregluna við rannsókn morðmáls, en þegar í byrjun bókar er rannsóknin komin vel á veg og það má segja að við stígum beint inn í hasarinn. Heimssköpunin er góð og sama má segja um karaktersköpunina, maður gæti vel séð fyrir sér að þetta yrði langur bókaflokkur í anda Dresden Files eða álíka verka. (Það er talsvert léttara yfir bókum Emils heldur en Jim Butcher, en samlíkingin sprettur aðallega af því að þarna er hinu yfirnáttúrulega samtvinnað með glæpa- og spennusögum).

Einn helsti ókostur bókarinnar er að mínu mati of-skýringarnar sem persónur hafa tilhneigingu til að koma á framfæri til lesandans. Stundum er í lagi að maður átti sig ekki strax á hvers vegna eitt eða annað er eins og það er, en þetta er algeng freisting meðal allra furðusagnahöfunda og eitthvað sem ég hef sjálfur gert mig sekan um. Það getur verið truflandi fyrir framvinduna að útskýra allt of vel söguheiminn, en það getur virkað óeðlilega ef fólk útskýrir um of í hugsunum eða samtölum hvernig allt virkar. Það tefur þó framvinduna ekki of, bókin nær fljótt flugi og spennu, og heldur dampi allan tímann.

Ég verð spenntur fyrir að lesa framhaldið ef það kemur, og hafði mjög gaman af útfærslu hans á jólasveinasögunum sem kemur fyrir í bókinni. Það hefði getað vakið með manni kjánahroll, en gerði það ekki. Þvert á móti þótti manni þetta nokkuð snjallt. Og ég get ímyndað mér að þetta sé einstaklega skemmtileg lesning þegar jólapakkarnir hafa verið nýopnaðir.

Örninn og fálkinn

Nýjasta bók Vals Gunnarssonar fjallar um Ísland undir hernámi nasista. Bókin er hrollvekjandi trúverðug, en það sést vel að Valur hefur lagt í mikla rannsóknarvinnu og pælt í hverju smáatriði. Fyrir mér varð Reykjavík ársins 1940 afar sannfærandi, bæði í talanda persóna, lýsingum á umhverfinu og söguframvindunni.

Valur er ekki fyrsti höfundurinn til að velta fyrir sér „hvað ef“ möguleikum. Margir hafa eflaust séð „Man in the high castle“ þáttaröðina á Netflix sem byggir á samnefndri (en talsvert styttri) bók Philip K. Dick eða lesið Föðurland eftir Robert Harris. Þetta er þó ekki frásögn af sigurgöngu nasista, Valur er of mikill nörd til að leyfa sér slíka fantasíu því hann veit of vel að iðnaðarframleiðsla Bandaríkjamanna mun tryggja þeim sigur, jafnvel þó svo bandamenn missi Ísland tímabundið úr höndum sínum.

Bókin er afar vel skrifuð, bæði spennandi og upplýsandi, þó svo mér hafi þótt höfundi aðeins fatast flugið þegar söguþráðurinn barst upp á hálendi og útilegumannaslóðir. Þar fannst manni skáldsagan brjóta sínar eigin reglur og verða fullmikil fantasía. En það voru engu að síður ágætar pælingar sem hefðu passað vel inn í aðra bók.

Eitt það mest spennandi, eða kannski öllu heldur mest krassandi við bókina, er lýsingin á viðbrögðum stjórnmálamanna við hernáminu. Auðvitað eru þetta vangaveltur, en byggja líka á vandlega útpældri sagnfræði, það eru ekki jafnaðarmennirnir sem mynda náið samstarf með hernámsliðinu heldur íslenskir nasistar og sjálfstæðismenn. Valur talar einnig beint inn í umhverfisverndar-umræðu síðustu ára og áratuga með tilraunum Þjóðverja upp á hálendinu, innflutningi á erlendu vinnuafli til að byggja stríðsmannvirki sem á sama tíma efla íslenskan efnahag.

Ef sjálfstæðismenn læsu bækur væri hætt við að einhver kynni að móðgast, en það eru auðvitað nokkrir áratugir síðan sjálfstæðismenn sögðu sig úr menningarumræðu svo það eru litlar líkur á því að sögutúlkun Vals verði umdeild. Það er kannski ekki svo umdeilt heldur að menn eins og Björn Sv. Björnsson hafi verið nasistar, þeir voru það. En það væri gaman ef einhver tæki slaginn við Val, og velti vöngum hvort hann væri að fara of mjúkum höndum um suma Íslendinga og of harkalega með aðra.  Helstu hetjur Íslands í andófinu reynast svo skáld á borð við Þórberg Þórðarson og stjórnmálamenn eins og alþýðuflokksformaðurinn Stefán Jóhann Stefánsson, en hernámið fer ekki of vel með mörg skáldin.

 Örninn og fálkinn fær fullt hús stiga fyrir stíl, framvindu og rannsóknarvinnu, persónusköpun hefði mátt vera dýpri, en kemur þó ekki að sök. Bókin er bæði frumleg og spennandi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu