Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Lágmarkslaun 340 þúsund?

Kjararáð maður ... þvílík steik.

Hér eru tvær röksemdafærslur sem ég hef heyrt fyrir því að laun alþingismanna þurfi að hækka:

Ef launin eru of lág (í kringum 750 þúsund) koma eintómir meðaljónar til að vinna á þingi.

Hærri laun gera þingmenn fjárhagslega sjálfstæðari og draga úr spillingu.

Fá þessar fullyrðingar staðist? Ég veit það ekki alveg, en hef nokkrar spurningar á móti.

Laun finnskra þingmanna eru svipuð þeim sem íslenskir þingmenn höfðu eða í kringum 750 þúsundin. Laun sænskra þingmanna eru 800 þúsund, laun danskra þingmanna eru 880 þúsund. Eru þetta allt meðaljónar?

Laun norskra þingmanna eru þau hæstu í skandinavíu en þeir hafa um milljón íslenskar. Íslenskir þingmenn eru um 100 þúsund krónum launahærri en þeir. Heimild: nútíminn.

Guðni forseti fær rokkstig fyrir að hafna sinni launahækkun. Hann þarf svo sannarlega ekki á henni að halda. Hér er grein frá mars síðastliðnum áður en hann fór í framboð sem nefnir að forsetinn er 16 launahæsti „þjóðhöfðingi“ í heimi. (Ekki er, heldur var, með þessari launahækkun yrði forsetinn sennilega í topp tíu, vel fyrir ofan aðra þjóðarleiðtoga í Evrópu).

En gera hærri laun fólk minna spillt? Það er athyglisverð fullyrðing.

Launahæstu þingmenn Evrópu eru á Ítalíu. Ríkustu þingmenn Íslands eru Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson. Það var eiginlega bara ríkt fólk í Panamaskjölunum.

Rannsóknir sýna að sálfræðileg áhrif þess að eiga ógeðslega mikið af peningum leiðir til þess að manni finnst eins og engar reglur gildi um mann lengur. Vísindarannsóknir hafa sýnt að ríkt fólk er minna löghlýðið og líklegra til að svindla í spilum. (Takið líka bara eftir hvernig vissir bílar haga sér í umferðinni).

En það er líka eðlilegt að þeim líði þannig. Eigi maður nægan pening gilda reglurnar ekki lengur um mann sjálfan. Meirihluti fanga á Íslandi eru úr lágtekjuhópum og þjást af geðrænum vandamálum eins og t.d. fíkn. Enda er ekki flókið að finna út úr því hvernig eigi að refsa fyrir smáglæpi og allir sammála um að þar eigi að refsa af fullri hörku. Hvítflibbaglæpamenn fara á lúxushótelið Kvíabryggju tímabundið og síðan í þyrluflug með vinum sínum. Smákrimmar með ADHD og barnæsku þar sem þeir voru misnotaðir fara í einangrunarvist á Litla Hrauni.

Að lokum vil ég segja að rökstuðningur kjararáðs fyrir því að laun alþingismanna eigi að hækka af því laun dómara voru að hækka er býsna þunnur. Það var kjararáð sem hækkaði laun dómara, og meðlimir kjararáðs eru skipaðir af hæstarétt, Alþingi og fjármálaráðherra.

Hvernig stendur á því að það er alltaf hægt að hækka laun toppana í samfélaginu? Af hverju geta þeir á toppnum ekki beðið eftir því að laun annarra hækki, já, t.d. kennara, sem áður fyrr voru viðmiðið í launum alþingismanna? (Laun þeirra voru tengd saman).

Ég skora á alþingi að breyta þessu. Mér er sama þótt fólk kalli það popúlisma að þingmenn lækki laun sín, vissulega eru þeir vanhæfir til að ákvarða launin sjálfir en ... er einhver munur á því að kjararáð sem inniheldur jafnvel maka þingmanna, ákvarði þau og að Alþingi ákveði þetta sjálft?

Popúlismi getur verið ágætur þegar hann leiðir til réttlátara samfélags. En það er ekki popúlismi að blöskra launahækkun sem er hærri en lægstu laun samfélagsins, hjá fólki sem hefur ítrekað talað gegn því að þau séu hækkuð út af þessum „stöðugleika.“

En fyrst það var hægt að hækka laun alþingismanna um 340 þúsund þá er kannski í góðu lagi að hafa lægstu laun 340 þúsund? Nei, ég bara spyr ... það gæti verið málamiðlun.

E.S.
Hér eru mjög góð rök fyrir því að laun allra helstu toppa Íslands séu margfölduð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni