Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Kosningaþankar

1.

Vangaveltur yfir framboði eins prósentsins.

1% þjóðarinnar fóru í framboð. Það er eiginlega bara pínu krúttlegt, frábært að svona margir treysti sér til erfiðra verkefna.

Sveitastjórnarkosningar eru oftast mun fallegri birtingarmynd lýðræðis heldur en alþingiskosningar. Fáum dettur í hug að dreifa óhróðri um nágranna sína og eftir kosningar er oft auðvelt að finna samvinnugrundvöll. Enda vilja allir hreinar götur, góða leikskóla og að eldri borgarar hafi það gott. Það er helst að það sé í stærri byggðarlögum sem þetta fer að minna á alþingiskosningar, í Reykjavík mætti nánast halda að þetta séu forsetakosningar því baráttan virðist aðallega snúast um hver nær að troða andlitinu sínu á sem flest strætóskýli. Á þessari reglu eru svo ýmsar undantekningar auðvitað. Í Árneshreppi er t.d. verið að takast á um annað og meira en hversu oft á að þrífa göturnar, og þrátt fyrir fámenni er ekki betur séð en að það sé býsna hatrömm barátta. Kannski meira um það síðar.

En maður er auðvitað hugsi yfir því að 1% sé í framboði, eins og forsætisráðherra sagði. Ólíkt henni finnst mér það þó ekki sérstakt áhyggjuefni. Það væri verra ef enginn þyrði að bjóða sig fram eða það væri gert ómögulegt fyrir lítil framboð að koma sér og sínum hugmyndum á framfæri.

Annars er ég yfirleitt hugsi rétt eftir kosningar. Þá fer ég að velta fyrir mér hvort slembival væri ekki mögulega betri leið til að finna fólk í þessar stöður, fólkið sem fer í framboð er oft ekki venjulegt. Það hefur tilhneigingu til að vera úr efri lögum samfélagsins og oft með býsna gott sjálfsálit. Stundum óhóflegt og óverðskuldað.

En ef slembival þykir of róttækt þá væri allavega gaman að heimila persónukjör. Flokkarnir mynda oft óþarfa gjá milli einstaklinga sem ekkert annað skilur að. Aðalatriðið í mínum huga er þó að gefa kjósandanum meiri völd. Og svo ættum við auðvitað að gefa fleiri kjósendum völd, færa kosningaaldurinn niður, getum byrjað á því að leyfa öllum á menntaskólaaldri að kjósa. (Mikil er skömm Miðflokks og Sjálfstæðismanna að hafa barist gegn því góða framfaramáli).

En við ættum ekki að staðnæmast þar. Allir Íslendingar ættu að hafa kosningarétt líka börn. Það er fáránlegt í raun að í kosningum sem snúast m.a. um leikskólapláss og skólamáltíðir færi ekki öllum íbúum einhver áhrif. Barnafjölskyldur hafa of lítið vægi og eftir því sem þjóðin eldist verður fókusinn sífellt minni á menntamál og framtíðina, pólitíkin verður jafnvel á köflum nostalgísk og fer að snúast um að snúa straumi tímans við.

2.

Hér er svo mín hlutdræga kosningagreining.

-Hér er svo staðan eins og hún blasir við mér í núverandi kerfi í þeim sveitarfélögum sem ég þekki eitthvað til:

Sjálfstæðisflokkurinn er laskaður víða, í Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnanesi, Reykjanesbæ og Eyjum eru komin djúp sár, og fálkanum blæðir. Hann þraukar þó um sinn og heldur völdum, í sumum tilvikum vegna kosningakerfis sem ætti að ýta undir breiðara samstarf milli breytingarsinnaðra flokka.

Það kom mér á óvart að Samfylkingin væri ekki sterkari í sínu gamla vígi Hafnarfirði, og ekki að ná neinum verulegum árangri í Kópavogi. Í Reykjavík keyrði flokkurinn alla kosningabaráttu sína á persónuvinsældum Dags B. en staðreyndin er sú að hann er bara ekki eins vinsæll og hann var þegar Jón Gnarr var nýhættur og smá af persónuvinsældum hans smituðust á samstarfsaðilann. Ef Dagur myndi hætta væri samfylkingin í verulega slæmum málum með lítilli endurnýjun og fjölbreytni á lista. Í augnablikinu er þetta meira eins og flokkur skipulagsfræðinga heldur en verkamanna, en slíkt má laga auðvitað. Kannski þyrfti bara að endurskoða prófkjörsfyrirkomulagið og finna nýjar leiðir til að finna fólk. En almennt séð má hún ágætlega við una víða um land.

VG er í algjöru hruni og stemningin þar fyrir innan gallsúr. Þau missa konu í Kópavogi og Hafnarfirði, en í Reykjavík nær Líf rétt svo að þrauka inni vegana fjölgun borgarfulltrúa. Augljóslega er ríkisstjórnarsamstarfið það sem veldur flokkinum skaða, það er tómt rugl að reyna að halda öðru fram. Meirihluti kjósenda VG í síðustu kosningum voru að velja þann flokk sem þeir töldu öflugustu andstöðuna þá stefnu sem Ísland hefur verið að fara með sjálfstæðisflokkinum. Þeir voru plataðir.

Líf Magneudóttir hélt því svo fram að þarna hefði verið að refsa vinstrinu. En það er augljóst rugl. Það er 3% munur á fylgi vinstri flokka nú og árið 2014, og sósíalistaflokkinum gekk býsna vel, svo það er frekar greinileg róttæk vinstri sveifla. Fyrrum VG-kjósendur gátu því leitað í annan róttækan kost, þótt eflaust hafi einhverjir umhverfissinnaðir femínistar leitað til Pírata líka sem bættu verulega við sig.

Píratar eru eini flokkurinn sem bætir við sig í núverandi samstarfi. Ásýnd hreyfingarinnar hefur örlítið breyst, hún er tekin meira alvarlega og nýtur meira trausts. Enn sem komið er, eru Píratar róttækasti lýðræðisflokkurinn, með hugmyndir um hvernig eigi að komast handan við fulltrúalýðræðið og hvernig megi endurræsa Ísland með nýrri stjórnarskrá.

Flokkarnir sama hvort þeir séu fjórir eða fjórir sinnum fjórir festa okkur nefnilega í ákveðnum hjólförum. Við þurfum leiðir til að móta umhverfi okkar, ekki bara fá að kjósa um ruslatunnur og göngubrýr (þó það sé fínt) heldur móta menntakerfið, velferðarkerfið og önnur lög að vilja almennings. (Besta nýjungin sem stjórnlagaráð lagði til var frumkvæðisréttur almennings til að setja mál á dagskrá inn á þingi og koma í veg fyrir þau sem þing ætlar að keyra í gegn).

Viðreisn þykist vera í oddastöðu en er dauðadæmd í Reykjavík ef hún vinnur með sjálfstæðisflokkinum og gengur gegn vilja 70% kjósenda sinna. Samningastaða Viðreisnar er verulega ofmetin því Samfylking, VG og Píratar hafa kost á því að vinna með sósíalistum og flokk fólksins. Sú borgarstjórn gæti snúist um uppbyggingu leigufélaga sem tryggja almenningi kost á ódýrara húsnæði, og útrýmingu GAMMA og annarra hrægamma-félaga. En það kemur til greina að skíra hjólastíga fallegum nöfnum.

Annars má viðreisn vel við una í HFJ og Kópavogi, og í Árborg þar sem þeir unnu mikinn sigur með sameiginlegu framboði með Pírötum (sem felldi meirihluta sjálfstæðismanna þar).

Miðflokkurinn kom þokkalega út víða um land nema í Reykjavík. Ég hlakka til að geta tekið strætó ókeypis að eilífu þar sem hann er við völd.

Mín helstu vonbrigði eru svo að Íbúahreyfingunni gengi ekki betur í Mosfellsbæ, það kemur samt því þarna er öflug hreyfing. En í öllu falli má óska fimmta manni á lista hreyfingarinnar, Benedikt Erlingssyni til hamingju með frábæra kvikmynd. Kona fer í stríð, tekst að vera bæði spennutryllir og arthouse-mynd á sama tíma. Upphaf myndar og endir eru flottustu atriði sem ég hef séð í íslenskri kvikmynd og tónlistin unaðsleg.

Annars fannst mér frábært að sjá stóra kjörseðla. Bæði kvennahreyfingin og karlalistinn vöktu athygli mína með góðum stefnumálum. Foreldrar ættu að vera jafnir fyrir lögum í forræðisdeilum og barnaverndarnefndir ættu að vera fagmannlega skipaðir. Framboð karlalistans vakti því athygli og umræður á mikilvægu máli. Kvennahreyfingin hafði marga frambærilega frambjóðendur sem mér leist vel á, en hreinræktaður kvennalisti átti ekki möguleika á móti mun öflugri kvenkynsframbjóðendum. Þær sem leiddu kvennahreyfinguna bliknuðu við hlið Dóru Bjartar og Sönnu Magdalenu.

Meira var það ekki.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu