Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kjararáð handa öllum

Stundum velti ég fyrir mér hvort barátta ASÍ fyrir því að Alþingi leiðrétti ákvörðun kjararáðs um launakjör þingmanna sé rétt áhersla. Jú, við getum verið sammála því að æðstu ráðamenn eigi ekki að rjúka fram úr venjulegu launafólki í kjörum. Launahækkun upp á 45% er einfaldlega gróteskur gjörningur sér í lagi þegar fólkið sem kemur að ákvörðuninni eru jafnvel makar Alþingismanna og í nánum tengslum við þingflokkana. Það má gagnrýna allt við ákvörðunina, ógagnsæi, skort á fundargerðum, skort á fagmennsku (t.d. enginn í ráðinu tekið þátt í gerð kjarasamninga) o.s.frv.

En værum við að spá í því ef ákvörðunin hefði verið önnur? Ef hún hefði verið í takt við annað á vinnumarkaðinum? Stjórnmálafólkið má nefnilega eiga eitt. Það hlustar ekki á Samtök Atvinnulífsins í eigin kjaraviðræðum. Það skammtar sér það sem þau telja sig eiga skilið.

Og af hverju ættu aðrar reglur að gilda fyrir almenning en stjórnmálafólk? Jafnvel önnur rök? Af hverju eigum við hin að hlusta á Samtök Atvinnulífsins þegar það segir okkur að við megum ekki láta okkur dreyma um launahækkanir eða styttri vinnudag?

Stjórnmálafólk bendir oft á að ef kjörin eru ekki góð þá fæst enginn í að sinna starfinu. Þessi rök eiga við um alþingismenn en af einhverjum ástæðum eiga þau ekki við um kennara. Myndi 45% launahækkun binda enda á kennaraskortinn miklu hraðar heldur en einhvers konar námsstyrkjakerfi fyrir kennaranám? Auðvitað.

Við höfum nú þegar menntað alla kennarana sem skortir, þeir eru bara  betri kjörum einhvers staðar annars staðar en í grunnskólunum.

Svo var sjómannaafslátturinn afnuminn. Af því engin stétt átti að njóta sérstakra skattfríðinda um fram aðra. En nú sjáum við að Alþingismenn fengu talsverða launauppbót, skattfrjálst. Ásmundur Friðriksson fékk fjórar milljónir skattfrjálst í bensínpeningum. Stór hluti þingsins fær sirka eitt launaumslag verkamanns skattfrjálst í hverjum mánuði.

Og Alþingi hefur viðurkennt að þetta sé launauppbót, því það lækkaði þessar greiðslur eilítið til að draga úr reiði yfir ákvörðun kjararáðs.

Nú er meira en ár liðið síðan kjararáð tók ákvörðun sína. Í því ráði sátu fulltrúar úr þremur flokkum, hið vanheilaga bandalag Vinstri Græna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðismanna. (Lagði ákvörðun kjararáðs kannski grunninn að þessari stjórn, var það þannig sem þingmenn VG komust upp á kampavínsbragðið?)

Það er nokkuð ljóst að þessari ákvörðun verður varla hnekkt, ekki nema Píratar fái yfir 50% atkvæða í næstu kosningum.

En kannski er það líka röng krafa. Ættu ekki sjómenn, kennarar, hjúkrunarfræðingar og lögreglan kannski bara að biðja um að fá aksturspeninga í vinnuna skattfrjálst? Og svo kannski smá uppbót, 100 þúsund króna bónus mánaðarlega fyrir þá sem þurfa að borga af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. (Og svo hundrað þúsund króna skattfrjálsan dreifbýlisstyrk fyrir hina að sjálfsögðu).
ASÍ gæti gert kröfu um þetta, sveigjanlegri vinnutíma og svo 45% launahækkun að sjálfsögðu.

Stétt með stétt! Kjararáð handa öllum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni