Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ísland án þrælahalds 2019?

Það er engin refsing og engin viðurlög við launaþjófnaði. Þetta kom fram í máli Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, í samtali við fréttastofu RÚV um daginn.

Í sjálfu sér eru þetta ekki nýjar fréttir. Allir þingmenn sem sitja í atvinnuveganefnd eins og ég gerði þegar ég kom inn sem varamaður í október síðastliðnum eru fullkomlega meðvitaðir um þessa hluti, því þá upplýstu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar þingmenn um það.

Á þeim tímapunkti var gríðarlega mikil reiði og sorg í samfélaginu vegna þess hversu illa starfsmannaleigur og ýmis íslensk fyrirtæki í ferðamannabransanum og byggingariðnaðinum voru að fara með erlent starfsfólk. Fátæku fólki var haldið í fátækt með því að svindla af þeim ólöglega lágar launaupphæðir með leiguokri, þrátt fyrir að húsaskjólið væri hörmulegt og ekki hæft mönnum. Starfsaðstæður voru í mörgum tilvikum hættulegar.

Nú er þetta aftur í umræðunni. Sömu fyrirtæki með sömu hegðun og ekkert hefur gerst. Í stað þess að herða löggjöfina fyrir jól (þingið hafði heila tvo mánuði til þess fram að jólum), í stað þess að fjölga starfsfólki sem sinnir eftirlitinu (þarf engin lög til þess), hefur málið verið látið malla í nefnd.

Þetta minnir reyndar á húsnæðismálin. Stundum skila nefndir inn tillögum. Ágætis pælingum sem halda áfram að vera ófjármagnaðar. Á meðan búa 860 börn í iðnaðarhúsnæði. Rétt eins og við séum bara að bíða eftir því að íslensk útgáfa af Grenfell brunanum eigi sér stað.

Þegar ég var inn á þingi tók ég mansals málin fyrir í sérstakri fyrirspurn til félagsmálaráðherra. Ég spurði hvort hann teldi ekki að launaþjófnaður ætti að vera refsiverður.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að það þarf harðari viðurlög þegar menn gerast ítrekað brotlegir eins og við sáum í þessum sjónvarpsþætti, svaraði ráðherra. Það er svo sem skiljanlegt að hann vilji ekki refsa fyrir fyrsta brot.

Mér finnst langur tími liðinn síðan þetta var rætt, síðan farið var af stað í samráð og nefndir um málið. Í sömu viku á mínum fyrsta degi sem þingmaður var annað mál til umræðu sem varðaði fiskeldi á Vestfjörðum. Þar voru miklir viðskiptahagsmunir í húfi. En líka mikið hitamál sem varðar atvinnumál á Vestfjörðum og framtíð íslenska laxastofnsins.

Það var afgreitt á sólarhring og sannaði enn og aftur að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ef maður forgangsraðar rétt. Það er kannski ekki til eftirbreytni að breyta löggjöfinni á sólarhring, eða ráðast í aðgerðir á svo naumum tíma en það hefði verið hægt að gera eitthvað fyrir jól.  

Mál Rúmenanna sem hírast í ömurlegum aðstæðum, með vinnuveitendur sem skulda sumum þeir allt að sex mánuði af launum, er þjóðarskömm. Ekkert okkar vill kaupa íbúð sem var búinn til með þrælahaldi, og færði gróða til aðila sem hirðir hann með svindli og kennitöluflakki. Ekkert okkar vill borða mat á veitingastað þar sem fólkið sem sinnir þjónustu og uppvaski fær ekki umsamin laun eða önnur réttindi sem Íslendingar börðust fyrir alla síðustu öld. 

En meðan stjórnvöld gera ekkert þá er þetta raunveruleikinn á Íslandi. Raunveruleiki sem við ættum öll að skammast okkar fyrir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni