Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hættum að bregðast Hauki

Hættum að bregðast Hauki

Eina raunverulega byltingin sem framin hefur verið á Íslandi er bylting Jörgen Jörgensens árið 1809. Líkt og allar úrbætur í réttindum Íslendinga fyrr og síðar kom byltingin utan frá, lýðræði, mannréttindi, frjálslyndi og verkalýðsbarátta eru allt innfluttar afurðir sem okkur hefur verið skammtað samkvæmt ströngustu tollkvótum. Árið 1992 þegar mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í máli Þorgeirs Þorgeirsonar gegn íslenska ríkinu með þeirri niðurstöðu að Þorgeir væri í rétti, og mætti gagnrýna embættismenn opinberlega, þá urðu íslensk stjórnvöld að leyfa u.þ.b. 210 tonn í viðbót af málfrelsi til landsins. Árið 1908 voru haldnar fyrstu leynilegu kosningarnar til Alþingis, fram að því höfðu þær verið haldnar á opnum fundum og ekki einu sinni verið skriflegar. Magnús Stephensen landshöfðingi (já það var titill hans) lagðist hart gegn því, en það var varla hægt annað en að samþykkja leynilegar kosningar, Danir voru farnir að furða sig á hve treglega þetta var að ganga hjá Íslendingum. Þar með var samþykktur sirka 1000 tonna innflutningur á stjórnmála og skoðanafrelsi.

Það er því kannski ekki skrítið að 17. júní árið 2008, korter í hrun, hafi Haukur Hilmarson dregið fána Jörgen Jörgensen að húni í stjórnarráðinu. Á sama tíma sendi hann á fjölmiðla þá yfirlýsingu að þó hann styðji ekki menn sem eins og Jörgen vilja ráða yfir öðru fólki, þá hafi þetta verið eina tilraunin í sögu landsins til að ýta valdastéttinni af stóli. Brjóta upp stéttskiptingu og misrétti.

Það er reyndar skrítið að við Íslendingar minnumst Jörgens ekki hlýlegar en við gerum. Þetta var ævintýramaður, innblásinn af róttækum hugmyndum upplýsingarinnar um réttlátara og frjálsara samfélag, sem handtók Trampe greifa og í stutta stund braut upp völd dönsku faktóranna. Okkur hefur verið innrætt að hann væri hlægileg fígúra, sápukaupmaðurinn, en kannski ættum við ekki að hlæja. Það er eitthvað aðdáunarvert við að vera stríðsfangi í London og ná að flýja úr varðhaldi og með tungulipurð tala sig inn á kaupmenn og fjárfesta, sigla með skipi norður og hertaka litla eyju, og reyna að bæta líf og réttindi eyjaskeggjana.

Hefði þetta gengið eftir er ekki spurning um að hann væri álitinn hetja.

Það má segja að Haukur hafi með fánum sínum þetta ár algjörlega átt sviðið. Bónusfáninn á Alþingi er mun frægari gjörningur heldur en fáni Hundadagakonungsins þann 17. júní, og þá var hljómgrunnurinn betri. Þá var klukkan ekki korter í hrun, heldur fimm mínútur yfir og fleiri reiðubúnir til að taka boðskap anarkistans alvarlega.

Ég hef ekki hitt neina Íslendinga sem eru jafn hugrakkir og Haukur, kannski örfáa með jafn ríka réttlætiskennd, en ég styð heilshugar gjörninginn á stjórnarráðinu þann sautjánda júní. Staðreyndin er sú að fyrir nokkru síðan tilkynntu tyrkneskir fjölmiðlar að Haukur hefði fallið í átökum í Norður Sýrlandi. Örfá mygluð manneintök hafa sagt Hauk hafa farið þangað sjálfviljugur og því málið okkur óviðkomandi, því vil ég mótmæla af tvennum ástæðum. Í fyrsta lagi var þarna um að ræða hernaðaraðgerð sem samkvæmt alþjóðalögum er ólögleg (já, og að sjálfsögðu hefði lögmæti hennar samkvæmt alþjóðalegum ekki raunverulega gert hana siðlegri), innrás Tyrkja inn í annað ríki sem ekki hafði lýst stríði á hendur Tyrklandi. Haukur var því hvorki staddur þarna í lögmætu stríði né innan Tyrklands. Í öðru lagi er um að ræða íslenskan ríkisborgara og það fjandinn hafi það, kemur íslenskum stjórnvöldum við þegar íslenskur ríkisborgari er myrtur af erlendri ríkisstjórn, hvort sem sameinuðu þjóðirnar líta á það sem lögmæta eða ólögmæta aðgerð.

En vitum við hvort Haukur er látinn? Við vitum auðvitað ósköp fátt, því þó fjölmiðlar í Tyrklandi hafa haldið því fram hefur engin rannsókn farið fram. Íslensk stjórnvöld titra af ótta við Erdogan og þora ekki að spyrja blaðamenn. Það er nú annað en hérlendis þar sem þau jafnvel hóta fjölmiðlum og krefjast þess að fá að vita heimildamenn. Nú þorir róttækasta ríkisstjórn í sögu Íslands (er ekki róttækasti flokkurinn örugglega með forsætisráðuneytið?) hvorki að fordæma hernaðaraðgerðirnar né að spyrja tyrknesk stjórnvöld beint út í hvers vegna tyrkneskir fjölmiðlar segja Hauk hafa fallið í ólögmætri árás Tyrkja á Rojava.

Ég vil vita þetta. Það er algjört prinsippmál að stjórnvöld sem þykjast geta sett lög sem við hlýðum, heimt skatta sem við borgum, merkt okkur með kennitölu, fæðingavottorði og dánarvottorði, láti sig varða hvort við séum lífs eða liðinn.

Það er frumskylda stjórnvalda, annars gætum við bara sleppt því að hafa þau. En það hafa kannski ekki verið almennileg stjórnvöld í þessu landi síðan Jörgen Jörgensen reyndi. Við erum mögulega ennþá undir hælnum á greifum og faktórum, sem ganga bara undir nýjum nöfnum, hæstvirtum, háttvirtum og háæruverðugum. Það er auðvitað rétt hjá Helga Seljan að það væri búið að gera meira í málinu ef um væri að ræða fraktskip fullt af fiski, í verstöðvarlýðveldi skiptir varan öllu máli og ekki vinnuhjúin.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu