Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þegar forsetinn keypti krakk!

Þegar forsetinn keypti krakk!

Nokkrir lesendur og vinir hafa haft samband og spurt mig hvort ég vilji ekki skrifa minningargrein um George H. W. Bush í svipuðum anda og pistillinn sem ég lét frá mér um John McCain. Enginn pistill hjá mér hefur verið jafnheitt elskaður og jafnheitt hataður, og ég hef gaman af því að vekja upp sterk tilfinningaleg viðbrögð, en að þessu sinni verð ég að valda vonbrigðum.

Ég tel mig ekki þurfa að skrifa nein sérstök orð um þennan fyrrum yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, þennan mann sem notaði eina ógeðfelldustu auglýsingu í kosningasögu Bandaríkjanna um mál "Willie Horton" (sem reyndar hét ekki Willie Horton), þennan mann sem klúðraði svo algerlega utanríkispólitík BNA að það leiddi til stríðs í miðausturlöndum. Enda eru engir frjálslyndir eða vinstrisinnaðir vinir mínir að ausa hrósi yfir hann líkt og gert var við John McCain. Sú grein var skrifuð af því mér leiðist tilhneigingin til að gera öllum andstæðingum Donald Trump hátt undir höfði þrátt fyrir augljósa siðferðislega bresti. (Og ég get svo sem endurtekið það sem ég hef sagt áður, að frekar væri ég til í þrjú kjörtímabil af Trump frekar en eitt kjörtímabil með McCain).

En mig langar samt að deila með ykkur einni sögu um George Bush hinn eldri. (Hér er þar sem ég stal henni).

Pólitík hans gekk út á að skapa ótta meðal almennings og sannfæra hann um að það þyrfti sterkan leiðtoga til að koma á röð og reglu. Þess vegna ákvað hann að í fyrsta ávarpi sínu til þjóðarinnar árið 1989 myndi hann tala um meintan dóp-faraldur. Ræðan sem búið var að skrifa hélt því fram að það væri svo hrikalegt ástand að jafnvel á gangstéttinni fyrir framan Hvíta Húsið væri hægt að kaupa fíkniefni. Planið sem teymi forsetans, PR-menn og auglýsingastofa, gekk út að í miðri ræðunni myndi forsetinn taka upp poka með krakki og tala um hvernig þessi fíkniefni hefðu verið keypt í göngufjarlægð frá skrifstofunni hans, og síðan myndi forsetinn kalla eftir harðari refsingum, fleiri fangelsum, engri vægð eða miskunn, heldur hörðu fíkniefnastríði.

Hófst þá leitin að krakkinu!

Þegar teymi forsetans setti sig í samband við lögregluna í Washington var þeim tjáð að engir dópsalar störfuðu í hverfinu kringum Hvíta Húsið. Lögreglustjórinn á svæðinu útskýrði að þarna væri of mikið fólk á ferð, of mikið um að vera, alltof mikið af lögreglu á svæðinu, og að enginn dópsali vogaði sér í nágrennið.

Menn dóu þó ekki ráðalausir.

Rúmri viku fyrir ræðuna sem George H W Bush hélt var Sam Gaye lögreglufulltrúa falið að finna dópsala og sannfæra hann um að selja krakk og kókaín fyrir framan Hvíta Húsið, svo hægt væri að sýna fram á fullyrðingar forsetans.

Sam Gaye var hjá DEA (fíkniefnabrotadeild alríkislögreglunnar) og þekkti að sjálfsögðu marga í undirheiminum. Fyrsti dópsalinn sem hann bauð söluaðstöðu við Hvíta Húsið hætti við að mæta. Að lokum fann hann þó svart ungmenni að nafni Keith Jackson.

Washington D.C. er afar blönduð borg þar sem meirihluti íbúa eru svartir, en þó er hún þannig skipt að sumir hlutir borgarinnar eru nærri alhvítir og aðrir alsvartir. Hvíta Húsið er að sjálfsögðu í allra hvítasta hlutanum.

Í samtali Jackson og rannsóknarlögreglumannsins sem tekið var upp leynilega spurði Jackson: Bíddu, hvíta húsið, hvar í andskotanum er það? (The white house, where the fuck is it?)

Að lokum eftir útskýringu á staðsetningu hússins virðist Jackson átta sig á þessu: Ó, þú meinar húsið þar sem Reagan býr? (Oh, you mean where Reagan lives).

Til að gera langa sögu stutta þá mætti Jackson fyrir framan Hvíta Húsið, seldi dópið fimm dögum fyrir ræðu forsetans og kom síðan aldrei aftur til baka þangað. DEA hefði getað handtekið hann þá að sjálfsögðu, enda voru það DEA lögreglumenn í dulbúningi sem keyptu af honum vöruna.

Þeir ákváðu að bíða með það til að grafa ekki undan ræðu forsetans með fréttum um handtöku fyrir framan Hvíta Húsið. Jackson var síðan handtekinn stuttu eftir ræðu forsetans og dæmdur í tíu ára fangelsi.

Verjandi Jackson harmaði að strákurinn hefði verið notaður á þennan máta. Hann hafði enga fyrri glæpi á sakaskrá og var leiddur út í að fremja glæpinn af lögreglumönnum. Dómarinn tók undir, honum þótti fáránlegt að dæma ungan mann í svona langt fangelsi en útskýrði að samkvæmt nýjum lögum sem forsetinn hafði átt þátt í að lobbýa í gegnum þingið varð hann að beita hámarksrefsingu.

Hámarksrefsing fyrir glæp sem ekki hefði átt sér stað nema fyrir þörfina til að skapa PR-stönt.

George H W Bush tapaði síðar fyrir Bill Clinton sem viðhélt sama fíkniefnastríði. Lög voru hert á tíunda áratugnum og Clintonarnir líkt og Bush nýttu sér óttann við meinta glæpaöldu til að afla sér vinsælda.

Að lokum tók sonur Bush við völdum árið 2000. George Bush hinn yngri hefði kannski nýtt sér óttann við mexíkana eða svarta glæpaöldu til að skapa þörf fyrir valdamikinn og karlmannlegan forseta. Hann reyndist þó aldrei þurfa þess því honum bauðst miklu stærra og dýrara stríð. Stríðið gegn hryðjuverkum. Um það mætti skrifa mikið, og ekki verða eftirmæli hans góð frekar en föður hans.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu