Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Dýrasti þingmaðurinn

Frá manninum sem færði okkur Vaðlaheiðargöng, sem gætu endað á að kosta okkur allt frá 17 milljörðum til 30, er nú komið nýtt reikningsdæmi. Það er sérstakur hátíðisfundur á þingvöllum til að fagna fullveldi. Umdeildasti stjórnmálamaður Danmerkur var heiðursgestur á samkomu sem eiginlega náði að kristalla alla pólitík Gamla Íslands sem búsáhaldabyltingin gekk út á að mótmæla. Samkoman snerist um að heiðra stjórnmálastétt sem er úr öllum tengslum við samfélagið sem það stýrir. Og raunveruleikann sennilega líka, því 22 milljónir fóru í að leigja ljósabúnað til að lýsa upp skammdegið í miðjum júlí á Íslandi.

Til samanburðar má nefna að nú á að setja 25 milljónir í baráttu gegn sjálfsvígum ungmenna á Íslandi, vandamál sem er talsvert brýnna en lýsingin í DVD upptöku fullveldishátíðarinnar. Hátíðin endaði á að kosta 87 milljónir. Um allt þetta fíaskó mætti kannski segja, ljósin voru kveikt en það var enginn heima.

Steingrímur J. Sigfússon ætti að segja af sér sem forseti alþingis. Hann nýtur ekki trausts lengur og værum við í einhverju hinna Norðurlandanna, Svíþjóð eða Noregs t.d. þyrfti ég ekki einu sinni að skrifa það, hann væri einfaldlega búinn að því. Fólk getur auðvitað endalaust þrætt um fundargerðir afmælisnefnda og þvælt málinu fram og til baka, en það breytir ekki þeirri staðreynd að forseti alþingis er hæstlaunaðasti meðlimur þingsins af því hann ber höfuðábyrgð á störfum þess. Og Steingrímur ber höfuðábyrgð á fundinum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni