Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Byggjum nýtt Breiðholt og menntakerfi

Byggjum nýtt Breiðholt og menntakerfi

Ef það væru virkilega framsýn stjórnvöld á Íslandi í dag væri verið að bregðast við krísu í menntamálum og krísu í húsnæðismálum.

Það ríkir skortur á húsnæðismarkaðinum. Íbúðir seljast samdægurs, ekkert framboð er á íbúðum undir 30 milljónum, leiguverð hefur hækkað um 50% á síðastliðnum árum, fólk á þrítugsaldri í foreldrahúsum hefur fjölgað um 6000. Það eru stórar tölur í litlu landi, en húsnæðisskorturinn auk úreltrar atvinnustefnu er eitt af því sem ýtir ungu fólki úr landi. Okkur vantar sárlega um 10 þúsund íbúðir á næstu árum ef við eigum ekki að verða fyrir gífurlegum atgervisflótta. Það væri sárt að missa allt þetta góða fólk. Sárt fyrir fjölskyldur og slæmt fyrir Ísland.

En það er kominn ný ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem merkilegt nokk er án stefnu í húsnæðismálum. Það eru engin orð um það í stjórnarsáttmálanum um hvort þau vilji efla leigumarkaðinn, tryggja stöðugleika hans eða ýta undir langtímaleigu. Heldur ekkert um hvort þau vilji hvetja til séreignar, hjálpa ungu fólki að eignast sitt fyrsta hús á markaði sem hefur hækkað gríðarmikið síðustu árin. Er einhver aðgerðaráætlun ef húsnæðisverð hækkar enn meira, eða ef það hrynur af einhverjum völdum með skyndihraða? Er einhver langtímasýn?

Manni sýnist ekki. Sem er pínu skrýtið því einn af flokkunum í ríkisstjórninni kennir sig við Viðreisn og vísar þar til Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. Að mörgu leyti má segja að flokkurinn sé óður stofnandans til æskuára sinna, hann sjái þessa frjálslyndu stjórn með nostalgískum glampa í augum. En sú Viðreisn gekk út á meira en bara að losa höft. Vissulega gekk Ísland í EFTA ári áður en stjórnin leystist upp, en það var síðasta verk hennar, ekki hið fyrsta. Sjálfstæðisflokkurinn var of nátengdur hagsmunaöflum í landbúnaði þá, líkt og núna til að fara í kerfisbreytingar í neytendamálum. Menn fara almennt ekki í kerfisbreytingar með þeim flokk sem hannaði kerfið ...

Það sem Viðreisnarstjórnin gerði fyrst var að byggja Breiðholtið og umbylta skólakerfinu.

Gylfi Þ. Gíslason lengst sitjandi menntamálaráðherra Íslandssögunnar kom á námslánastofnun, LÍN, sem gerði lægri stéttum í fyrsta sinn kleift að fjármagna háskólanám sitt. Breytingar hans á lögum um menntaskóla urðu til þess að menntaskólar voru stofnaðir um allt landið. Þessar tvær aðgerðir sköpuðu íslensku millistéttina eins og við þekkjum hana í dag, ef þú hefur tekið námslán til að fara í nám erlendis og farið í annan menntaskóla en þessa þrjá sem voru til fyrir stríð þá mættirðu velta fyrir þér hvernig Ísland væri í dag hefði það verið Sjálfstæðisflokkurinn með menntamálaráðuneytið en ekki alþýðuflokkurinn á sjötta áratugnum. Líka ef þú hefur farið í tónlistarskóla því lögin sem sett voru þá um tónlistarskóla stuðluðu að þeirri miklu grósku sem verið hefur í íslensku tónlistarlífi síðan þá.

Mætti ekki segja að Illugi Gunnarsson hafi á síðasta kjörtímabili reynt að skemma sem mest af því sem Viðreisn stóð fyrir á sjötta áratugnum í menntamálum? Með því að gera námslán dýrari fyrir hina tekjulægri, fækka fólki í menntaskólum og grafa undan tónlistarskólum. Enginn sem hefur misst af skóla vegna veikinda eða erfiðra aðstæðna fær nú að fara í menntaskóla eftir 25 ára aldur þökk sé Sjálfstæðisflokkinum. Hefði LÍN frumvarpið farið í gegn (sem það gerir kannski nú með stuðningi Bjartrar Framtíðar) verður nám dýrara fyrir hina tekjulægri og ódýrara fyrir hina tekjuhærri.

Það er auðvitað krísa í menntamálum líka.

Háskólar fá ekki þann stuðning sem þeir þurfa á tímapunkti sem miklar breytingar á efnahagslífi heimsins blasa við. Hvernig eigum við að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni og minni þörf á ómenntuðu starfsfólki ásamt meiri þörf fyrir vísindalega og skapandi hugsun?

Nei, svarið er ekki endilega fleiri alþjóðlegir fríverslunarsamningar, samdir í lokuðum bakherbergjum, án eftirlits stéttarfélaga eða löggjafarþings. Svarið gæti hins vegar falist í eflingu skólakerfisins. Það gæti falist í sig aukningu rannsóknarstyrkja, byggingu Listaháskóla, og meiri stuðning við öll skólastig, þar með talið leikskóla. Og kannski bara í því að gera nám ódýrara fyrir alla og hjálpa þeim sem þurfa mesta hjálp.

Eigum við von á því með Sjálfstæðisflokkinn yfir menntamálaráðuneytinu? (Sem hann hefur haft síðan 1991 með stuttu uppbroti 2009-2013).

Svo mikið er víst að svarið við húsnæðiskrísunni sem er í gangi núna er ekki að finna í stjórnarsáttmálanum sem nýja Viðreisn kennir sig við. Kannski þekkir enginn af þeim sem sömdu þennan sáttmála það af eigin raun hvernig það er að safna fyrir húsnæði eða greiða niður verðtryggt lán. Spyr sá sem ekki veit.

 

E.S. Meira svona væri eitthvað í áttina ... En eitt sveitarfélag hefur ekki bolmagn til að gera mikið meira en svona hluti. Það er þó einn flokkur í lykilstöðu. Björt Framtíð er í stjórn í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur er í stjórn allra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu nema Reykjavík og í ríkisstjórn. Viðreisn er með félagsmálaráðuneytið. Ábyrgð þessara flokka er skýr.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni