Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þau senda ekki sína bestu

Þegar Bandaríkin senda varaforseta sína hingað þá senda þau ekki sína bestu. Þeir eru ekki að senda þig. Þeir eru ekki að senda þig. Þau eru að senda fólk með vandamál og þau taka vandamálin sín með sér. Þau koma með stríð, þau koma með fordóma, þau koma trúarofsa. Og sum, geri ég ráð fyrir eru góðar manneskjur.

Mike Pence er maður með djúpstæð persónuleg vandamál. Hann er kannski góður í einhverjum skilningi þess orðs, en hann er maður sem á við vandamál að stríða þegar það kemur að samskiptum við konur, viðhorfum til samkynhneigðra, annarra kynþátta og menningarheima. Vægast sagt.

Hann ásamt Donald Trump hefur rekið ómannúðlega stefnu við landamæri Bandaríkjanna sem snýst um að ræna börnum frá foreldrum og hefur jafnvel leitt til dauða ungabarna vegna næringarskorts. Hann hefur árum saman barist gegn jöfnum réttindum milli kynja og reynt að hindra samkynhneigð pör í að eiga hamingjusamt líf saman. Hann gerði það meðal annars refsivert fyrir samkynhneigð pör að sækja um hjónavottorð. Ekki nóg með að neita þeim um hjónaband, hann beinlínis vildi refsa þeim fyrir að óska eftir slíku, mikið ógeðfelldara verður það ekki.

Öfgafull trú hans ógnar þó ekki bara samkynhneigðum heldur líka lífríki jarðar og þar með tilvist mannkynsins. Miðaldaleg fáfræði hans hindrar Pence í að skilja vísindalegar staðreyndir um afleiðingar kolefnaútblástur sem hvert mannsbarn ætti þó að vera algerlega ljóst núna. Bara í sumar loga skógareldar í Síberíu, hitabylgjur í vesturevrópu ná 40 stigum og laxar kafna úr hita í fljótum Alaska. Pence mun engu að síður ekki viðurkenna að neitt þurfi að gera til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum, annað hvort vegna peningana sem hann þiggur úr kosningasjóðum olíurisa eða þeirri ofurtrú að styttist í endurkomu frelsarans sem með logandi eldsverð á lofti mun steypa samkynhneigðum og vinum þeirra ofan í vítisloga. (Og eflaust mér líka fyrir trúleysi mitt, en a.m.k. mun ég þá fá færi til að eiga nokkur orð við gamla kunningja).

Fáfræði gæti ég fyrirgefið, en ekki hatur og vísvitandi morð, eins og innrás Bandaríkjanna í Írak og harða fangabúðastefnu Donalds Trump eru dæmi um. Þar er hann meðreiðarsveinn sem jafnvel með biblíu bundna fyrir báðum augum kæmist ekki hjá því að heyra öskur fórnarlambanna.

Við ættum að byggja vegg milli okkar og þessara varaforseta og láta Donald Trump borga fyrir hann. Og að sjálfsögðu ætti að mála þennan vegg í öllum litum regnbogans til að sýna að við séum samfélag sem er annt um alla óháð kynhneigð, kyni, húðlit, fötlun eða trú. Kannski að þessi veggur geti verið staðsettur þannig að hann beini öllu kalda vatninu sem flæðir bráðnandi úr grænlandsjökli í leiðinni. Þrátt fyrir að loftslagshörmungarnar séu að sjálfsögðu bara kínverskt samsæri sérhannað til að hindra Bandaríkin í að vera Great Again.

Að byggja þennan vegg hljómar kannski óráðlega og fáránlega, en ég tel að peningum sé þó betur varið í flóðavarnir en að flytja inn til landsins í boði íslenskra stjórnvalda mann sem hefur barist gegn því að Bandaríkin dragi úr mengun og ofsæki minnihlutahópa. Mann sem hefur barist gegn því að konur njóti jafns réttar og karlar, mann sem hefur breitt úr hatri gegn samkynhneigðum, mann sem hefur stutt öll þau stríð sem hann getur mögulega stutt og er núna meðsekur með núverandi forseta fyrir þá glæpi að slíta ungabörn frá foreldrum sínum og geyma þí fangabúðum.

Boð þessa manns er auðvitað liður í stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að styrkja NATO samstarfið á tímum þar sem Bandaríkin verða sífellt herskárri, og stuðla að aukinni hernaðaruppbyggingu hérlendis. En Mike Pence á ekkert erindi hér sem heiðursgestur. Hann er rasisti, hann er hómófób, hann er ófriðarsinni, en að öðru leyti geri ég ráð fyrir að hann sé góð manneskja. Bara einstaklega ráðvillt manneskja sem ætti að vera talsvert lengra en einum hjartslætti frá yfirráðum yfir kjarnorkuvopnum, 300 milljón manna þjóð eða nokkurri valdastöðu yfirhöfuð.

Við ættum ekki að sitja þögul undir því. Og munum ekki gera það, því sem betur fer hafa Samtökin 78 boðað andstöðu sína við boðið. Sjáum hvað setur.

(þeir sem eru velkunnugir orðræðu Trump muna kannski eftir ræðu hans um Mexíkana, sem voru að senda nauðgara og morðingja með vandamál sín til Bandaríkjana, hér er sú ræða með smá staðreyndatékki).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni