Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Veldu svo þann sem að þér þykir bestur

Veldu svo þann sem að þér þykir bestur

Fjöldi forsetaframbjóðanda er að verða áhyggjuefni. Fjölgi þeim áfram með sama hraða má búast við að meginþorri mannkyns verði í framboði áður en yfir lýkur. En í alvöru talað, þá er vandamálið ekki fjöldi frambjóðenda, heldur aðferðin sem við notum til að gera upp á milli þeirra.

Í stjórnarskránni segir að forseti sé rétt kjörinn sem hlýtur flest atkvæði í forsetakosningum, en það er engin trygging fyrir því að það séu mörg atkvæði. Hætt er við því að forseti veriði kjörinn með minnihluta atkvæða, þótt hann fái fleiri en aðrir frambjóðendur. Ef 12 frambjóðendur verða í framboði þá er líklegt að sigurverinn verði kjörinn með einungis 32.22% atkvæða, samkvæmt hjálplegum útreikningum sem Pawel Bartoszek lagði til á Facebook. Það þýðir að 67.78% kjósenda hefðu viljað einhvern annan forseta.

En ekkert er að óttast! Það er til ráð. Sé lögum um forsetakosningar breytt í hvelli má búa þannig um hlutina að þótt 67.78% kjósenda hafi heldur viljað einhvern annan, þá væru flestir allaveganna sáttir við niðurstöðuna.

Við erum öll vön því að setja "X" við þann sem okkur þykir bestur. En hvað um að setja "1" í staðinn. Og svo "2" við þann sem okkur þykir næstbestur, og svo 3, 4, og svo framvegis, upp í hverja þá himinháu tölu sem fjöldi forsetaframbjóðanda verði kominn í?

Svo þegar það væri talið, þá væri það gert þannig: Fyrst er atkvæðunum skipt eftir fyrsta vali allra. Ef það er kominn skýr sigurvegari þá er þetta búið. Annars er sá frambjóðandi sem hefur fæst atkvæði fjarlægður sem augljós tapari, og á öllum þeim atkvæðum er skoðað hvað var í 2. sæti, og atkvæðunum deilt niður eftir því. Svo er leikurinn endurtekinn þangað til skýr sigurvegari er kominn fram.

Kostirnir eru augljósir: allir geta valið þann sem þeim raunverulega þykir bestur án þess að óttast að atkvæði sitt fari til spillis, og minni líkur eru á að tveir svipaðir frambjóðendur skemmi hver fyrir öðrum. Ef fyrsta val fólks tapar, þá er annað eða þriðja val líklegt til að ganga. Fólk hefur ekki mörg atkvæði með þessu, heldur bara eitt atkvæði sem nýtist sama hvað.

Þessi aðferð heitir "Single Transferable Vote" eða STV á ensku*, og er víða notuð, til að mynda í þing- og forsetakosningum á Írlandi, þingkosningum á Skotlandi, öllum kosningum á Möltu, og svo framvegis. Það eru til aðrar aðferðir sem eru kannski betri, en þessi er vel þekkt og allir ættu að geta sammælst um að þessi breyting væri af hinu góða.

Alþingi ætti að drífa í því að breyta lögunum þannig að þetta geti orðið svona, þannig að við fáum örugglega þann forseta í sumar sem þjóðinni þykir bestur. 

Hér er myndband sem útskýrir þetta betur en ég get gert:

* Athugasemd fyrir kosningakerfisnörda eins og mig: Nafnið "STV" er yfirleitt notað um kosningar þar sem eru margir hugsanlegir siguvegarar; þegar aðeins einn sigurvegari er í boði er það ýmist kallað Alternative Vote (AV) eða Instant Runoff (IRV), eftir ýmsum smáatriðum sem skipta litlu máli í þessari yfirferð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu