Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Og svo skutu þeir sig bara sjálfir

Á dögunum varð tvennt ljóst á Íslandi:

a) Fregnirnar af dauða Gamla Íslands – lands hrossakaupa og hlæjandi karlpunga – hafa reynst stórlega ýktar.

b) Kapphlaup er hafið milli allra nýstofnaðra pönksveita Íslands um það hver mun fastna sér besta hljómsveitarnafn 21. aldarinnar: Húrrandi Klikkuð Kunta (H.K.K. í útlanda-meikinu).

Þau okkar sem urðum ekki fyrir svívirðingum þeirra ölsmurðu herramanna – herramanna sem hafa það fram yfir okkur flest að vera reglulega kallaðir „háttvirtir“ í vinnunni sinni – geta notið þess skýrleika sem fréttir af þessu tagi færa okkur. Erum við ekki öll orðin þreytt á þessum eltingaleik við feita hvíta hvalinn sem er feiti hvíti karlinn á feitu hvítu skrifstofunni sem kannast ekkert við að vera forrétindablindur eða fyrirlíta konur?

Eltingaleiknum er lokið. Þeir gleymdu að passa sig. Þeir gleymdu því að Ísland er búið að breytast nógu mikið til að næsta manneskja á barnum gæti litið kvenhatursgasprið og spillingarsáttmálana þeirra nógu alvarlegum augum til að setja upptöku í gang.

Við eltum þá árum saman eins og Ahab skipstjóri elti Moby Dick með skutul sér í hönd.

Og svo skutu þeir sig bara sjálfir.

Er til betri gæðastimpill fyrir nokkra stjórnmálamanneskju en að vera kölluð „húrrandi klikkuð“ af skósveinum manns sem þurfti að segja af sér ráðherraembætti vegna spillingarmáls?

Þau okkar sem urðu fyrir svívirðingum þeirra taka þær skiljanlega kannski nærri sér en ættu, ef þau geta, að taka sér Franklin Delano Roosevelt til fyrirmyndar, og fagna hatri lítilmenna í sinn garð. Sér í lagi Inga Sæland (einnig þekkt sem „Sú sem hér stendur“). Er til betri gæðastimpill fyrir nokkra stjórnmálamanneskju en að vera kölluð „húrrandi klikkuð“ af skósveinum manns sem þurfti að segja af sér ráðherraembætti vegna spillingarmáls?

Uppnefnið ber ekki einu sinni keim af yfirlæti, eins og ef þeir hefðu kallað hana „grey“ eða eitthvað þar fram eftir götunum. Nei, að kalla konu klikkaða þýðir að manni standi stuggur af henni. Og ef kona skýtur meðlimum gobbi-gobb-flokksins skelk í bringu gæti hún sagst hafa verið að gera eitthvað rétt.

Á móti kemur að Inga hefur átt það til að velja sér óheppilega meðreiðarsveina í pólitíkinni. Ég held að fáir efist um einlægni hennar í baráttunni fyrir hagsmunum öryrkja og aldraðra en óneitanlega felst viss dómgreindarbrestur í því að umkringja sig mönnum eins og Ólafi Ísleifssyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni sem óttast múslima meir en við hin óttumst eiturslöngur. Þeir sem leika sér við gelti eiga það til að verða skítugir. Sjitt hvað Magnús Þór hlýtur að vera feginn að hafa ekki verið þarna.

Ég hef tjáð mig áður um takmarkanir þeirrar pólitíkur sem Flokkur fólksins hefur upp á að bjóða og nú er algjör óþarfi að fara út í þá sálma. En er einhver hissa á því að Miðflokksmenn reyni að veiða afturhaldssinna eins og Ólaf Ísleifs í sinn flokk? Eða að þeir dragi þá ályktun að í félagsskap þeirra sé ekkert háskalegt við það að tala um konur eins og búfénað?

Nú hefur Gunnar Bragi frætt okkur öll um það hvernig stjórnmálamenn skiptast á greiðum í sendiherraútnefningum og hefur enga vörn aðra en „ég var bara að djóka.“

Og kaupin á eyrinni? Nú liggur við að maður vorkenni Gunnari Braga fyrir að hafa ljóstrað því upp hvernig þau ganga fyrir sig. Þar til maður rifjar það upp að hann lét það út úr sér sama kvöld að „talnablinda“ kvenkynsins lýsti sér aðallega í því að þær myndu ekki fjölda rekkjunauta sinna. Maður getur vorkennt honum með popp-poka í höndunum. Á sama hátt og maður vorkennir glæpamanninnum White Boy Bob í myndinni Out of Sight, sem skokkar upp stiga til að handsama góðlega bankaræningjann Jack Foley en dettur um eina tröppuna og skýtur sjálfan sig óvart í andlitið.

Það er eitthvað átakanlegt við svona erkiheimskulega sjálfstortímingu. Nú hefur Gunnar Bragi frætt okkur öll um það hvernig stjórnmálamenn skiptast á greiðum í sendiherraútnefningum og hefur enga vörn aðra en „ég var bara að djóka.“ Heilinn úr honum er kominn út um allt gólfteppið. Í stjórnmálalegum skilningi, auðvitað.

Ókei, er einhver hérna enn með bundið fyrir augun og puttana í eyrunum, æpandi: „Hérerenginspilling! Hérerenginspilling!“? Panama-skjölin dugðu ekki til. Perra-æru-uppreistin dugði ekki til heldur. Hæstaréttardómur yfir dómsmálaráðherra dugði ekki einu sinni. Mun þetta gera útslagið? Mun þetta vera það sem við munum eftir sem málinu sem stal endanlega af okkur augnblökunum og neyddi okkur til að horfast í augu við þá staðreynd að „virðuleiki“ Gamla Íslands er, og var alltaf, sjónhverfing?

Við stöndum frammi fyrir tveimur ályktunum. Annað hvort fæddust mennirnir á upptökunni án sálar eða þá að forréttindastaða gerir það að verkum að fólk rotnar í gegn og glatar samkenndinni. Ég hallast að hinu síðarnefnda. Og þegar menn sýna sig ófæra um að sýna konum virðingu er ekkert eftir fyrir þá annað en afsögnin. Alveg sama hversu ómissandi þeir halda að þeir séu.

Þetta er búið, strákar.

Ekki láta hurðina lemja ykkur á leiðinni út.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni