Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Auðar hendur prjóna peysur handa andskotanum

„Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.”

(2. Þessalónikubréf 3:10)

Þetta viðhorf þekkjum við öll. Það er hluti af vinnusiðferði mótmælendatrúar og er svo samofið hugsunarhætti okkar að við tökum vart eftir því að þetta sé gildisdómur. Við þurfum ekki einu sinni að sækja þetta til Páls postula og félaga. Við getum spurt litlu gulu hænuna. Hún reyndi að fá hin dýrin til að hjálpa til við brauðgerðina en enginn var til í að sá hveitifræinu, slá, þreskja eða mala hveitið, hvað þá að baka brauðið með henni. En allir voru til í að borða það. Skýr og klár dæmisaga sem sýnir sannleiksgildi orðskviðarins í Þessalóniku-bréfinu.

Eða hvað?

Ef við samþykktum að enginn ætti að fá mat annar en þeir sem búa hann til þá væru auðvitað ekki til veitingahús eða matvöruverslanir. Enginn heldur því fram að hver og einn ætti að þurfa að rækta og matreiða ofan í sjálfan sig. Og í biblíukaflanum hér fyrir ofan eru Páll, Sylvanus og Tímóteus að vara menn við því að verða öðrum „til þyngsla” og beina orðum sínum til þeirra sem „lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.” Þetta eru þeir sem gera ekkert gagn. Sem eru stundum kallaðir „afætur.”

Í bók sinni, Tribe: On Homecoming and Belonging, fjallar kvikmyndagerðarmaðurinn Sebastian Junger um þróunartengdar rætur hugmyndarinnar um afætuna. Og auðvitað er það satt hjá honum að hægrisinnar í nútímapólitík hafi ekki fundið upp þá hugmynd. Ekki einu sinni postularnir. Við getum öll samþykkt það að í aðstæðum þar sem engin ofgnótt er af vistum geti það beinlínis verið lífsspursmál að koma í veg fyrir að meðlimir í hópnum sem komi sér undan verkum fái skerf af matnum.

Ef nógu margir temdu sér slíka hegðun myndi ættbálkurinn hreinlega deyja út. Junger fullyrðir því að þeir sem svindli bætur út úr almannatryggingakerfinu séu réttilega fordæmdir af samfélaginu vegna þeirra fjármuna sem glatist við slíkt svindl. En jafnframt bendir hann á að þeir bankamenn sem ollu heimshruninu árið 2008 beri mörgþúsundfalt stærri sök á því að fjármuni skorti í ríkiskassann.

Þessi samanburður á afætum er vel hugsaður að svo miklu leyti að hann keyrir í kaf málflutning þeirra sem hrakyrða bótaþega á sama tíma og þeir bera blak af bankamönnum. En samanburðurinn við afæturnar á forsögulegum tíma er þó örlítið vanhugsaður. Með því á ég alls ekki við að bókin sé alslæm, enda er meginpunktur hennar sá að einstaklingshyggja nútímans sé ósamrýmanleg eðli okkar sem félagsverum og að samhugur og samhjálp séu óaðskiljanlegir hlutar af eðli okkar sem spendýr. En aftur að afætunum. Hvað á ég við með að gildisdómar okkar varðandi þær séu vanhugsaðar?

Árið 1930 taldi hagfræðingurinn John Maynard Keynes að við lok tuttugustu aldarinnar yrði tæknin orðin slík að við myndum ekki þurfa að vinna meir en fimmtán stundir á viku. Hvers vegna gerðist það ekki? Svarið er einfalt: Það gerðist. Möguleikinn varð til. En í stað þess að mannkynið allt fengi að njóta þeirrar framleiðniaukningar sem vélvæðingin hafði í för með sér lenti meira af auði veraldar í vösum átta milljarðamæringa en í höndum fátækari helmings jarðarbúa. Og skiptakerfi okkar (sem gengur fyrir hreyfiaflinu gróðavon) leiðir af sér sóun rétt um þriðjungs allra matvæla á plánetunni. 

Þetta er ekki skortur. Þetta er ekki náttúrulegt. Og þetta er ekki óhjákvæmilegt. Þetta er rányrkja örfárra á kostnað okkar hinna. Við erum ekki með tómar hirslur. Við erum föst í fyrirkomulagi sem verðlaunar græðgi og sjálfselsku og velur það að verja séreignarétt fram yfir það að útrýma hungri. Vandamálið er því ekki letingjar sem neita að hjálpa litlum gulum hænum að búa til brauð. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af lötum afætum. Þegar fólk segist ekki nenna í vinnuna þá er það ekki vegna þess að það nenni ekki að gera neitt. Við þurfum að skoða aðeins nánar skilgreiningu okkar á vinnu.

Orðatiltæki eins og: „We work hard and we play hard” og „All work and no play” endurspegla vissa tvíhyggju. Leikur er eitthvað sem við veljum að gera. Vinna er eitthvað sem við neyðumst til að gera, flest okkar af þeirri einföldu ástæðu að öðruvísi náum við ekki endum saman. Við skulum því ekki rugla þessum skilningi á hugtakinu vinna saman við það að hafa eitthvað fyrir stafni.

Það að hafa eitthvað að gera í lífinu er okkur lífsnauðsynlegt. En vinna hefur ekkert gildi í sjálfri sér. Gildi hennar helgast af því hversu mikið gagn og gaman við höfum af henni og hversu mikið hún gagnast (og eða skemmtir) öðrum. Til dæmis er mun betra fyrir samfélagið og heimsbyggðina alla að sitja heima hjá sér og lesa atómljóð en að vinna á olíuborpalli eða í kjarnorkuveri.

Flestum er líka kunnugt um misræmið milli þess raungildis sem umönnun (á heimili eða utan þess) hefur fyrir samfélagið og þess skiptagildis sem hún hefur. Þeir sem annast sjúklinga, börn eða aðra sem þarfnast aðstoðar og stuðnings fá mun minna fyrir framlag sitt en t.d. þeir sem ollu alþjóðlegu efnahagshruni árið 2008 með glæfraleikjum sínum með fjármuni. Hvor skilar meiru til samfélagsins? Leikskólakennarinn eða áhættufjárfestirinn? Við vitum öll svarið við þeirri spurningu. En hvers virði eru þá umönnunarstörf í raun og veru í krónum, evrum eða dollurum? Við vitum öll að það er ekki hægt að svara þeirri spurningu. Sumt er einfaldlega þess eðlis að ekki er hægt að meta það til fjár.

Þess vegna eru það hol rök gegn borgaralaunum að ef fólk fái laun fyrir ekkert muni það verða til þess að enginn geri neitt. Manneskjur eru ekki þannig lífverur. Við þráum að hafa eitthvað fyrir stafni sem hefur jákvæð áhrif á umhverfi okkar. Við þráum að skapa. Auðvitað myndu sumir ekki gera rassgat. En leti er innantómt orð. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að suma skortir dug; lágur blóðsykur, þunglyndi, fíkn, bernskuáföll, erfitt uppeldi. Eigum við að láta það fólk deyja úr hungri bara af því að framleiðni þeirra er minni en framleiðni annarra? Mun vinnunauðung gera það fólk atorkusamara? Og hver er munurinn á vinnunauðung og þrældómi?

Nei, við erum fólk. Við pössum upp á hvert annað. 

Sannleikurinn er sá að við höfum öll gildi, burtséð frá vinnuframlagi okkar. Mannkynið er órofa lífræn heild. Þetta er ástæðan fyrir því að ójöfnuður er svona ómanneskjulegur. Hann gefur í skyn að manngildi sumra sé meira en manngildi annarra. Er Bjarni Ben meira virði en konan sem skúrar skrifstofuna hans? Nei, auðvitað ekki. Verður hann betri en hún ef hún missir vinnuna?

Við vitum öll svarið við því.

Hans störf eru jú sönnun fyrir því að vinna hefur ekkert gildi í sjálfri sér.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu