Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

#egbrennipeninga: Sagan af skammlífum gjörningi

#egbrennipeninga: Sagan af skammlífum gjörningi

Það var aldrei ætlunin að útskýra þetta. En mig langar samt til þess núna. Byrjum á fyrsta skiptinu.

Ég tók kókglasið hans pabba niður úr skápnum. Þetta stóra með hankanum á hliðinni sem framleiðandinn vissi örugglega ekki að neinn myndi nota í annað en bjórdrykkju af því að hann hafði aldrei kynnst pabba mínum. Sófaborðið var lágt þannig að ég kraup við það um leið og ég lagði kaleikinn niður og fjólubláan seðilinn við hliðina. Spjaldtölvan upp við glerið og gleraugun af. Listagjörninga frem ég yfirleitt gleraugnalaus. Og var þetta listagjörningur? Tja... gjörningur alla vega. Ég spáði ekkert í eðli hans á þessari stundu (listrænn? andlegur? pólitískur? frumspekilegur?) heldur eyddi ég allri orku minni í að hætta ekki við þetta. 

Eitt í einu; eldspýtuna úr stokknum, tendra hana og taka upp varnarlausan Brynjólfinn, líta á skjáinn til að sjá sjónarhornið... Það var ekki fyrr en á þeirri stundu sem það hvarflaði að mér að kannski væru peningar svo eldfimir að þeir myndu fuðra upp eins og halastjarna og taka stofuna með sér. Og hvað um reykinn? Loftið bærðist ekki mikið þarna inni. Kannski myndi lyktin aldrei fara. Hvað myndi pabba finnast? Of seint! Seðillinn stóð þegar í höndum mér skíðlogandi og skjótt minnkandi. Ég eygði hann um stund og lagði hann svo í glasið. Aska fór á teppið og glerið hitnaði meira en ég hafði búist við en að öðru leyti var útkoman nokkuð fyrirsjáanleg. Á yfirborðinu.

Tilfinningaviðbrögð mín voru stórfurðuleg. Ég fann til svo sterkrar sektarkenndar að mér leið eins og ég væri sjö ára. Maður gerir ekki svona! Skamm á puttana! Þetta glóði í hjartanu í góðar fimm mínútur eftir hvarf peningsins. Hjartslátturinn varð örari og ég spurði mig í hljóði: „Hvað var ég að hugsa?“ Reyndar áttu margir eftir að spyrja mig að þessu sama eftir því sem myndböndunum fjölgaði og ég átti alltaf örlítið erfitt með að svara því. En ég man hvaðan hugmyndin kom.

Í bók sinni, Revolution, dregur Russell Brand linsuna til baka og reynir að líta á hugsun okkar um peninga út frá heildarsamhengi. Með hliðsjón af innleggi mannfræðingsins Davids Graeber bendir Brand á að peningar séu bara peningar vegna samþykkis okkar; að án samþykkis okkar væru þeir bara pappír. Það er ekkert eilíft eða heilagt við skiptakerfið sem við notum. Við höfum það í hendi okkar að breyta því. Eða varpa því fyrir róða. 

En peningaáhyggjur lama okkur og gera það að verkum að við tilbiðjum þau litlu fjárráð sem við búum yfir. Sérstaklega seðla; peninga sem bankinn getur ekki tekið sér í fit-gjöld eða ríkið í skatta. Þúsundkall í hönd er eign manns sjálfs. Hann er aukabensín, bolur á krakkann eða máltíð fyrir fjölskylduna (jafnvel tvær ef maður getur eldað sjálfur). Á mínu bernskuheimili voru afkomuáhyggjur daglegt brauð sem ég vissi ekki mikið um. En afleiðingin af þeim var svo rík áhersla á sparsemi að geymdur eyrir varð að eins konar skurðgoði.

Þetta fatta margir ekki þegar þeir tala gegn efnishyggju. Eftirminnilegt er eftirfarandi textabrot úr laginu „Bót á rassinn“ með Mannakornum:

 

„Aurarnir eru ekki allt!“

er svo argað dag og nótt

en án þeirra verður mér kalt

og ég sef ei vært og rótt.

 

Að ógleymdri Möggu sem gat víst ekki hitað upp braggann sinn án þess að eiga „fjandans aur“ fyrir olíu. Þeir sem tala um pening sem rót alls ills gleyma því stundum að sjónarhornið er mismunandi út frá stéttarstöðu. Efnishyggja er nauðsynleg upp að vissu marki. Guðspjöllin eru smekkfull af boðum um að koma ekkjum og munaðarlausum til bjargar en þar er líka að finna eftirfarandi útlistun á hamlandi eðli jarðneskra eigna: „Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Lúkas 18:25) Og það er ekki auðurinn sjálfur sem er rót alls ills. Páll postuli (faðir kristninnar) skrifar: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteus 6:10)

Hvar stóð ég?

Augljóslega féll ég í fyrrnefnda flokkinn. Strákur úr Breiðholtinu sem varð tónlistarmaður og grunnskólakennari og lagði aldrei neitt fyrir. Ég var líkari Möggu í Bragganum en unga höfðingjanum í Nýja testamentinu. En á gönguferð heim eitt haustkvöld frá Holtaskóla upp á Ásbrú fann ég ákvörðun verða til í iðrunum. Ég vildi brenna peningaseðla og taka það upp og sýna fólki. Ég vildi að aðrir sæju þetta og færu að gera það sama án þess að ég útskýrði eitt né neitt. Svo sannfærður var ég um andlegt gildi verknaðarins að ég efaðist ekki í eitt sekúndubrot um að allir myndu apa þetta eftir mér. Það átti aldeilis ekki eftir að gerast.

Átta þúsund krónur urðu logunum að bráð árið 2016, frá mars fram í ágúst. Í fyrstu vildi ég leggja tvö þúsund krónur frá í gjörninginn í hverjum mánuði en ég átti erfitt með að koma því upp í vana. Ég þurfti að láta þúsundkall duga. Sveið mér sóunin? Ég veit ekki. Mér leið alltaf vel þegar ég gerði þetta. Eins og ég hefði hent af mér hnausþungum bakpoka. Samt var erfitt að hafa sig í framkvæmdina. Ég skil það persónulega ekki. Mér finnst ekkert rökrétt við að peningabrenna reynist manni erfið. Sóun er aðalsmerki neyslumenningar okkar. 

Er eitthvað rangara að kveikja í seðli en að eyða honum í áfengi? Má ekki segja að ég hafi átt sóunina inni vegna þess að ég fór aldrei á fyllerí? Það er líka gamalgróin klisja að maður „brenni peninga með því að kveikja í sígarettunni“ en reykingafólk var sumt hvert engu síður hneykslað á mér en hinir. Ég bar hugmyndina undir samherja mína á vinstri væng stjórnmálanna og þeir voru sumir á því að myndböndin kæmu út sem visst kaldlyndi gagnvart þeim sem þurfa að nurla saman hverri krónu til að ná endum saman. Og ég skil það sjónarmið. Pælingin er ekki í eðli sínu pólitísk. Hún nær dýpra. Alla leið niður á svið frumspekinnar. Sjálfan hafsbotn hugsunar okkar.

Staðreyndin að margir í samfélaginu gætu gert eitthvað gagnlegra við þúsundkall en að horfa á hann fuðra upp –jafnvel bjargað fjölskyldu sinni um næringu fram að mánaðamótum eða borgað næsta lyfjaskammt– er í senn ástæðan fyrir gjörningnum og ástæðan fyrir því að hann var erfiður. Sjálfur hef ég oft verið lent í svo miklu rassgati með reikningana að mér hefði þótt himneskt að finna fjólubláan seðil bak við sófasessu. 

Þess vegna get ég ekki orðað tilgang brennanna betur en sem svo að ég vil ekki elska peninga. Ég vil afhelga þá með því að fara illa með þá og losa þannig takið sem þeir hafa á sál minni. Ég vil að aðrir sjái mig gera þetta og finni fyrir sömu frelsisþörf og ég og að á endanum verðum við öll svo laus undan ægivaldi gjaldmiðilsins að við verðum reiðubúin að varpa af okkur fjötrunum. Losa okkur við kúgun auðvaldsins, jafnt úti í þjóðfélaginu sem inni í hausnum á okkur. Ég vil guðlasta gegn eina guðinum sem við dýrkum öll. Ég vil láta eins og ég sé frjáls þar til við verðum það öll og leggja þannig mitt af mörkum til byggingar nýja samfélagsins í skurn hins gamla.

Svo ákveðinn var ég í að halda þessu til streitu að ég strengdi þess áramótaheit að brenna þúsund krónur í mánuði allt árið 2017. En í júní það ár gerðist ég eiðrofi. Eftir sex brennur (tvær þeirra brenndu smettið af Jóni forseta í stað biskupsins) gafst ég upp. Ég veit ekki hvort ég hafi hætt að tíma þessu eða hvort innsæið hafi sagt mér að ég þyrfti ekki lengur á því að halda. Kannski beit loks á mig ábending eins vinar míns þess efnis að það væri eitthvað siðferðislega skakkt við það að brenna seðla þegar maður er ekki á sléttu gagnvart öllum sínum skuldunautum. En ég veit hvaða áhrif þetta hafði á mig.

Ég geri ennþá stundum skipulagsmistök og fæ óvænta reikninga í hendurnar og auðvitað finnst mér það ekki skemmtilegt. En ég velti mér ekki upp úr peningamissi á sama hátt og áður. Þessar þrettán þúsund krónur sem eldtungurnar sleiktu til ólífis voru gjaldið sem ég greiddi fyrir að geta sleppt takinu af burtflognu fé. 

Þetta snerist aldrei um að þykjast vera yfir það hafinn að eiga fyrir nauðþurftum heldur æðruleysi gagnvart því sem ég get ekki stjórnað. Og hver veit eiginlega, kannski sá einhver #egbrennipeninga og kenndi sama núnings í hjartanu og ég fann fyrir á melum Reykjanesskagans. Það tók mig rúmlega hálft ár að brenna fyrsta seðilinn eftir að hugmyndin varð til. Kannski munu fleiri slást í hópinn.

Ég veit. 

Það er ólíklegt.

En maður getur alltaf vonað.

Hver veit hvað sprettur af þessu. Alla vega fannst mér þetta ævintýralegt. Og þegar ég fór að rifja þetta upp allt saman varð til sú ákvörðun að skella í eina seðilbrennu í viðbót. Kannski til að kveðja gjörninginn. Kannski til að sjá hvort mig langi að endurvekja hann.

Ég skal ekki segja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu