Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ég vil ekki átök

Bræður og systur á hægri vængnum! 

Ég vil ekki átök.

Ég veit hvernig það hljómar. Sósíalisti sem vill ekki átök? Hvað er næst? Hákarl með veganúar-áskorun? Sósíalistar þrífast á átökum. Þeir vilja byltingu. Þeir vilja koma öllu á hliðina og byggja einhvers konar fyrirmyndaland úr rústunum. Eða hvað?

Áður en lengra er haldið ætla ég að byrja á að taka fyrir þessar þrjár ályktanir. Ekki er allt sem sýnist nefnilega.

#1: Sósíalistar þrífast á átökum

Hægt er að tala um að snákar þrífist í hitabeltisloftslagi eða að ísbirnir þrífist best á selkjöti. En sósíalistar eru manneskjur. Þar af leiðir að sósíalistar þrífast á því sama og allir aðrir. Persónuleikar eru eins mismunandi og manneskjurnar eru margar en dýrategundin homo sapiens sapiens vill kærleika, næringu og skjól. Ef meiningin með fullyrðingunni er sú að sósíalistar vilji átök þá er sannleikskorn í því. Að þrífast á einhverju hefur með frumþarfir manns að gera. En að vilja eitthvað getur stafað af alls kyns hvötum. Þannig að þegar ég segi í byrjun textans að ég vilji ekki átök þá er ég ekki alveg nógu nákvæmur. Við skulum orða það svona:

Átök eru ekki það sem ég vil.

Ég skal segja ykkur smá leyndarmál, bræður og systur á hægri vængnum: æðsta markmið sósíalista er að geta hætt að vera sósíalistar.

Nú erum við komin aðeins nær sannleikanum. Átök eru ekki markmið mitt eða annarra sósíalista. Við viljum átök á sama hátt og við viljum drullusokk. Hann er ekki eftirsóknarverður í sjálfum sér. Maður verslar ekki drullusokk og stillir honum upp í sýnigleri inni í stofu hjá sér. Hvenær vill maður drullusokk? Þegar klósettið stíflast. Eins ómerkilegur og hann er þá er hann besti vinur manns þegar allt er stopp. Ef valið stendur milli þess að láta klósettið fyllast eða troða þessu gúmmíapparati ofan í skálina þá velur maður auðvitað hið síðarnefnda.

Frekar drullusokk en yfirflæði.

Frekar átök en óréttlæti.

Ég skal segja ykkur smá leyndarmál, bræður og systur á hægri vængnum: æðsta markmið sósíalista er að geta hætt að vera sósíalistar. Terry Eagleton orðaði það best:

„Að vera marxisti er, að þessu leyti, ekkert líkt því að vera Búddisti eða milljarðamæringur. Það er líkara því að vera læknir. Læknar eru öfugsnúnar sjálfseyðingarverur sem eyðileggja atvinnu sína með því að lækna sjúklinga sem þurfa svo ekkert á þeim að halda lengur. Takmark pólitískra róttæklinga er, á svipaðan hátt, að komast á þann stað að vera ekki lengur nauðsynlegir vegna þess að markmið þeirra væru orðin að veruleika.“

Við viljum ekki að allt logi í átökum. Við viljum það sama og þið. Við viljum gleðina og friðinn sem Pálmi Gunnars söng um í gamla daga. Það er bara enginn fótur fyrir gleði eða frið á meðan sumir eru fjáðir en aðrir fastir í afkomuóöryggi. Frá 1995 til 2017 jókst hlutur fimm efstu prósenta úr 17,3% í 22,6% (þar af tvöfaldaði efsta prósentið næstum hlutdeild sína – úr 5,2% í 9,4%) á meðan hlutur okkar hinna minnkaði úr 82,7% í 77,4%.

Þetta gerðist ekki óvart. Þetta gerðist vegna þess að eignastéttin hafði vald til að láta það gerast. Þess vegna eru átök.

#2: Sósíalistar vilja byltingu

Ókei, þessi fullyrðing er ekki beinlínis ósönn. Ég ætla ekki að ljúga að ykkur. Ég vil byltingu. En ekki stökkva á fætur og læsa útidyrunum. Ég veit alveg hvaða myndir þetta orð framkallar í huga ykkar. Ég horfi á sömu bíómyndir og þið. Við heyrum orðið bylting og sjáum fyrir okkur Ché Guevara með riffilinn í Sierra Maestra fjallgarðinum, fallaxir í París eða Rómanoff-fjölskylduna frammi fyrir aftökusveit í Vetrarhöllinni. En bylting lýsir sér alls ekki alltaf þannig.

Verkalýðsforystan hefur ósköp einfaldlega ekki þann lúxus að biðja auðvaldið kurteislega um umbætur og bíða eftir að þær verði að veruleika á þeim snigilshraða sem verið hefur.

Ég veit reyndar líka að ekkert ykkar heldur í alvöru að sósíalistar á Íslandi hvetji til slíkra aðgerða. Hér á landi erum við góðu vön í þeim efnum. Þegar slær í brýnu milli átakaaðila er sjaldnast um líkamlegt ofbeldi að ræða. Þess vegna er háttvísistaðall okkar svona hár. Þannig að þegar verkalýðsleiðtogi mætir á vinnustað til að auðvelda félagsmönnum að kjósa um verkfallsaðgerðir og hann vísar henni á dyr fyrir að hafa ekki verið nógu kurteis þá finnst sumum eins og deilan sé orðin of heit. Og í kjaraviðræðum er strunsað út af fundum og harðorðar yfirlýsingar gefnar út á báða bóga.

„Verkfallshótanir og ókurteisi!“ hvá sumir. „Þetta viljum við ekki sjá!“

Ég skal segja alveg eins og er. Yfirleitt myndi ég ekki vilja sjá hótanir og ókurteisi heldur. Jákvæð samskipti eru alltaf uppbyggilegri en neikvæð. En verkalýðsforystan hefur ósköp einfaldlega ekki þann lúxus að biðja auðvaldið kurteislega um umbætur og bíða eftir að þær verði að veruleika á þeim snigilshraða sem tíðkast hefur. Þeir sem vinna fulla vinnu fyrir laun sem duga ekki til framfærslu hafa ekki tíma til að fara hægt í sakirnar og málsvarar þeirra væru að bregðast skyldu sinni ef þeir væru jafn afslappaðir gagnvart vandamálinu og forverar þeirra voru.

Bylting þýðir í grunninn ekkert annað en algjör viðsnúningur, hvernig sem honum er annars komið í kring. John F. Kennedy var enginn vinstri róttæklingur en fyrir sex áratugum sagði hann að þeir sem gerðu friðsamlega byltingu ómögulega gerðu ofbeldisfulla byltingu óhjákvæmilega. Við erum, hvað sem ókurteisi líður, enn á þeim stað að geta komið nauðsynlegum viðsnúningi í kring án ofbeldis. Og við þurfum ekki einu sinni að hrinda byltingunni af stað. Hún er komin af stað. Byltingin er valdefling hinna eignalausu. Það eina sem við þurfum að gera er að hætta að standa í vegi fyrir henni.

Hún mun vera okkur öllum til góðs.

#3: Sósíalistar vilja reisa fyrirmyndarland úr rústum núverandi skipulags

Sovét-Ísland Jóhannesar úr Kötlum og framtíðarlandið í Maístjörnu Laxness eru vel þekkt. Bahliðin á heift sósíalista í gegnum tíðina hefur verið þrá þeirra eftir tilurð einhvers konar samfélagslegrar fullkomnunar. Dúettinn Plató orðar þetta á ógleymanlegan hátt:

 

„Það er tími til kominn að henda þeim út!

Um hálsinn berum við rauðan klút!

Hendum þeim fyrir hundana!

Látum þá drekka hland!

Og hér mun rísa fyrirmyndarland!“

 

Er þetta það sem við viljum? Brjóta kerfið í mél og smíða eitthvað stórkostlegt í staðinn? Já… og nei. Ég vil byrja á því að koma því á framfæri að, fyrir mína parta (og ég held að ég tali fyrir munn allra yfirlýstra sósíalista á Íslandi), vil ég ekki gefa neinum hland að drekka eða gera þá að hundamat. 

En hvað með fyrirmyndarlandið?

Orðið útópía er mjög gagnlegt í þessu samhengi. Það getur þýtt bæði „góður staður“ og „enginn staður“ og það er kjarni málsins. Eins og fyrr hefur komið fram þá snýst byltingin um valdeflingu hinna eignalausu; um útvíkkun pólitísks frelsis yfir í efnahagslegu víddina. (Ég fjalla nánar um þörfina á þessu í annarri grein.) Þetta kemur heim og saman við orð hagfræðingsins Miatta Fahnbulleh um lýðræðisvæðingu efnahagsins. Þar af leiðir að hvorki ég né neinn annar sósíalisti getur ákveðið það upp á sitt einsdæmi (eða á reykfylltum samsærisfundi undir rússaperu með George Soros á línu tvö) hvernig samfélagið eigi að líta út.

Það eina sem sósíalísk samtök geta gert er að minna almenning á styrkinn sem felst í fjöldanum og óréttlæti núverandi samfélagsskipunar. Einar Ben orðaði það svona:

 

„Sjá, hin ungborna tíð vekur storma og stríð,

leggur stórhuga dóminn á feðranna verk. —

Heimtar kotungum rétt, — og hin kúgaða stétt 

hristir klafann og sér hún er voldug og sterk“

 Samfélag smíðað eftir heildstæðri forskrift eins hóps væri, eðli málsins samkvæmt, ósósíalískasta samfélag veraldar

Að vera hræddur við sósíalismann eða „fyrirmyndarland“ hans er að vera hræddur við okkur sjálf – við beint lýðræði. Útópía er staður sem við stefnum að og þegar við náum þangað þá setjum við stefnuna á næstu útópíu. Við stöldrum ekki við neins staðar. Slíkt væri stöðnun. Samfélag smíðað eftir heildstæðri forskrift eins hóps væri, eðli málsins samkvæmt, ósósíalískasta samfélag veraldar. Ekkert þjóðfélag er fullkomið og allar verðugar umbætur á íslensku samfélagi hafa orðið fyrir tilstilli baráttu hinna eignalausu. Lýðræðið er ekki gjöf yfirvaldsins heldur ávinningur stéttabaráttunnar.

Bræður og systur á hægri vængnum!

Við þurfum ekki að óttast hvert annað. Treystum hvert öðru. Ísland er ekki, og var aldrei, stéttlaust samfélag eins og sum okkar lærðu í grunnskóla, það er satt. En við getum unnið saman að því að útrýma stéttamun og greiða götu réttlætisins. Þið viljið það sama og við. Og ekkert okkar vill láta neitt ykkar drekka hland.

Ég lofa.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu