Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þverpólitísk deilun og drottnun

Þverpólitísk deilun og drottnun

Þetta er ekki beinlínis góður mánuður í sögu samskipta ríkisins og sveitarfélaganna.

Í upphafi mánaðarins skrifaði ég um það útspil fjármálaráðherra og flokksfélaga hans í kjaraviðræður að banka ætti upp á hjá sveitarfélögunum og sækja þangað lækkun útsvars. Eðlilega gekk þetta ekkert sérstaklega vel í sveitarfélögin enda forsagan þekkt og viðbrögðin því viðbúin. Það eina sem gerðist var að Sjálfstæðismenn í Reykjavík nýttu tækifærið til að leggja fram tillögur sem samrýmdust þegar markaðri stefnu þeirra um lækkað útsvar og fleira og tengdu þær við kjaraviðræður. Þær tillögur voru felldar af meirihlutanum.

Fljótlega tók næsta drama við. Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út harðorða bókun um þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að frysta framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, án nokkurs samráðs við þau. Fjármálaráðherra hefur mestmegnis staðið í svörum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum og á þingi og málflutningur hans hefur ekki beinlínis verið í þá veru að sýna samstarfsvilja gagnvart sveitarfélögunum. Frekar er eins og beita eigi öllum mögulegum skrúfum á þau og draga enn frekar í land með fyrirheit um aukið samstarf við þau sem boðuð eru í stjórnarsáttmála.

Í svörum við fyrirspurn Smára McCarthy á þingi síðastliðinn mánudag sagði Bjarni meðal annars orðrétt að  „Við höfum sett í stjórnarsáttmálann að við séum opin fyrir samtali um gistináttagjaldið og mögulega tilfærslu þess.“ Í stjórnarsáttmálanum sjálfum segir hins vegar að „Gistináttagjald færist yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna.“ Munurinn þarna á milli er augljós og furðu sætir í hvaða tilgangi er verið að bakka með svo skýr fyrirheit.

Á meðan talar fulltrúi VG um að innlegg sveitarfélaganna í kjaraviðræður gæti falist í lækkun leikskólagjalda. Frekar ólíklegt verður að teljast að sveitarfélög þar sem Sjálfstæðismenn eru í meirihluta séu spennt fyrir því að fara þá leið, ekki frekar en að sveitarfélög þar sem þeir eru ekki í meirihluta séu spennt fyrir útsvarslækkunum. Almennt sýnist mér svo fyrst og fremst sem að sveitarfélög óháð flokkum hafi litla þolinmæði gagnvart því að ráðherrar og þingmenn segi þeim hvað þau eiga að gera án þess að vera í samtali við þau. Hvað þá að talað sé út og suður um það.

Stjórnarflokkarnir virðast þannig ekki vera með neina samræmda stefnu um aðkomu sveitarfélaganna að kjaraviðræðum, sem leiðir til þess að fólk talar einfaldlega út frá sínum áherslum og nýtir tækifærið til að koma sínum stefnumálum á framfæri. Ég held það hafi verið ögn ósanngjarnt hjá mér í fyrri pistli að kenna Sjálfstæðismönnum um ástandið og ég held núna að þeirra framganga sé birtingarmynd vandans frekar en vandinn sjálfur. Þegar engin önnur sýn er til staðar er viðbúið og eðlilegt að fólk grípi til þess sem það þekkir og hefur sannfæringu gagnvart. Slíkt ástand er hins vegar ólíklegt til að leiða til sátta. Sveitarfélögin virðast fyrir sitt leyti samstillt í því að kalla eftir alvöru samstarfi við ríkið um samræmdar aðgerðir. Það er bolti sem á alveg að vera hægt að grípa samstillt í stað þess að grýta honum til baka og sín á milli.

Stjórnarsamstarf flokka þvert yfir vinstri og hægri línur átti víst að vera einstakt tækifæri til að vinna lausnamiðað og gera málamiðlanir. Finna skapandi lausnir í stað þess að festast í kreddum. Ég er algjörlega sammála því að það getur alveg verið það. Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart sveitarfélögunum þykir mér hins vegar vera til marks um að hið gagnstæða sé í gangi. Það að ekki sé einu sinni hægt að tala skýrt um það sem stendur orðrétt í stjórnarsáttmála bendir eitt og sér til mikilla bresta. Vonandi verður hægt að greiða úr því. Það er engan veginn of seint en það krefst þess að allir aðilar kyngi smá stolti, leggi niður kreddubareflin og ákveði að setjast niður með öllum helstu hagsmunaaðilum sameiginlega til að ræða raunverulegar lausnir.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni