Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trumpkjaftæðið

Trumpkjaftæðið

Rétt er að hafa eitt atriði á kristaltæru.

Aðgerðir nýkjörins Bandaríkjaforseta í fyrstu dögum embættis hans miða ekki að því að fylgja rökrænum stefnumiðuðum þræði þar sem markmið eru skilgreind og viðeigandi tækjum beitt til að reyna að ná þeim fram - eins og almennt er talið að sé tilgangurinn með stjórnmálum og rekstri opinberra stofnana.

Þvert á móti miða þessar aðgerðir greinilega fyrst og fremst að því að prófa hversu miklum völdum er hægt að sanka að sér á stuttum tíma og láta reyna á varnir gegn valdníðslu.

Á þetta sér í lagi við um gerræðislega tilskipun um að stöðva skyndilega komu alls fólks frá völdum ríkjum. Hún hefur vakið hörð viðbrögð um allan heim og hafa ýmis mannréttindasamtök og þjóðarleiðtogar fordæmt hana harðlega.

Hvers vegna veit ég að tilskipunin er fyrst og fremst rugl sem er ekki ætlað að halda rökrænum þræði? Jú, vegna þess að allur málflutningur í kringum hana er mótsagnakenndur og til þess eins að rugla í fólki. Svona brögð eru klassískur fylgifiskur andlegs ofbeldis - ætlað að brjóta niður mótstöðu og eyða orku fórnarlambsins í að reyna að átta sig á því sem í raun er tilgangslaust að reyna að átta sig á.

Gott dæmi er sá vitleysismálflutningur Trump og liðsmanna hans að þetta sé í raun bara mjög svipað og Obama gerði gagnvart flóttafólki frá Írak árið 2011. Hann stenst ekki lágmarksskoðun með gleraugum rökfræðinnar. Trump barðist nefnilega og vann kosningabaráttuna á þeim grundvelli að Obama hafi verið linur í innflytjendamálum og að Trump ætlaði sér að taka almennilega á þessum málum. Að halda því fram núna að aðgerðir hans séu bara framlenging á aðgerðum Obama gengur algjörlega og augljóslega í berhögg við þann málflutning. Eini tilgangurinn er að rugla og þæfa, skapa umræðu um aukaatriði.

Frekari heilasellum er ekki í þetta eyðandi og þessu á ekki að svara með rökum - þessu á að svara með andmælum, ekki frekar eins og öðru ofbeldi og yfirgangi er hægt að svara með rökum. Því þetta er ekkert annað en kerfislægt ofbeldi og yfirgangur; ríkisvaldið notað sem sleggja án þess að skeyta nokkuð um hver verður fyrir henni.

Því á til dæmis ekki að reyna að andæfa með einhverjum rökfærslum að íslenskur ríkisborgari hefur orðið fyrir þessari sleggju.

Það á einfaldlega að nota viðeigandi orð yfir þessa svívirðu, eins og forseti ÍSÍ gerir: Sorglegt og ógnvekjandi.

Það myndi ég meira að segja telja hófstillt orðalag. Því miður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni