Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Innflytjendavandamálið

Innflytjendavandamálið

Nú er enn og aftur rætt um að það sé ekki rætt nógu skýrt um innflytjendavandamál.

Það má vera sammála því að kerfið í kringum innflytjendur er um margt þunglamalegt og þjónar oft illa innflytjendum sem og okkur hinum. Það er til dæmis langt í frá besta fyrirkomulagið að taka við fullt af fólki sem er hérna bara tímabundið við misjafnar aðstæður en er svo skipað að fara. Það má í raun hugsa sér fátt verra. Þetta einfalda atriði vill stundum gleymast í hita umræðunnar. Það væri vissulega mjög til bóta ef allir gætu formlega fallist á þetta atriði og að þarna þurfi að leita lausna.

Lausnirnar eru frekar einfaldar ef viljinn er fyrir hendi. Að auðvelda fólki sem hefur áhuga og getu til að koma til landsins og koma sér fyrir í samfélaginu og í vinnu, sama hvar það býr í heiminum. Hjálpa því að setjast að til lengri eða skemmri tíma, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Stuðla eins og hægt er að því að ekki verði óhófleg menningar- og stéttaskipting milli innfæddra og innflytjenda. Taka fólki fagnandi.

Það er að segja ef við viljum taka fólki fagnandi á annað borð.

Hin lausnin felst í því að fara hina áttina. Þrengja enn frekar að komu fólks til landsins.

Munurinn felst í því hvort við viljum líta á kerfið í kringum innflytjendur sem vandamál eða hvort við viljum líta á innflytjendur sem vandamál.

Að sjálfsögðu þurfa allir að tala skýrt um hvor leiðin hugnast þeim best. Ekki bara tala um hvað þetta er svakalegt vandamál og hvað allir aðrir séu nú óduglegir við að koma með lausnir.

Slíkt er í skásta falli tilgangslítil orðræðupólitík - en í versta falli daður við þá lausn að þrengja að innflytjendum án þess að þora að segja það skýrt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni