Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fréttablaðssiðferðið

Fréttablaðssiðferðið

Í Bakþönkum Fréttablaðsins síðastliðinn laugardag sem og á vefútgáfu blaðsins birtist pistill eftir Sirrýju Hallgrímsdóttur sem bar titilinn Píratasiðferðið.

Þar sakar hún Pírata, sem hún virðist hafa ákveðið dálæti á að hatast út í, um hræsni þegar kom að gagnrýni á kosningu Bergþórs Ólasonar í stöðu formanns umhverfis- og samgöngunefndar. Útgangspunkturinn var að 'Píratar' (ónefndir) hafi ákveðið að greiða ekki atkvæði gegn honum og komið með þá skýringu að þeir hafi ekki verið til í að gefa eftir formennsku Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í annarri nefnd.

Staðreyndin er hins vegar sú, eins og Björn Leví Gunnarsson sem er áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd hefur bent á, að enginn Pírati var í stöðu til að ákveða að greiða ekki atkvæði gegn formennsku Bergþórs. Áheyrnarfulltrúi er ekki með atkvæðisrétt en Björn Leví lét bóka eitt orð við atkvæðagreiðsluna: Nei.

Sirrý hefur brugðist við þessari ábendingu með því að viðurkenna að hafa farið með rangt mál en segir þessa staðreynd samt í raun aukaatriði, þar sem táknræn mótmæli af þessu tagi hafi í raun ekkert að segja þegar búið er að komast að samkomulagi um annað bakvið tjöldin.

Gott og vel. Það er mögulega eitthvað til í því að ef þingflokkur Pírata hefði raunverulega viljað ganga alla leið til að tryggja að Bergþór yrði ekki formaður þá hefði verið hægt að gera það með því að gefa eftir stól Þórhildar Sunnu. Það vekur hins vegar eðlilega spurningar um hvort ábyrgðin liggi raunverulega þar, eða hjá meirihlutanum sem gaf einfaldlega þau skilaboð að þetta væri vandamál minnihlutans til að leysa sem kæmi stjórnarflokkunum ekkert við. Þetta er einfaldlega ekki jafn sterkur punktur og sá að geta hankað 'Pírata' á því að hafa ekki greitt atkvæði gegn Bergþóri þegar á reyndi - það er algjör útgangspunktur í pistli Sirrýjar og án hans þá hrynur hann í raun til grunna. Í stað þess að ganga alla leið með að viðurkenna það þá þykist hún bara samt hafa rétt fyrir sér, útgangspunkturinn sé í raun aukaatriði. Það er augljóst að hún er að breyta alveg um forsendur þegar það átti að hafa verið rosaleg hræsni að hafa ekki kosið gegn Bergþóri, en svo bara einhver táknrænn gjörningur sem skipti í raun engu máli að bóka gegn honum (hvort tveggja hefur engin áhrif á lokaniðurstöðuna; að Bergþór var kosinn formaður).

Allt stendur þannig eftir þvældara en áður með innkomu Sirrýjar í þessa umræðu, þar sem hún fór ónákvæmlega og rangt með lykilstaðreynd um starfsemi Alþingis. Að einhverjir ónefndir Píratar hafi ekki kosið gegn Bergþóri, þegar enginn Pírati var í stöðu til þess, er alvarleg rangfærsla um það sem fram fór á vettvangi þingsins í málinu. Hún virðist fyrst og fremst hafa orðið til vegna þess að Sirrý er mjög í nöp við Pírata almennt og nennir ekki að vinna lágmarks heimavinnu þegar kemur að því að reyna að hanka þá. Skýtur fyrst og spyr svo.

Það er samt í sjálfu sér ekkert hræðilegt mál. Fullt af fólki skrifar alls konar hluti af mismikilli vandvirkni sem litast af skoðunum þess og þau skrif eru misnákvæm. Fólk er síðan misjafnlega mikið til í að bakka þegar það rekur sig á í umræðunni. Ég hef sjálfur gerst sekur í þessum efnum stundum.

Það sem mér finnst hins vegar alvarlegt í þessu máli er að hér er um að ræða launaðan (eftir því sem ég best veit) pistlahöfund sem ritstjórn Fréttablaðsins sérvelur og veitir pláss á áberandi stað í blaðinu. Í stað þess að bera til baka rangfærslu pistlahöfundarins gerir miðillinn sér fréttamat úr því að þarna sé orðin einhver svakaleg ritdeila milli pistlahöfundarins og Pírata; þetta snúist í raun bara um einhvern skoðanaágreining fólks úti í bæ sem sé fréttnæmur. Komi miðlinum ekki við að öðru leyti. Höfundur fréttarinnar um ritdeiluna er einn af ritstjórum Fréttablaðsins.

Fréttablaðið er þannig vísvitandi að taka þátt í upplýsingamengun, fyrst með því að gefa rangfærslu pláss í handvöldum pistlaskrifum og síðan með því að gera ekkert í því að tryggja að sannleikurinn sé skýr eftir að bent hefur verið á rangfærsluna. Fréttablaðið einfaldlega þvær hendur sínar. Er það kannski miðlinum hreinlega þóknanlegt að rangfærslan hafi vakið deilur sem smjatta má á í fréttaflutningi? Er það tilgangurinn með vali á pistlahöfundum, að vekja deilur og umtal, á kostnað sannleikans?

Hér tel ég að Fréttablaðið skuldi skýringar á því hver ritstjórnarstefnan gagnvart þessum pistlaskrifum er eiginlega. Ritstjórnin ber fulla ábyrgð á vali á pistlahöfundum sem og þeirri ákvörðun að leiðrétta ekki augljósa rangfærslu sem kom fram í pistli. Ásökun um athafnaleysi á þeim bænum held ég að eigi mun ríkari rétt á sér en ásökun Sirrýjar um athafnaleysi Pírata gagnvart Bergþóri Ólasyni.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni