Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fjármál sveitarfélaga 2018

Fjármál sveitarfélaga 2018

Nú er vor í lofti og vorboðinn ljúfi er að skila sér heim. Þar er ég vitaskuld að tala um ársreikninga sveitarfélaga, sem almennt eru afgreiddir í maí.

Þegar ég sat í borgarstjórn tók ég upp á því að skrifa árlega bloggpistila um þetta leyti með samantekt á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaganna. Ég ætla að halda uppteknum hætti þrátt fyrir að ég hafi yfirgefið þann vettvang, þar sem ég hef ennþá áhuga á efninu.

Síðasti bloggpistill min var um stirð samskipti ríkis og sveitarfélaga um fjármál. Framkoma ríkisins gagnvart sveitarfélögunum hefur kynt hressilega undir langvarandi erjur sem ég hef sjálfur fjallað um allt frá fyrsta fjármálapistli mínum þar sem ég vitnaði í orð bæjarstjóra Garðabæjar um að ríkið hefði ekki brugðist við áskorun sveitarfélaga um endurskoðun á tekjustofnum þeirra. Það hefur enn ekki gerst og því heldur ágreiningur áfram.

Þegar sviðið 2018 er skoðað eru flest sveitarfélög reyndar rekin með afgangi bæði í A-hluta og samstæðu, þannig að hjá einhverjum vaknar mögulega sú spurning af hverju þau eru þá að kvarta yfir sinni stöðu. Svarið við því er að þau eru í þeirri snúnu stöðu að vera bæði fjárhagslega aðþrengd en verða samt sem áður lögum og almennum skyldum samkvæmt að reka sig í plús. Þetta er án efa hvergi gert alveg sársaukalaust. Það er því ósanngjarnt að benda á þá staðreynd að þau nái almennt að halda sér á floti sem mótrök gegn því að umhverfi þeirra þarfnist endurskoðunar.

Sveitarfélögunum gengur líka misvel að halda sér á floti. Fyrir utan Akureyrarbæ og Árborg, þar sem A-hluti er rekinn í halla en samstæða með afgangi, þá heldur Seltjarnarnesbær áfram að reka sig í töluverðum halla. Hallinn í fyrra er 264 milljónir í A-hluta og 174 milljónir í samstæðu. Seltjarnarnesbær sker sig líka verulega úr þegar kemur að þróun skulda, en skuldir og skuldbindingar samstæðu hækka um heil 51,6% milli ára. Ég finn reyndar ekkert sveitarfélag þetta árið þar sem þessi tala er ekki að hækka, en til samanburðar er hækkunin t.d. 8% í Reykjavík, 16% í Garðabæ, 3,7% í Mosfellsbæ, 3,5% í Kópavogi, 7% í Hafnarfirði , 11% í Reykjanesbæ og 9,5% í Árborg.

Nú er það ákveðin mantra hjá sumum, helst þeim sem eru með það á heilanum að Reykjavíkurborg sé sérstaklega illa rekin, að sveitarfélög eigi ekki að vera að hækka skuldir núna - þar sem nú sé góðæri. Það stendur því á þeim að útskýra af hverju öll sveitarfélög eru að hækka skuldir milli ára núna og sér í lagi Seltjarnarnesbær um helming.

Ég lýk þá pistilinum á svipuðum nótum og þessir pistlar enda oftast, með ábendingu um að þar sem tölurnar sýna fram á að staða sveitarfélaga er almennt svipuð og að Reykjavíkurborg er greinilega ekkert áberandi illa rekin, að þá sé engin ástæða til annars en að láta ekki gömul trúarbrögð sem snúast í kringum það að mega aldrei viðurkenna að borgin sé sæmilega vel rekin draga öll sveitarfélögin niður. Nú er greinilega, miðað við stöðuna, búið að festast rækilega í sessi eitt orð sem skýtur niður alla slíka orðræðu: Seltjarnarnesbær. Þar er varla annað í boði en að annað hvort viðurkenna að ytri áhrif séu að þrengja að bænum og að rekstrarumhverfið þarfnist því endurskoðunar, eða að fara þá leið að skella skuldinni á lélega rekstrarhæfileika þeirra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem þar sitja í meirihluta.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni