Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Fjármál sveitarfélaga 2017

Fjármál sveitarfélaga 2017

Nú er þessi tími ársins. Ég hef áður skrifað um fjármál sveitarfélaga 2016 og 2015 þegar ársreikningar þeirra hafa komið fram og þetta er því orðinn árlegur viðburður.

Tvennt einkennir einkum rekstur sveitarfélagana þetta árið. Annars vegar áframhaldandi auknar tekjur og hins vegar áhrif af uppgjöri við A-hluta Brúar lífeyrissjóðs (áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga), sem er til komið vegna breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Sveitafélög gera þessa umtalsverðu skuldbindingu gagnvart Brú upp með mismunandi hætti og mishratt. Reykjavíkurborg gerði þetta allt upp undir lok síðasta árs og greiddi meira en tvo þriðju með handbæru fé. Samt sem áður var borgin rekin með umtalsverðum afgangi á árinu, líkt og sjá má í ársreikningi hennar. Seltjarnarnesbær greiddi hins vegar eingreiðslu sem leiddi til þess að bærinn var rekinn með tapi og boðar lántöku á þessu ári til að gera upp það sem eftir stendur. Ekki hafa allir á Seltjarnesi þolinmæði gagnvart þessari fjárhagsstöðu og ástæðum hennar en nú er komið sérframboð þar til höfuðs Sjálfstæðisflokknum. Það tel ég persónulega nokkuð ósanngjarnt þar sem aðstæður eru um margt sérstakar. Hjá Reykjavíkurborg leiddi fullt uppgjör við Brú ekki til þess að borgin var rekin með tapi en það hefur hins vegar hækkað skuldir A-hluta nokkuð frá því sem þær voru komnar niður í. Skuldir munu líka hækka síðar hjá Seltjarnarnesbæ og öðrum sveitarfélögum sem eiga eftir að gera upp gagnvart Brú.

Eftir sem áður eru sveitarfélög þannig að vinna í sama umhverfi og eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að þeirra rekstrarumhverfi. Sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa samt sem áður ennþá að mála fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar sem allra dekkstu litum og halda þannig öllum sveitarfélögum niðri með slíkum gífuryrðum sem eru lítt tengd við veruleikann. Auðvitað er ekkert hægt að gera fyrir sveitarfélögin ef borgin er í ruglinu. Þessi lurkur er notaður á öll sveitarfélög og þau líða öll fyrir þetta bull. Þetta virðast hins vegar vera ákveðin trúarbrögð sem erfitt er að ganga af, jafnvel þó þau vinni gegn hagsmunum sveitarfélaganna.

Það hlýtur þó að reyna aðeins á trúarsannfæringuna þegar fjárhagsstaðan í Seltjarnarnesbæ er þannig að stofnað er sérframboð þeirra sem telja bæinn allt í einu illa rekinn af því ekki tekst að reka hann með afgangi við verulega sérstakar og krefjandi aðstæður. Það þarf verulega klofinn huga til að halda áfram að níða Reykjavíkurborg án þess að horfast í augu við stöðuna á Seltjarnarnesi. Vandinn þar er nefnilega að annað hvort kaupir fólk skýringuna á stöðunni í báðum sveitarfélögum, eða hvorugu þeirra. Skýringin í báðum tilfellum er nefnilega sú sama: Brú lífeyrissjóður.

Það er ákveðið karma í því að óbilgirni Sjálfstæðismanna gagnvart rekstri borgarinnar sé farin að hitta þá sjálfa fyrir í Seltjarnarnesbæ. Vonandi mun næsta ár einkennast af aðeins raunhæfari umræðu um stöðu Reykjavíkurborgar og þar með sveitarfélaga almennt. Sveitarfélögin hafa ekkert efni á því að þeim sé öllum haldið niðri af því það eru trúarbrögð hjá einhverjum að borgin hljóti bara að vera illa rekin, alveg sama hvaða staðreyndir gagna þvert á þau trúarbrögð.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu