Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Fjármál sveitarfélaga 2016

Fjármál sveitarfélaga 2016

Það er þessi tími ársins aftur. Ársreikningar sveitarfélaga eru komnir fram.

Skemmst er frá því að segja að útkoman er almennt alveg öfug við fyrra ár. Sveitarfélögin fara allflest úr tapi í hagnað.

Auknar útsvarstekjur hjálpa til; sennilega hafa sveitarfélögin verið aðeins á undan í launahækkanakúrfunni en það er að jafnast út núna. Útsvarstekjur af launum almennings þá betur í takti við laun starfsfólks sveitarfélaganna.

Auknar tekjur einar og sér duga þó ekki til að fara úr halla í afgang. Sveitarfélögin hafa brugðist við með hagræðingu og aðhaldi og náð þannig að halda aftur af útgjöldum. Hjá Reykjavíkurborg stóðst aðgerðaáætlun um hagræðingu að langmestu leyti, líkt og sjá má af því að útgjöld eru almennt undir áætlun.

Ég held að sveitarfélögin megi vera stolt af því að hafa brugðist við af ábyrgð og sniðið sér stakk eftir vexti. Á þau eru gerðar ríkar lagakröfur um reksturinn sem þau axla núorðið öll ágætlega. Þau sem hafa verið yfir lögbundnu skuldahámarki ná að skríða undir það.

Enn fellur þó sameiginlegt ákall sveitarfélaga um auknar tekjur til að standa undir auknum kostnaði t.d. af ferðamennsku fyrir daufum eyrum. Þau hafa lengi kallað eftir hlutdeild í gistináttagjaldi en nú þegar það hefur verið þrefaldað er ekkert af því að fara til þeirra. Svo þegar hækka á virðisaukaskatt á ferðaþjónustu er ekkert heldur fast í hendi með að nokkuð fari til sveitarfélaga; það er einungis nefnt sem möguleiki að gistináttagjald fari loks til þeirra. Ráðherrar virðast tala mikið um möguleika og að verið sé að vinna í þessu en hingað til hafa aðgerðir ekki verið í samræmi við talið - ríkið er að taka til sín en sveitarfélögin fá ekkert. Þetta er að sjálfsögðu ólíðandi þegar sveitarfélögin hafa vel sýnt fram á að þau axla sinn hluta ábyrgðarinnar.

Mögulega eru það enn og aftur bábiljur um að Reykjavíkurborg sé svo illa rekin sem koma niður á hagsmunum sveitarfélaganna. Það er auðvitað erfitt að viðurkenna að sveitarfélög eigi skilið auknar tekjur á meðan maður er að reyna að selja það kjaftæði að Reykjavíkurborg sé bara á hausnum (hér er ég svo það sé sagt beint út fyrst og fremst að hugsa til Sjálfstæðismanna). Það kjaftæði ætti hins vegar að slá af borðinu endanlega hið snarasta. Rekstrarniðurstaða ársins 2016 sýnir svo ekki verður um villst að borgin er í ágætum málum. Um það ætti ekki að þurfa að deila.

Sérstaða Reykjavíkurborgar frá hruni hefur alltaf falist fyrst og fremst í miklum skuldum Orkuveitunnar, en náðst hefur vel utan um þær. Að viðurkenna það afrek ekki er lítið annað en hælbítaháttur. Að Orkuveitunni frádeginni er ekkert í rekstrinum sem hægt er að benda á að sé með mikið öðrum hætti en hjá öðrum sveitarfélögum, jafnvel þeim sem stundum er bent á sem einstaklega vel rekin nágrannasveitarfélög borgarinnar. Það þarf töluverðan eindregin brotavilja til þess að handvelja tölur sem láta borgina líta illa út í samanburði - sem og vilja til að horfa framhjá þeirri staðreynd að Reykjavíkurborg er það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem ver langmestu til velferðarmála, margfalt á við sveitarfélögin sem eru með aðeins lægra útsvar.

Til að sýna fram á hversu auðveldir og augljósir slíkir talnaleikir eru, þá er líka hægt að gera hið gagnstæða. Tökum til dæmis allar skuldir og skuldbindingar A-hluta, sem er stærð sem Sjálfstæðismenn í borginni hafa reynt að gera mál úr. Skoðum þessa stærð fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og reiknum hversu mikið þetta er á íbúa. Niðurstaðan er þá:

Reykjavík: 684.025.290 kr.

Kópavogur: 1.100.562.800 kr.

Garðabær: 686.002.854 kr.

Mosfellsbær: 1.097.258.833 kr.

Seljarnarnes: 398.200.227 kr.

Þannig sést að skuldir og skuldbindingar samtals á íbúa eru næstlægstar í Reykjavík. Hin sveitarfélögin hafa verið undir stjórn Sjálfstæðismanna í mörg ár, sum alltaf. Þetta finnst mér hins vegar í raun ekki segja neitt annað en að staðan er nokkuð svipuð alls staðar og að sveitarfélögin eigi sameiginlega hagsmuni af því að viðurkenna þá stöðu. Það bull að útmála Reykjavíkurborg, gegn betri vitund, sem hræðilega illa rekið sveitarfélag heldur aftur af þeim öllum. Þetta er skaðlegt og því er óþarfi að sýna meðvirkni.

Heilbrigðara er að gera kröfu um að fólk takist frekar á um raunverulegar pólitískar og hugmyndafræðilegar línur í því hvað á að felast í rekstri sveitarfélaga. Að þurfa að búa sér til einhverja mynd af stöðu mála sem er í litlu samræmi við raunveruleikann, öðrum til minnkunnar, sýnir einfaldlega málefnafátækt og lítilmennsku.

Sjálfstæðismenn stjórna mörgum sveitarfélögum og ættu þannig að vera í kjörstöðu til að halda sameiginlegum hagsmunum þeirra á lofti og vinna með félögum sínum í ríkisstjórn að því að tryggja þá. Sú staðreynd að Reykjavíkurborg er ekki eitt af þeim sveitarfélögum sem flokkurinn stjórnar ætti ekki að vera þarna stöðugur dragbítur. Stórmannlegra og uppbyggilegra væri að viðurkenna að fleiri geta rekið sveitarfélög með sómasamlegum hætti og takast frekar á um eitthvað sem skiptir raunverulegu máli. Af nægu ætti að vera að taka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu